06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3391 í B-deild Alþingistíðinda. (2915)

432. mál, tilraunastöðin á Reykhólum

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Með lögum nr. 64/1940, um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins, var ákveðið að starfræktar skyldu tilraunastöðvar í jarðrækt, ein í hverjum landsfjórðungi. Tilraunastöðin á Reykhólum var reist skv. lögum nr. 57/1944. Skyldi hún vera rekin sem tilraunastöð í jarðrækt eins og í lögunum segir. Hlutverk þessarar tilraunastöðvar var m. a. að sinna sérstökum verkefnum viðkomandi byggða og reyna ýmsa ræktunartækni við breytilega staðháttu og veðurfar. Þetta starf hefur farið fram á Reykhólum síðan 1946. Tilraunir með sauðfé hófust þar 1958. Sauðfjártilraunirnar hafa aðallega beinst að ræktun hreinhvíts fjár.

Umsvif á sviði jarðræktartilrauna á Reykhólum hafa dregist saman að undanförnu. Fyrir 10 árum voru gerðar alls 38 tilraunir með jarðrækt á vegum Reykhólastöðvarinnar en á s. l. ári voru þær 13. Í grg. um tilraunastarfið hefur komið fram að fækkun tilrauna megi m. a. rekja til erfiðs árferðis og ýmsar tilraunir hafa misfarist af þeim sökum. Dreifðum tilraunum, sem gerðar voru víða um Vestfirði á vegum Reykhólastöðvarinnar, hefur einnig fækkað verulega. Með vinnuafli því sem á tilraunastöðinni er hefur reynst erfitt að samræma vinnu við tilraunir þar sem annatími sauðfjárræktarinnar, sauðburður, fellur saman við annatíma jarðræktartilraunanna.

Hin síðari ár hefur gætt vaxandi erfiðleika við rekstur tilraunastöðvanna í landbúnaði og þá sérstaklega með búrekstur eftir breytingu á launasamningum sem gerðir voru 1977. Leitað hefur verið leiða til úrbóta og þ. á m. hafa skipulagsmál tilraunastöðvanna verið athuguð. Nefnd, sem landbrh. skipaði 7. febr. 1979 til að kanna fyrirkomulag tilraunastöðvanna, lagði til að á Reykhólum verði megináhersla lögð á jarðrækt, jarðræktar- og heyverkunartilraunir auk þess sem athugaðir verði möguleikar á tilraunum með hlunnindi. Búfjárhald á Reykhólum verði lagt niður og þær tilraunir sem þar má gera stundaðar á öðrum ríkisbúum, enda verði gerðar ráðstafanir til að varðveita fjárstofninn sem nú er á Reykhólum.

Vandi vestfirskra bænda hefur ekki hvað síst verið bundinn öflun fóðurs og grasrækt. Nauðsyn er að tilraunastarfsemi Reykhólastöðvarinnar beinist að þessum undirstöðuþætti kvikfjárhaldsins og að þessu var mjög unnið um miðjan síðasta áratug þegar umfangsmiklar jarðræktartilraunir voru gerðar víðs vegar um Vestfirði frá tilraunastöðinni á Reykhólum. Í samræmi við þetta var ályktun aðalfundar Búnaðarsambands Vestfjarða í júní s. l. þar sem því var beint til alþm. Vestfjarðakjördæmis og landbrh. að þeir efli tilraunastöðina á Reykhólum svo að hún fái betur og meira en nú er sinnt þeirri tilraunastarfsemi sem þar er rekin, einkum hvað varðar grasræktartilraunir, svo að betur fáist séð hvaða grasstofnar henta vestfirskum bændum best til túnræktar.

Bændur hafa verið andvígir því að sauðfé og annar búpeningur á ríkisbúum sé umfram þarfir. Má þar m. a. minna á að fyrir nokkrum árum mótmæltu íbúar Austur-Barðastrandarsýslu fjárfjöldanum á Reykhólum og lýstu yfir að land í Reykhólasveit þyldi ekki meiri beit og kröfðust þess að fénu yrði fækkað.

Fjárhagsvandi tilraunastöðvanna hefur farið vaxandi undanfarin ár. Síðasta ár var ítrekað sótt um aukafjárveitingar til þeirra en þær fengust litlar. Halli á rekstri Reykhólabúsins nam rúmlega 300 þús. kr. á árinu 1982. Eftir að stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hafði kynnt sér rækilega stöðu og rekstursmöguleika tilraunastöðvarinnar á Reykhólum á s. l. hausti komst hún að eftirfarandi niðurstöðu:

„Stjórn RALA samþykkir að leggja niður sauðfjárhald á tilraunastöðinni á Reykhólum á árinu 1984. Unnið verði að því að koma sauðfjárstofni þeim, sem þar hefur verið ræktaður á undanförnum árum, til framhaldsræktunar á öðrum fjárræktarbúum RALA og/eða annarra opinberra stofnana, t. d. bændaskólanna eða með öðrum hætti.“

Í grg. um ákvörðunina, sem send var Fjórðungssambandi Vestfirðinga, segir:

