06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3407 í B-deild Alþingistíðinda. (2936)

227. mál, stjórn Hafnamálastofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég þakka samgrh. svörin þó að ég verði að játa að ég get ekki lýst mig fyllilega ánægðan með árangurinn. Ef ég skildi hann rétt sagði hann á þá leið að engin formleg skýrsla hefði verið send til hans, hæstv. samgrh. (Heilbr.- og trmrh.: Það er rétt skilið.) Það er rétt skilið. Þá vaknar upp spurning: Hvernig stendur á því að hún hefur ekki verið send hæstv. ráðh.? Eða er skýrslan ekki til?

Mér er tjáð að tilteknum starfsmönnum Hagsýslustofnunar ríkisins, sem er opinber eftirlitsstofnun með stjórnkerfinu, og tilteknum starfsmanni Ríkisendurskoðunar hafi verið falið það verkefni að gera úttekt á Hafnamálastofnun. Þeir hafi gert um hana skýrslu og sent hana áleiðis til toppsins í stjórnkerfinu. Jafnframt að þeir hafi sent minnisblað til hæstv. ráðh. um þessa skýrslu. Af þessu hlýt ég að draga þá ályktun að skýrslan sé til. Ég verð jafnframt að álykta sem svo að alveg nauðsynlegt sé að hún sé á borðum hæstv. samgrh.

Og þá komum við að hlut Alþingis. Alþingi er að endurskoða lög um Hafnamálastofnun. Það er auðvitað mikið mál og það fjallar um mjög þýðingarmikla hluti. Það fjallar um samskipti ríkisvaldsins og sveitarfélaga, það fjallar um fjögurra ára áætlunina t. d. og hvernig eigi að standa að slíkum verkum. Það verður t. d. að taka afstöðu til þess hvort það sé rétt stefna að bjóða eigi út verk í stórum stíl. Það verður að meta gagnrýni sem fram hefur komið á handahófskenndar fjárveitingar, hin svokölluðu hálfu verk sem unnið er að í allt of miklum mæli. Þá á ég við að fjárveitingar hrökkva ekki til til þess að ljúka raunverulegum framkvæmdaþáttum þannig að framkvæmdir eru löngum hálfkaraðar og komast ekki f gagnið.

Ef um það er að ræða að til er skýrsla sem fjallar um þessa hluti, þar sem beinlínis eru gerðar tillögur um tilteknar breytingar á því frv. sem liggur fyrir þinginu, hlýtur það að vera lágmarkskrafa þingsins að þessi skýrsla verði birt. Ástæðan fyrir því er mjög einföld. Við erum ekki að tala um einhverja menn úti í bæ, við erum að tala hér um verk sem er unnið á vegum sjálfrar Hagsýslustofnunar fjmrn. og Ríkisendurskoðunar. Þessar tvær opinberu stofnanir eru að fjalla um aðra mjög þýðingarmikla opinbera stofnun. Þær eru að fjalla um lykilatriði sem snerta ekki aðeins starfshætti og verksvið Hafnamálastofnunar heldur snerta löggjafaratriði, sem Alþingi er að fjalla um. Út frá þessu sjónarmiði hlýtur það að vera ósk Alþingis að það fái í hendur þessa skýrslu. Til vara — eða þrautavara — hlyti það að vera óska þeirra þm., sem um þetta mál fjalla á þingi, að þessi skýrsla verði birt í þeim nefndum, sem fjalla um málið. Því ég get ómögulega komið því heim og saman að það sé ætlun framkvæmdavaldsins að stinga slíkri skýrslu undir stól eða að koma f veg fyrir að Alþingi geti sjálft lagt dóm á þær upplýsingar sem þarna er að finna og dregið sínar eigin ályktanir.

Ég á vonandi ekki að þurfa að taka fram að það sem vakir fyrir mér með þessari fsp. er ekki að leggja dóm á það fyrirfram hvað kunni að vera réttmætt í ásökunum sem fram koma í þessari skýrslu á hendur æðstu stjórnenda Hafnamálastofnunar. Við kveðum ekki upp slíka dóma fyrirfram. En við þurfum að fá skýrsluna í hendurnar til þess að geta lagt mat á það hvort hér er um órökstuddan áburð að ræða. Ég verð að segja fyrir mig ef ég væri starfsmaður þessarar stofnunar kysi ég heldur, og teldi reyndar óbærilegt annað, þegar slíkur áburður hefur verið birtur á opinberum vettvangi, að stofnunin sem slík fái leiðréttingu sinna mála ef hér er um að ræða frétt sem er í mörgum atriðum alröng. Það hlýtur að vera út frá sjónarmiði starfsmannanna sjálfra réttur þeirra og krafa að þessi skýrsla verði athuguð og afgreidd, henni verði ekki bara stungið undir stól heldur verði hún til þess að sanna hvað er rétt í málinu.

Þess vegna ítreka ég mjög eindregið þá ósk mína að þessi skýrsla verði birt því að ég tel að það sé sannað mál að hún er til, hvar sem hún er niðurkomin. Til þrautavara legg ég eindregið til að þær n. sem fjalla munu um hafnalögin í meðförum þingsins fái þessa skýrslu í hendurnar. Það væri lágmarkskrafa vegna þess að hér er um að ræða mál sem snerta löggjafaratriðin sjálf og vafalaust upplýsingar sem þingið óhjákvæmilega verður að taka afstöðu til ef það á að meta breytingar á stjórnun og stefnumótun að því er varðar þessa stofnun og framkvæmdir í hafnamálum.

Efnislega ætla ég ekki að gera þetta frekar að umræðuefni. En ég vil eindregið árétta þá ósk mína að skýrslan verði birt. Og beini því aftur til hæstv. ráðh. að þessi skýrsla getur ekki eðli málsins samkvæmt verið ríkisleyndarmál. Hún er úttekt opinberra stofnana á þýðingarmikilli opinberri stofnun og ég fæ ekki með nokkru móti séð að réttlætanlegt sé að stinga henni undir stól, þannig að Alþingi fái ekki um hana fjallað.