06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3390 í B-deild Alþingistíðinda. (2914)

432. mál, tilraunastöðin á Reykhólum

Fyrirspyrjandi (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Það er fsp. á þskj. 395, sem ég hef leyft mér að bera fram til landbrh., varðandi tilraunastöð í landbúnaði sem ríkið hefur í áratugi rekið á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu. Fsp. er á þessa leið:

„1. Mun landbrh. beita sér fyrir því að sauðfjárræktartilraunum verði haldið áfram við tilraunastöðina á Reykhólum?

2. Hefur fjármagn verið tryggt í þessu skyni?“ Ástæða fsp. er sú að uppi hafa verið áform um að hverfa nú frá þeim mikilvægu tilraunum í sauðfjárrækt sem þarna hafa farið fram allt frá árinu 1958. Ég ætla ekki að rekja hér hvernig þessi áform um að hverfa frá þessum mikilvægu tilraunum eru tilkomin en nota frekar tíma minn til að koma hér á framfæri ýmsu því sem sérfróðir aðilar hafa látið frá sér fara varðandi þetta mál. Í rúma tvo áratugi hefur dr. Stefán Aðalsteinsson haft yfirumsjón með fjárræktinni á Reykhólum. Í grg. dr. Stefáns dags. 8. jan. s. l. segir um þessar fjárræktartilraunir m. a. með leyfi herra forseta:

„Á Reykhólum hefur ull af hverri kind verið að meðaltali 2.86 kg síðustu sjö árin. Á sama tíma er reiknað með því í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara að vísitölubúið skili 1.94 kg ullar af kind. Reykhólaféð skilar þannig 47% meiri ull af hverri kind en féð á vísitölubúinu. Ullin af Reykhólafénu hefur flokkast mjög vel flest undanfarin ár. Best hefur flokkunin orðið sú að 94% af ullinni fóru í úrvalsflokk. Ef reiknað er út það aukaverðmæti sem fæst við það að hver kind skili 2.86 kg ullar og að 80% ullarinnar fari í úrval og 20% í 1. flokk nemur þetta aukaverðmæti jafnmiklu og verðmætið af 37 viðbótarlömbum á vísitölubúi með 440 vetrarfóðraðar kindur. Það er því eftir miklu að slægjast fyrir bændur ef þeir gætu náð jafngóðum árangri í ullarframleiðslunni eins og náðst hefur á Reykhólum.“

Þetta m. a. voru orð dr. Stefáns Aðalsteinssonar sem fróðastur er um þessi efni. Hann segir enn fremur í sömu skýrslu frá 8. jan. s. l.,

„Það er óhætt að fullyrða að fjárstofninn á tilraunastöðinni á Reykhólum, eins og hann er nú, er auðlind sem getur skilað miklum verðmætum í þjóðarbúið ef rétt er á haldið. Það yrði ullar- og skinnaiðnaði landsmanna stórkostleg lyftistöng ef hægt væri að dreifa kostum Reykhólafjárins um landið til að bæta ull og gærur sem hráefni til iðnaðar. Reykhólaféð gefur auk þess góðar afurðir f kjöti þannig að fjárbændur ættu að hafa verulegan hagnað af því að fá fé frá Reykhólum til kynbóta.“

Ekki þarf að lýsa því hvað mikilvægt það er að úrvinnsla landbúnaðarafurða sé í sem bestu horfi, ekki aðeins fyrir landbúnað í landinu heldur ekki síður fyrir iðnaðinn. Þá er þar ekki síst um að ræða þann ullar- og skinnaiðnað sem hér hefur verið að þróast. Ég vil einnig kynna hér í tilefni þessarar fsp. umsögn frá Álafossi h. f. varðandi gæði ullar frá búinu á Reykhólum. En í þeirri umsögn dags. 6. febrúar s. l. segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Á Reykhólum hefur verið ræktaður upp sérstæður fjárstofn með alhvíta og eðlisgóða ull. Þar hefur jafnframt verið lagt kapp á að reyna að fyrirbyggja að ullin skemmist á fénu í húsum að vetrinum. Við höfum fengið Reykhólaullina til vinnslu í allmörg ár. Þegar hún hefur verið best að gæðum hafa rúm 90% af henni farið í úrvalsflokk, en á sama tíma, árið 1982, fóru 12.3% af innvegnu magni af annarri ull í úrvalsflokk.“

Mér finnst þetta ákaflega athyglisverðar upplýsingar, herra forseti, að Álafoss vottar hér að 90% af ull af þessu fé af búinu á Reykhólum fari í úrvalsflokk en aðeins 12.3% af annarri innveginni ull.

Ég hefði gjarnan viljað rekja fleira úr greinargerðum um ágæti ullar og skinna Reykhólafjárins, t. d. frá Sláturfélagi Suðurlands og einnig umsögn Sauðfjárveikivarna og dýralæknis, en tími minn leyfir það ekki. Ég vænti svara frá hæstv. landbrh. við minni fsp varðandi starfsemina á Reykhólum.