06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3413 í B-deild Alþingistíðinda. (2945)

435. mál, aðgerðir til orkusparnaðar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. frá hv. 1. þm. Vesturl. vil ég taka fram eftirfarandi:

Á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hefur verið unnið að skoðun á nokkrum fjölda húsa og gerðar tillögur um orkusparandi endurbætur á þeim. Þessi starfsemi hefur m. a. verið styrkt af iðnrn. Þótt endanlegar niðurstöður liggi ekki fyrir er ljóst að munur á orkunotkun í mismunandi húsum, t. d. á rúmmálseiningu, er talsverður og að þann mun má í flestum tilfellum jafna með hagkvæmum endurbótum á einangrun og hitakerfum húsanna.

Einnig hefur komið í ljós að í velflestum húsum má með einhverjum hætti spara orku á hagkvæman hátt. Húseigendur sem fjárfest hafa í orkusparandi endurbótum hafa undanfarin þrjú ár átt kost á láni frá Húsnæðisstofnun sem numið hefur 50% fjárfestingarkostnaðar skv. áætlun. Eftirspurnin eftir slíkum lánum hefur hins vegar farið dvínandi þrátt fyrir hækkandi orkuverð.

Iðnrn. hefur nú í samvinnu við félmrn. ýtt úr vör með sérstakt verkefni þar sem stefnt verður að því að hvetja fólk til aukins orkusparnaðar. Í því skyni er ætlunin að veita tæknilega ráðgjöf sem m. a. tekur mið af þeirri reynslu sem fengist hefur á Vesturlandi og jafnframt að veita aukna lánafyrirgreiðslu.

Samkvæmt þeim hugmyndum sem unnið er eftir við skipulagningu verkefnisins verður ákveðinn fjöldi starfandi ráðgjafa í kringum landið menntaður til þess að geta veitt ráðgjöf í þessu skyni sem byggð yrði á bestu fáanlegum upplýsingum um eiginleika og hagkvæmni ýmiss konar endurbóta.

Jafnframt er ætlunin að auka lánafyrirgreiðslur þannig að lánuð verði 80% áætlaðs fjárfestingarkostnaðar til 16 ára. Lánið verði verðtryggt, en á lágum vöxtum og afborgunarlaust fyrstu þrjú árin. Hið síðast talda á að gefa mönnum kost á að greiða niður eigið fjárframlag. Aðalatriðið í þessum hugmyndum er að lánið verði endurgreitt á fleiri árum en það tekur endurbæturnar að skila sér með minni orkunotkun og að greiðslubyrði þeirra sem framkvæma orkusparandi endurbætur aukist því ekki heldur minnki, jafnvel þótt til skamms tíma sé litið. Til þess að standa straum af auknum lánum hafa 30 millj. kr. verið veittar sérstaklega til Byggingarsjóðs ríkisins til úthlutunar á þessu ári, auk þess fjármagns sem Byggingarsjóður hefur sjálfur til ráðstöfunar í þessu skyni.

Rétt er að leggja áherslu á að orkusparnaður af þeirri stærðargráðu sem ráðgjöf á Vesturlandi hefur gefið til kynna að hægt sé að koma við hefði gífurlega þjóðhagslega þýðingu og væri skynsamlegt og jákvætt framlag í orkubúskap okkar. Á landsmælikvarða yrði heildarkostnaður slíkra aðgerða hins vegar að stærðargráðunni 3 þús. millj. kr. og því ljóst að um fjármögnun slíkrar áætlunar þyrfti að fjalla sérstaklega. Í fyrsta áfanga telst því rétt að veita því fólki aðstoð sem þyngstar byrðar ber, þ. e. býr í illa einangruðum húsum á svæðum með dýra orku. Því munu þau hús sem fyrirgreiðslu fá í fyrsta áfanga verða valin úr eftir sérstökum reglum, þar sem m. a. verður tekið mið af orkunotkun húsanna á rúmmálseiningu. Ekki er að efa að nokkur hluti húsa þeirra sem skoðuð hafa verið á Vesturlandi mun verða í þessum áfanga.

Að lokum er rétt að benda á að fyrirgreiðsla verður í formi verðtryggðra lána, þannig að þeir húseigendur sem ráðast í framkvæmdir nú þegar fyrir eigið fjármagn bera á engan hátt skarðan hlut frá borði. sumar aðgerðir sem í tillögunum felast, eins og t. a. m. einangrun ofan á þakplötu, borga sig á svo fáum árum að það er tilefnislaust og sóun á fjármunum fyrir húseigendur að bíða með slíkar aðgerðir eftir því að langtímafjármögnun fáist.