06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3386 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

431. mál, samgöngumál í Ísafjarðarsýslu

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eftir því sem batnandi vegakerfi hefur auðveldað samgöngur á landi hefur athygli manna beinst æ meir að þeim byggðarlögum sem ekki verða slíkra bóta aðnjótandi nema með stórátaki. Þetta á við um byggðir á norðanverðum Vestfjörðum sem einangrast hver frá annarri um lengri eða skemmri tíma ár hvert. Ljóst er að vandi þeirra verður ekki leystur til fullnustu nema þær verði tengdar með jarðgöngum. Í skýrslu sem samgöngunefnd Vestfjarða lét frá sér fara kemur fram að nm. telja að framtíð þessara byggðarlaga sé undir því komin að slíkt verði gert og það fyrr en síðar. Nefndin gerði tillögur um hvaða byggðir þyrfti að tengja á þennan hátt. Það eru Önundarfjörður, Súgandafjörður og þéttbýlin við Djúpið, Ísafjörður, Bolungarvík og Súðavík.

Vegagerðinni var á s. l. sumri falið að gera frumkönnun á þeim stöðum sem samgöngunefndin gerir tillögur um. Vettvangskönnun í því skyni lauk í haust sem leið. Athugaðir voru fimm valkostir, þrír milli Önundarfjarðar og súgandafjarðar, einn milli Súgandafjarðar og Bolungarvíkur og einn milli Súgandafjarðar og Skutulsfjarðar. Almennt má segja að góð mynd hafi fengist af svæðinu milli Súgandafjarðar og Ísafjarðardjúps, en þörf er á frekari úrvinnslu til að gera sér grein fyrir tengingu jarðlaga milli Súgandafjarðar og Önundarfjarðar:

1. Göng milli Önundarfjarðar og Sunddals eru útilokuð vegna jarðfræðilegra aðstæðna.

2. Göng milli Hólsselsdals og Grímsdals. Ekki er unnt að skoða berglög í Hólsdal undir 300 m yfir sjó vegna lausra jarðlaga og þar yrði erfið innganga. Göng yrðu nálægt jarðlagastriki, þ. e. þvert á jarðlagahalla, sem er hagstætt. Göng í 200 m hæð yfir sjó yrðu 4.2 km en í 100 m hæð yfir sjó 4.9 km. Líklega er Hólsdalur snjóþungur.

3. Göng milli Þverdals og Botnsdals. Nokkuð góð munnastæði eru í 130 og 180 m hæð við Þverdal og í 100 og 200 m hæð í Botnsdal. Göng í 180–200 m hæð yrðu 4.8 km en 5.8 km í 100–130 m hæð. Lega jarðlaga er ekki fullljós enn, en jarðlagahalli er hagstæður og göng yrðu því í fremur fáum lögum.

4. Göng milli Botnsdals og Reiðhjalla í Syðridal. Þessi göng lægju nokkuð nálægt strikstefnu jarðlaga og færu í gegnum fá lög, 4–5. Hraunlögin eru þykk, meðattal 10 m, sem er hagstætt, en rauð millilög eru líka fremur þykk, um 1 m, sem er óhagstætt, einkum þegar göng liggja samsíða strikstefnu. Munnar yrðu í ca. 100 m hæð yfir sjó í Botnsdal og 200 m yfir sjó í Syðridal og gangalengdin 4.2 km. 60–70 m misgengi í Syðridal gæti sett strik í reikninginn, en hugsanlega væri hægt að hafa göng utan við.

5. Göng milli Botnsdals og Tungudals. Stefna ganga yrði nokkuð nálægt jarðlagahalla og mundu þau skera 150–200 m af jarðlagastallanum, en það eru 15–20 hraunlög og jafnmörg millilög. Þessi lagafjöldi er óhagstæður en á móti kemur að lögin eru þykk og millilög fremur þunn. Gangamunni í Botnsdal yrði líklega í 180 m yfir sjó og í ca. 200 m hæð í Tungudal. Lengd þessara ganga yrði um 3.7 km.

Einn valkosturinn, jarðgöng í Sunddal, var útilokaður, en ekki verður að svo stöddu reynt að gera upp á milli hinna kostanna sem ég hér hef nefnt. Áhersla var lögð á að mæla þykktir og halla hraun- og millilaga og reynt að rekja lögin þvert í gegnum fjöllin þannig að unnt verði að áætla gegnum hvaða jarðlög göng mundu liggja. Einnig var hugað að sprungumyndun og fleiri þáttum sem hafa áhrif á gæði einstakra laga. Berggangar og misgengi voru sett á kort og skráð hvar ekki var unnt að skoða berglög vegna lausra jarðlaga.

