06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3403 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

430. mál, kvörtunarnefnd

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir þau svör sem hann hefur veitt. Ljóst er að þessi nefnd hefur í raun og veru ekki hafið störf skv. þeim lagaákvæðum sem hér voru samþykkt fyrir tæpu einu ári, fyrst og fremst vegna þess að nefndinni hafa ekki verið settar starfsreglur þar sem hún sjálf hefur ekki gert þær tillögur sem henni er skylt að gera skv. lögunum. Af þeim ástæðum hefur nefndin í raun og veru ekki tekið til starfa.

Ég tek undir það með hæstv. heilbr.- og trmrh. að mjög nauðsynlegt er að þessi nefnd fái fjármuni til þess að hún geti sinnt sínum störfum og hafið störf nú þegar. Mér er kunnugt um það að í heilbrigðiskerfinu eru að velkjast fáein mál sem nauðsynlegt er að þessi nefnd fái til meðferðar. Það eru mál sem hefur verið beint til landlæknis skv. hinum eldri lögum um heilbrigðisþjónustu frá 1978. Þessi mál hafa verið til meðferðar bæði hjá Landlækni, í heilbrrn. og hjá læknaráði og siðanefnd læknaráðs án þess að niðurstöður hafi fengist. Fólk hefur orðið að bíða langtímum saman eftir niðurstóðum án þess að fá þær af neinu tagi. Þar sem hér er oft um að ræða mjög sársaukafull og erfið mál fyrir viðkomandi einstaklinga tel ég að það sé skylda stjórnvalda að stuðla að því að þau fái jafnan sem skjótasta afgreiðslu þegar þau eru borin upp. Ég veit að hæstv. heilbr.- og trmrh. er mér sammála um þetta vegna þess að hann stóð að þessari lagabreytingu sem gerð var hér á síðasta þingi og samþykkt samhljóða.

Ég er þeirrar skoðunar að góð heilbrigðisþjónusta sé einn brýnasti þátturinn í jöfnun lífskjara í landinu. Öryggi gagnvart heilbrigðisþjónustunni er ákaflega mikilvægt, þ. e. að fólk finni til öryggis gagnvart þeirri þjónustu sem veitt er í heilbrigðismálum á hverjum tíma, að hún sé traust og jafnan í besta gæðaflokki. Jafnframt þarf að tryggja öllum, sem njóta þessarar þjónustu, að þeir geti treyst því að farið sé með kvartanir, ef nauðsynlegar verða með eðlilegum hætti af óhlutdrægum aðilum og að úrskurðir liggi fyrir hið skjótasta fremur en að málið liggi langtímum saman í kerfinu án þess að úrslit fáist í þeim.

Ég hvet hæstv. heilbr.- og trmrh. til þess að ýta mjög á eftir því að þessi nefnd geti hafið störf og ég vil beina því til hans að hann íhugi hvort ekki væri þegar hægt að gera ráðstafanir til þess að þau mál, sem nú eru í höndum landlæknis og læknaráðs, gangi til þessarar nefndar til umfjöllunar jafnvel þótt hún hafi ekki enn þá sett sér starfsreglur eins og gert er ráð fyrir að hún geri skv. lagagreininni.

Varðandi fjárhag nefndarinnar er ljóst að tryggja verður að hún geti starfað með eðlilegum hætti og að sjálfsögðu á að taka nefnd af þessu tagi inn á fjárlög. Annars getur hún ekki starfað eins og lögin ætlast til vegna þess að hún á m. a. að fjalla um þá þætti sem snúa að heilbr.- og trmrn. sjálfu. Þess vegna er algerlega óeðlilegt að nefndin sé komin upp á náð þess eða heilbr.- og trmrh. hverju sinni um fjármagn til sinnar starfsemi og þess vegna brýnt að hún fái fé beint á fjárlögum til að sinna sínum störfum.