06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

227. mál, stjórn Hafnamálastofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Í tilefni af þeirri athugasemd hæstv. ráðh. eða eiginlega fsp. til mín, fyrirspyrjandans, um það hvort ég kunni að hafa þessa skýrslu undir höndum verð ég að svara hæstv. ráðh.: Nei, því miður, ég hef hana ekki og þess vegna er ég að spyrja um hana.

Í annan stað, sé það rétt að hæstv. ráðh. hefur ekki þessa skýrslu um eina af þeim veigamestu stofnunum sem undir hann heyrir, sem unnin er af helstu eftirlitsstofnunum í fjármálakerfi ríkisins, má ég þá ekki að lokum beina því eindregið til hæstv. ráðh. að hann gangi eftir því í kerfinu, hvar þessi skýrsla er niður komin? Og láti ekki bjóða sér þá skömm að skýrsla um stofnun á hans verksviði sé einhvers staðar annars staðar, kannske á borðum einhverra annarra ráðh.? Væri ekki ráð að hæstv. ráðh. — ég treysti honum vel til þess — gerði nú tiltekt í kerfinu og fyndi skýrsluna?