Í vetur hefur verið unnið úr þeim gögnum sem safnað var í sumar og gerðir hafa verið uppdrættir af jarðlagasniðum og bergsýnishorn rannsökuð. Þessar upplýsingar munu koma fram í skýrslu sem byrjað er að taka saman. Hún mun fjalla um jarðfræðilegar aðstæður á því svæði sem hér um ræðir. Skýrslan mun væntanleg á sumri komanda. Að því loknu verða gerðar lauslegar tillögur um breytt vegasamband og jarðgöng hönnuð og frumáætlun gerð um kostnað. Endanlegar lausnir verða ekki unnar til fullnustu fyrr en áætlanir eru teknar um framkvæmdir, en eins og kunnugt er liggur ekkert fyrir um slíkt í langtímaáætlun þeirri sem lögð var fyrir Alþingi á s. l. vetri.

Seinni spurningin er um brúargerð yfir Dýrafjörð. Vetrarsamgöngur í innanverðum Dýrafirði hafa löngum verið erfiðar. Koma þar til snjóþyngsli og veðrahamur auk snjóflóða. Hefur því verið hugað að möguleikum á því að fara með veg yfir fjörðinn utast og losna þannig við fjarðarbotninn, enda er þar engin byggð. Árið 1974 athugaði Vegagerð ríkisins lauslega þann möguleika að fara yfir fjörðinn um Lambadalsodda. Sú athugun byggði á nokkrum mælingum en ekki fóru fram neinar umtalsverðar rannsóknir. Niðurstaða þeirrar athugunar varð sú, að umferð væri ekki nægileg til að framkvæmdin væri arðsöm. Í vegáætlun 1982 var síðan veitt fé til að kanna þetta mál frekar. Voru þá gerðar rannsóknir og mælingar á ýmsum þáttum málsins, einkum tæknilegum. Unnið var úr þeim athugunum á s. l. ári og í framhaldi af því voru gerðar kostnaðaráætlanir um nokkra valkosti og borin saman arðsemi þeirra.

Nú liggja fyrir niðurstöður þessara útreikninga. Eru þær í stuttu máli á þá leið að vegurinn um Lambadalsodda með brú á oddanum er hagkvæmasta lausnin. Kostnaður er talinn um 70 millj. kr. á verðlagi 1984 og arðsemi þeirrar fjárfestingar er um 10%, en það má teljast mjög viðunandi. Vegur styttist um 13 km.

Eins og fyrr sagði beindust rannsóknir þær sem fram fóru einkum að tæknilegum þáttum. Athuga þarf þó ýmsa þeirra nánar. Enn fremur þarf að rannsaka lífríki innri hluta fjarðarins og hugsanleg áhrif mannvirkjagerðar á það. Væri æskilegt að ljúka þessum viðbótarrannsóknum á þessu og næsta ári. Til að svo megi verða þarf nokkra fjárveitingu 1985. Verður það mál tekið til athugunar við endurskoðun vegáætlunar. Með hliðsjón af niðurstöðum arðsemisreikninga hefur Vegagerð ríkisins lagt til að framtíðarvegur um Dýrafjörð liggi yfir fjörðinn um Lambadalsodda.

Ég vil bæta því við að ég fyrir mitt leyti sem samgrh. og þm. kjördæmisins er sammála þessari tillögu Vegagerðarinnar og mun vinna að því að þessi ákvörðun verði endanlega tekin. Þó verður á þessu stigi að hafa þann fyrirvara að ofangreindar viðbótarrannsóknir breyti ekki forsendum í verulegum atriðum. Það er líka rétt að geta um að leið um Lambadalsodda miðast við það að um 100 m löng brú sé byggð upp á oddanum en álnum sunnan oddans lokað með vegfyllingu. Verður hinn nýi farvegur á oddanum 7–8 metrum hærri en botninn í álnum.

Fjörur innan Lambadalsodda hafa verið taldar mikilvægar sem viðkomustaðir vaðfugla og uppeldisstöðvar æðarfugls. Er því lengd brúar ákveðin þannig að fjörur haldist í meginatriðum óbreyttar. Lokun álsins getur hins vegar haft áhrif á ástand sjávar í dýpinu innan við Lambadalsodda. Verður ekki hjá því komist að athuga þessi mál nánar, enda hefur svo verið gert við öll sambærileg mannvirki sem hingað til hafa verið byggð. Hefur Líffræðistofnun Háskólans yfirleitt annast þessar rannsóknir. Skylt er skv. lögum að leggja slíka mannvirkjagerð fyrir Náttúruverndarráð og hafa rannsóknir mjög hjálpað ráðinu til að móta afstöðu sína og almennt stuðlað að því að eyða tortryggni og ótta við þau áhrif sem mannvirki af þessum toga kunna að hafa á umhverfi sitt.