31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

42. mál, orkulög

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að málið gangi til iðnn. Ég velti þessu máli ekki sérstaklega fyrir mér, heldur leit til þess að hér er um fjárhagsatriði fyrst og fremst að tefla, atriði fjárhagslegs eðlis, en að sjálfsögðu ber að hafa það sem venja segir til um í þessu falli.

Varðandi það hvar þetta mál var lagt fyrir er það að segja að ég hef þá skoðun að ráðh. þurfi að gá betur að dreifingu mála milli deilda en verið hefur um langa hríð. Af þessu hafði ég reynslu og nokkra raun stundum, því árátta hefur verið að leggja á stundum öll mál fram í Nd., og hefur orsakað misvægi í störfum. Það eru tvö mál á mínum vegum, sem hafa verið lögð fram, og ég bað um að þeim yrði skipt milli deilda. En að mér kæmi til hugar að ég væri með því móti að svipta fyrirrennara minn málfrelsi í þessu máli er fjarri öllu lagi. Og ef svo færi nú, sem líkur eru á auðvitað, að þetta mál gangi ekki lengra en e.t.v. til 2. umr. hér, þá er ég reiðubúinn til þess hvenær sem er að ræða þessi mál, t.a.m. utan dagskrár í Nd. eða í Sþ., með hvaða hætti svo sem menn kysu. Það er fjarri öllu lagi að með þessu móti hafi verið reynt að koma í veg fyrir að fyrirrennari minn fengi fullt málfrelsi eða aðstöðu til að ræða þessi máls eins og honum líst. Við erum alltaf að fá lýsingar hjá fyrrv. ríkisstj.-mönnum á ástandinu eins og það var í þeirra tíð og afleiðingum þeirrar ráðdeildar allrar. Og það er verið að rifja upp hvernig orkuverðið var ákveðið og hvaða ráða mönnum sýndist að til þyrfti að grípa undir lok þeirrar stjórnarsetu, með því að iðnrh. var fengið alræðisvald í ákvörðunum um orkuverð.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. rifjaði upp gífurlegar hækkanir á árinu 1982 hjá Landsvirkjun. En hvernig var rekstur fyrirtækisins? Ég hélt að það skipti höfuðmáli. Hann var 152 millj. kr. tap á árinu 1982. Hvernig hugðist fyrirrennari minn, hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson, ætla að beita þessu alræðisvaldi sínu sem honum var fengið í hendur? Með því að neita með öllu öllum hækkunum á orkuverði Landsvirkjunar. Það var áreiðanlega, ég veit með vissu að ég fer þar ekki með staðlausa stafi heldur staðreyndir, Framsfl. sem knúði fram í byrjun maí 10% hækkun á orkuverði Landsvirkjunar gegn andstöðu frá fyrirrennara mínum.

En hvert hefði stefnt í málefnum Landsvirkjunar, þessa stórfyrirtækis okkar í þessum mikilvæga málaflokki, ef þessi stefna hefði náð fram að ganga? Það hefði stefnt í yfir 400 millj. kr. halla, tap á rekstri Landsvirkjunar. Hvaða sköpuð ráð ætluðu menn þá að hafa? Dettur einhverjum lifandi í hug að ég hafi gengið hlæjandi til sængur það kvöld sem ég þurfti að ákveða þessar ógnar verðhækkanir hjá Landsvirkjun sem dæmin sanna á liðnu sumri? Það er öðru nær. Ég þekki allt of vel til í þeim landshlutum þar sem húshitunarkostnaðurinn er gersamlega að ganga fram af heimilunum og leggja þau á hliðina fjárhagslega. En hvað var þá til ráða ef menn ætluðu að beita lögunum með þessum hætti, að banna Landsvirkjun hækkun á orkuverðinu? Þá blasti auðvitað bara ein leið við. Sú gamla leið að taka erlend lán til að reka þessi fyrirtæki okkar, eins og gert hefur verið við hin stærstu og þýðingarmestu fyrirtæki sem ríkið hefur rekið t.a.m. Sementsverksmiðju og Áburðarverksmiðju. Þessi 25 og 27 ára gömlu fyrirtæki eru með byrðar erlendra lána á herðunum og framleiðsluvörur þeirra þurfa að vera dýrar. Af hverju? Af því að vegna vísitöluleiksins hafa fyrirtækin aldrei fengið að verðleggja vöruna eins og til þurfti til að ná rekstrarhagkvæmni. Og mismunurinn — tapið hefur verið bætt upp með erlendum lánum. Þetta blasir við öllum.

Nei, það er ekki stefna núv. ríkisstj. að slíkt allsherjarvald skuli vera í höndum hennar eða einstakra ráðh. Við treystum sveitarstjórnum og stjórnum fyrirtækja ríkisins fullvel og jafnvel til að taka þessar ákvarðanir með allra hag fyrir augum — og auðvitað fyrirtækjanna um leið. Og það þarf engan orðhengilshátt í þessu sambandi hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að ég hafi talað í hring, að ríkisstj. mundi grípa í taumana ef þess þyrfti. Ég sagði að ef þessi mál ætluðu að ganga úr böndunum, ég hef enga ástæðu til að ætla að svo verði, en ef þau gengju úr böndunum með kolröngum ákvörðunum, ákvörðunum um stórhækkað verð, sem ekki stenst, þá mundi ríkisstj, að sjálfsögðu neyðast til að grípa í taumana. En ég á ekki nokkra von á því að slíkt verði, öðru nær, og fyrir því leggjum við til að þessi brbl. verði numin úr gildi.