06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3395 í B-deild Alþingistíðinda. (2918)

432. mál, tilraunastöðin á Reykhólum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru örfá orð í tilefni þessa máls.

Ég fagna því að sjálfsögðu að umr. um það hafa átt sér stað hér og vænti þess að úr verði bætt og hætt verði við þá ákvörðun að leggja þessa tilraunastöð niður í því formi sem á henni er nú.

Hæstv. landbrh. sagði að halli á árinu 1982 hefði verið um 300 þús., hafi ég tekið rétt eftir, — 1982, ekki 1983. Ég hygg að víðar í tilraunastarfi á vegum ríkisins megi finna álíka ef ekki meiri halla en hér er um að ræða og það eitt út af fyrir sig séu ekki rök fyrir því að leggja þessa tilraunastöð niður.

Hitt er svo annað mál út af því sem hæstv. samgrh. sagði áðan, að meiri hl. hér á Alþingi, stjórnarliðið hér á Alþingi, lagði blessun sína yfir þessa ákvörðun með afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin. Þannig þurfa að eiga sér stað sinnaskipti hjá meiri hl. Alþingis, sem ferðinni ræður, ef á að takast að hverfa frá fyrirhugaðri ákvörðun. Ég vænti þess sannarlega að bæði hæstv. samgrh. og aðrir þeir hv. þm. og hæstv. ráðh. sem ráða ferðinni innan meiri hl. sjái svo um að hætt verði við þá fyrirhuguðu ákvörðun að leggja niður tilraunastöðina á Reykhólum.