„Stjórn RALA er vel ljóst að umsvif tilraunastjórans við bústjórn hafa tekið óeðlilega mikið af tíma hans á kostnað tilraunastarfsins. Þegar þar við bætist að á Reykhólum er fjárbú af óhagstæðri stærð miðað við bú í opinberri eigu fannst stjórn RALA eðlilegt að leita leiða til að varðveita fjárstofninn sem nú er á Reykhólum á annan hátt en þann að þar yrði rekið tilraunabú á vegum tilraunastöðvarinnar. Í því sambandi hafa nokkrir möguleikar verið til athugunar, svo sem að leigja fjárbúið og aðstöðuna á tilraunastöðinni og í öðru lagi að flytja stofninn eða hluta hans á annað eða önnur ríkisbú. Yrði búið leigt kæmi þetta jafnframt til greina. Með þessu yrði fjárstofninn varðveittur og fleirum gefinn kostur á að nýta sér hann til að bæta fjárrækt sína. Létt yrði af tilraunastjóra álagi vegna sauðfjárræktarinnar þannig að hann fengi tíma til að sinna jarðræktartilraunum að fullu. Annatími sauðfjárræktarinnar fellur að verulegu leyti á þennan annatíma.“

Merkt starf hefur verið unnið á sviði fjárræktar og ullarframleiðslu á Reykhólum undir stjórn dr. Stefáns Aðalsteinssonar. Þar hefur bæði verið unnið að rannsóknum og sauðfjárkynbótum. Varðandi sauðfjárræktina þarf að sjálfsögðu að viðhalda rannsókn á þætti þeim sem fram hefur farið á Reykhólum. Kynbótaþáttinn má tryggja með því að bændur nýttu sér Reykhólafé til kynbóta. Ekki er síst að vænta þess að bændur í nágrenni tilraunastöðvarinnar nýti sér til fullnustu eðliskosti Reykhólafjárins. Slíkt mundi og varðveita erfðaeiginleika fjárins sem þar er í einu hreinasta sóttvarnarhólfi landsins hvað snertir sauðfjársjúkdóma.

Sú sérstaða sem Reykhólar hafa sem tilraunastöð nú er fremur bundin jarðrækt og heyöflun en sauðfjárræktinni. Sé fjármagn til rannsókna takmarkað er mikilvægt að beina því til verkefna sem brýn eru. Í ljósi þess að fóðuröflun er víða takmarkandi þáttur í búrekstri á Vestfjörðum er eðlilegt að tilraunastöðin á Reykhólum verði fyrst og fremst gert kleift að sinna þeim þætti, ekki síst þegar bent hefur verið á að sinna megi sauðfjárræktinni með öðrum leiðum án þess að framfarir á því sviði bíði skaða af.

Í lögum um tilraunastöðina á Reykhólum var gert ráð fyrir að nýta og heyja þar til sérstakra tilrauna. Bent hefur verið á að eðlilegt væri að hefja tilraunir varðandi nýtingu hlunninda á Reykhólum, svo sem æðarræktar og svo tilraunir með fiskirækt, en aðstaða er dágóð fyrir þessar búgreinar á Reykhólum. Einnig á þessu sviði gæti tilraunastöðin og aðstaða þar nýst til að styðja við búskap við innanverðan Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Ég hef óskað eftir því við veiðimálastjóra að hann gerði nánari grein fyrir því hvernig hægt væri að standa að tilraunum í fiskirækt.

En sem svör við fsp. þeim, sem hv. 10. landsk. þm. bar fram til mín, mun landbrh. beita sér fyrir því að sauðfjárræktartilraunum verði haldið áfram á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu. Ég mun styðja stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins til að halda áfram tilraunum á Reykhólum með sauðfé á þann hátt sem er árangursríkast og hagkvæmast. Stjórnin hefur talið rétt að athuga möguleika á að leigja búfjárstofninn og fá leigu greidda í lömbum sem yrði dreift m. a. á önnur ríkisbú. Þá yrði náð þeim markmiðum, sem stjórn Rannsóknastofnunarinnar hefur þar sett fram, að fjárstofninum yrði haldið á Reykhólum. Sá fjármaður sem þar hefur unnið, gæti haldið áfram vinnu sinni þar. Stefán Aðalsteinsson gæti haldið áfram að hafa alla yfirstjórn á kynbótum stofnsins sem þar yrði þá áfram í eigu RALA. Með flutningi líflamba mætti útbreiða stofninn til annarra landshluta. Þetta eru sem sagt þau markmið sem stjórn RALA hefur sett sér.

Í öðru lagi verði fjármagn tryggt í þessu skyni. Það var reynt eins og kostur var að fá fjármagn til tilraunastöðvanna við gerð síðustu fjárlaga. Alþingi hefur afgreitt þau fyrir þetta ár og meira fjármagni hefur landbrn. ekki úr að spila. Hins vegar er verið að skoða hvort möguleiki sé á eitthvað meira fjármagni í þessu skyni en niðurstöður um það liggja ekki fyrir.