06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3388 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

431. mál, samgöngumál í Ísafjarðarsýslu

Fyrirspyrjandi (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. greinargóð svör um frumathuganir varðandi jarðgangagerð í Ísafjarðarsýslu. Ég fagna því sérstaklega að hann hefur upplýst hér niðurstöður athugana varðandi brúargerð yfir Dýrafjörð, sem greinilega eru mjög jákvæðar og ólíkar þeim sem lagðar voru fram af Vegagerð ríkisins fyrir nokkrum árum. Ég vil í framhaldi af þessu vænta þess að bæði hæstv. samgrh. og alþm. almennt geti orðið um það sammála, þegar að endurskoðun vegáætlunar kemur og endurskoðun þeirrar langtímaáætlunar í vegagerð sem samþykkt hefur verið, að fjármagni verði veitt til þeirrar framkvæmdar og að fjármagn verði tryggt til frekari rannsókna varðandi jarðgangagerð, og ef rannsóknir leiði til jákvæðrar niðurstöðu þá til framkvæmda í Ísafjarðarsýslu.

Ég vil taka það fram að mér sýnist að hér muni þó vera um svo stórt átak að ræða að ástæða sé til að huga að möguleikum á alveg sérstakri fjáröflun í þessu skyni, eins og stundum hefur verið gert í slíkum efnum þegar mikið hefur verið talið liggja við. Það er sjálfsagt nokkuð varasamt að fara með neinar tölur hvað þetta varðar. En þó vil ég geta þess að í Færeyjum, þar sem jarðgangagerð til samgöngubóta er ákaflega algeng og hefur verið um langt skeið, er kostnaður á km nú talinn vera í kringum 40 millj. íslenskra króna. Það lætur nærri að þau jarðgöng á norðanverðum Vestfjörðum sem frumathuganir hafa náð til muni vera ekki langt frá 11–12 km samanlagt. Ef miðað væri við þessa færeysku kostnaðartölu, þá væri heildarkostnaðurinn þar með ekki langt frá 500 millj. kr. Ég gæti ósköp vel látið mér detta í hug að þarna mætti kannske bæta við svo sem 50%, en það verða rannsóknir að leiða í ljós að sjálfsögðu. Hvað sem því líður minni ég á að samt væri þarna ekki um að ræða öllu meiri upphæð en f. d. hefur verið ákveðið að verja af Íslands hálfu til byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Það er athyglisvert að skv. nýrri skýrslu, sem jarðfræðingar hjá Orkustofnun ríkisins hafa tekið saman eftir að hafa kynnt sér jarðgangagerð sérstaklega í Færeyjum, þá greina þeir frá því, sem hér segir. Ég les hér úr frumskýrslu frá jarðfræðingum Orkustofnunar, með leyfi hæstv. forseta: „Í Færeyjum hafi alls verið gerðir um 13 600 m af veggöngum eða um 650 m á ári að jafnaði frá 1963 en þetta samsvarar rúmlega einum Oddsskarðsgöngum á ári í 20 ár.“ Það hlýtur að vera fullkomið íhugunarefni fyrir okkur hvort ekki sé þarna um nokkurt fordæmi að ræða, enda þótt aðstæður séu vissulega með nokkuð öðrum hætti í Færeyjum hvað jarðlög snertir og búast megi við eitthvað meiri kostnaði hér.

Rétt er að minna á og undirstrika að ef tekist hefði að byggja þau göng sem hér eru til umr. væri komin samtengd byggð í Ísafjarðarsýslum árið um kring með samtengdum þéttbýliskjörnum með íbúatölu nokkuð á sjöunda þúsund manns. Það fer auðvitað ekki á milli mála að aðstæður hlytu allar að gerbreytast við slíka framkvæmd frá því sem nú er, þegar þessir sömu byggðarkjarnar eru einangraðir að mjög verulegu leyti hver frá öðrum í stóran hluta af árinu yfir veturinn og samgöngur mjög erfiðar.

Ég vil sérstaklega, herra forseti, að lokum minna á það, að það er ekki síst á sviði margvíslegrar þjónustu sem hagkvæmni mundi aukast og aðstæður batna við slíka samtengingu, en hlutfall starfandi fólks í þjónustugreinum er nú lægra á Vestfjörðum en nokkurs staðar annars staðar á landinu og meira en helmingi lægra en t. d. hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er nokkuð á þriðja þúsund ársverk í þjónustugreinum sem vantar upp á á Vestfjörðum í þeim efnum til að ná landsmeðaltali. Ég tel að samgöngubætur af því tagi sem hér hefur verið rætt um væru besta aðgerðin, eins og mál standa, til að stuðla að aukningu í þeim efnum og þar með til að treysta búsetu.