06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

434. mál, jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Á þskj. 399 hef ég leyft mér að bera fram fsp. í tveimur liðum til hæstv. iðnrh. varðandi jarðhitarannsóknir í Dalasýslu og Snæfellsnessýslu. Á undangengnum árum hefur mjög verið leitað eftir því að framkvæmdar væru jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi og í Dalasýslu. Er því ekki að leyna að heldur hefur þótt smátt skammtað til þeirra rannsóknarverkefna sem unnið hefur verið að á svæðinu. Ljóst er að Snæfellsnesið norðanvert og hluti Dalasýslu hefur af jarðfræðingum verið talið heldur óráðin gáta hvað varðar jarðhita. Þó eru til staðir sem taldir eru gefa vísbendingu um jarðhita og hefur ítrekað verið óskað eftir nánari rannsóknum þar.

Í Húshitunaráætlun Orkustofnunar, II. hluta, er gerð grein fyrir hitaveitum á Snæfellsnesi og í Dalasýslu. Í áætluninni er orkuverð áætlað út frá mjög veikum forsendum um orkuöflun þar sem sáralitlar rannsóknir hafa farið fram. Engu að síður gefur áætlunin vonir um hitaveitur fyrir Búðardal og næsta nágrenni með virkjun jarðvarma við Grafarlaug í Reykjadal. Einnig gefur áætlunin tilefni til þess að ætla að virkja megi jarðvarma úr skeri við Berserkseyri í Eyrarsveit fyrir Grundarfjörð og Stykkishólm. Aðrir möguleikar um hitaveitur, svo sem hitaveita frá Lýsuhóli í Staðarsveit fyrir Ólafsvík og Hellissand, þykja ekki líklegur kostur, en þó er ekki rétt að afskrifa slíka möguleika án frekari rannsókna.

Sveitarstjórnarmenn á Snæfellsnesi og í Dölum hafa mjög knúið á um frekari rannsóknir. Ekki er það einungis til þess að fá úr því skorið hvort virkjanlegur jarðvarmi er fyrir hendi til húshitunar, heldur er einnig hugsað til þeirra möguleika sem gætu skapast á sviði nýrra atvinnugreina, t. d. við ylrækt, sem koma mætti upp í Búðardal og nánasta nágrenni í tengslum við virkjanlegan jarðvarma, og þá ekki síður í fiskirækt, t. d. í nágrenni Berserkseyrar, en þar er talin mjög góð aðstaða til hafbeitar frá Kolgrafarfirði og í Hraunsfirði. Að þessum kostum öllum þarf að huga og þá ekki síst í Dalasýslu þar sem byggðin er mjög veik vegna takmarkaðra atvinnumöguleika á því svæði.

Því leyfi ég mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. iðnrh.:

1) Hvaða niðurstöður liggja fyrir um jarðhitarannsóknir við Grafarlaug í Dalasýslu sem framkvæmdar voru s. l. haust? Verður rannsóknum haldið áfram þar á þessu ári?

2) Hver er áætlun Orkustofnunar um jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi?