06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3389 í B-deild Alþingistíðinda. (2913)

431. mál, samgöngumál í Ísafjarðarsýslu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka bæði fyrir fsp. og eins fyrir það svar sem ráðh. gaf. Ég vænti þess að hann láti líffræðinga Háskólans ekkert rugla sig. Þó að í skýrslu Vegagerðarinnar standi að Dýrafjarðarbotn sé mikilvægur viðkomustaður vaðfugla þykir mér ekki trúlegt að þeir hætti að koma til Íslands þó að brú yrði sett á fjörðinn.

Það er aftur á móti annað mál, þegar vikið er að jarðgangagerð, að sá árangur hefur náðst, m. a. fyrir tilstilli þeirrar nefndar sem fyrrv. samgrh. skipaði, að Vegagerðin hefur farið að kanna jarðgangagerð í gegnum fjöll á Vestfjörðum án þess að halda sig við efstu fjallaskörð eins og áður hafði verið gert. Mér er óskiljanlegt hvaða hag vegagerðarmenn sjá í því að príla fyrst upp í 170–190 m hæð yfir sjávarmál í snarbröttum hlíðum áður en þeir ætla að hefja jarðgangagerð í gegnum fjöllin. Ég held að þeir verði að endurskoða sitt tafl og færa sig mun nær sjónum en þeir hafa gert til þessa. En sem betur fer vinnur tækniþróunin mjög hratt með okkur. Kannske fer það svo að þjóðarstolt okkar Íslendinga þolir ekki að Færeyingar storma í gegnum fjöllin eins og ekkert sé, en við á þessu svæði, sem eigum nú traustustu fjöll og elstu á Íslandi eins og menn vita . . . (Gripið fram í: Það er rangt.) (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég verð að fá að leiðrétta vanþekkingu Austfirðinga á þessu máli. Skv. nýjustu heimildum og athugunum hjá íslenskum jarðfræðingum hefur komið í ljós að elstu fjöll á Íslandi eru þar vestra og jafnframt þau traustustu.