06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (2944)

435. mál, aðgerðir til orkusparnaðar

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 399, í IV. lið, ber ég fram svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Hvaða ráðstafanir hyggst iðnrh. gera svo að húseigendur geti lagt í fjárfestingu við endurbætur og einangrun húsa skv. þeim tillögum sem ráðgjafar um orkusparnað hafa unnið á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi?“

Með lögum um lækkun og jöfnun hitunarkostnaðar, sem samþ. voru á vordögum 1980, var í 12. gr. veitt heimild til að veita sveitarfélögum styrki til tækniþjónustu á sviði orkusparnaðar. Á grundvelli umræddra laga og með styrk og í góðu samstarfi við iðnrn. hefur á vegum húshitunarnefndar samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi verið gerð úttekt á húsum í Búðardal, Stykkishólmi, Grundarfirði, Ólafsvík og Hellissandi í þeim tilgangi að veita þeim húseigendum, sem búa við mesta orkunotkun og hæst orkuverð, ráðgjöf um það á hvern veg megi draga úr orkunotkun með einföldum lagfæringum á húsnæði.

Umræður um húshitunarmál hafa verið tíðar hér á Alþingi, enda segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar að jöfnum húshitunarkostnaðar verði aukin verulega. Samfara samdrætti í tekjum á landsbyggðinni, í landbúnaði vegna minnkandi framleiðslu á búunum og nú í sjávarútvegi vegna samdráttar í fiskveiðum, verður orkukostnaður stórfelldara vandamál en áður hefur verið. Stafar af þessari þróun meiri hætta á fólksflótta af landsbyggðinni en nokkru sinni hefur áður verið frá stríðslokum að margir telja. Er þessa þegar farið að gæta í atvinnuleysi hér í borginni þó það sé ekki mikið, en það er væntanlega m. a. vegna fjölgunar og vegna fleiri íbúa sem flytja utan af landsbyggðinni.

Við þeim vanda sem hár húshitunarkostnaður er verður að bregðast með aðgerðum til orkusparnaðar, með olíustyrkjum, með niðurgreiðslum á raforku til húshitunar í meira mæli en þegar er gert, auk þess sem rannsóknir á jarðhitamöguleikum verður að auka. Ljóst er að þó orkusparnaður sé mikilvægur taka þær aðgerðir, sem einhvern árangur bera, langan tíma. Áfram verður því að beita niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði. Orkusparnaðaraðgerðir beinist hins vegar einkum að því að koma orkunotkun niður að þeim mörkum sem byggingarreglugerð setur um hitatap húsa, en það vantar víða verulega mikið á að þeim áfanga hafi verið náð.

Svo sem fyrr var getið hefur á vegum húshitunarnefndar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi verið gerð úttekt á ástandi og orkunotkun húsa á Snæfellsnesi og einnig í Dalasýslu og eigendum verið veitt ráðgjöf um hagkvæmar aðgerðir til orkusparnaðar. Af um 140 húsum sem skoðuð hafa verið kemur í ljós að orkunotkun þeirra er að meðaltali 36% umfram staðla. Úrtak þessara athugana er um 10% af húsnæði í þorpunum og er talið að ástand húsa í sveitum sé víða miklu verra. Ekki er í öllum tilvikum hagkvæmt að ráðast í þær endurbætur sem staðlar krefjast, en ef reiknað er með þeim aðgerðum sem teljast aðgengilegar og ráðlagðar eru borgar sú fjárfesting sig í þessum tilvikum á um sex árum ef eingöngu er tekin sparnaður húseigenda inn í það dæmi. Er þá reiknað með núverandi verðlagi á efni, svo sem einangrun, en um 30% kostnaðar við þessar aðgerðir rennur beint í ríkissjóð. Sparnaður ríkissjóðs á ári vegna niðurgreiðslna á raforku er einungis vegna þessara húsa á þriðja hundrað þúsund krónur. Að vísu er það lítið upp í hið stóra „gat“ ríkissjóðs, en þegar stórátak væri gert í þessu væri þarna hægt að spara verulegar fjárhæðir.

Þegar orkunotkun íbúðarhúsnæðis er metin og borin saman kostnaður notenda eftir landshlutum falla þær tölur ekki alltaf saman við það sem opinberlega er gefið upp. Kemur þar margt til annað en mismunandi orkuverð. Meðal þess sem veldur mismun eru mismunandi aðferðir hitaveitna við mat á orkunotkun. Má þar nefna að hinar nýrri hitaveitur nota svokallað hemlakerfi sem mælir ekki neysluvatnsnotkun beint á meðan hver kwst. rafhitunar er mæld og seld.

Annar afgerandi þáttur er hitastig hvers tíma. Meðalhiti í Stykkishólmi árin 1930–1960 var 4.2°C. Hins vegar er meðathiti áranna 1979–1983 á sama stað 2.9°C. Þessi munur á meðalhitastigi frá 30 ára meðaltali fyrri ára veldur um 8–10% aukningu á kyndingu. Á þessu kalda tímabili hafa hin náttúrlegu áhrif því bæst við verulega hækkandi orkuverð.

Hvernig sem á þennan þátt orkubúskapar okkar er litið er ótvíræður ávinningur af því að húseigendur hinna köldu svæða verði aðstoðaðir við það að draga úr orkunotkun í híbýlum sínum. Fullyrða má að með einföldum sparnaðaraðgerðum mætti minnka orkunotkun til húshitunar um 20% á því svæði sem ég hef gert að umtalsefni hér. Hér fara saman hagsmunir húseigenda og ríkissjóðs og er þessi fsp. lögð fyrir hæstv. iðnrh. ef það mætti verða til þess að húseigendur vissu til hvaða ráða verði gripið, en þeir hafa nú í höndum ráðleggingar frá ráðgjöfum um orkusparnað.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð eða lengri formála fyrir fsp. minni, en vænti svars frá hæstv. iðnrh.