06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3415 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

231. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Fyrirspyrjandi (Jón Sveinsson):

Herra forseti. Í nóvember 1981 átti ég þess kost að flytja hér inn í þingið till. til þál. um skipun nefndar til að kanna öryggisbúnað fiski- og farskipahafna. Var í grg. með till. rakin fjöldi slysa við hafnir landsins og landganga skipa um rúmlega fimm ára skeið eða frá árinu 1975 til miðs árs 1981. Voru tölulegar upplýsingar byggðar á gögnum Slysavarnafélags Íslands, m. a. árbókum félagsins 1976–1981, skýrslum Rannsóknanefndar sjóslysa árin 1975–1980 og skýrslum Tryggingastofnunar ríkisins.

Nefnt tímabil voru sjóslys og drukknanir, þ. e. dauðaslys í höfnum hér við land, 46 og í höfnum erlendis 5, dauðaslys vegna umferðar við hafnir þar sem ekið eða hjólað var út af bryggju eða hafnarmannvirki reyndust 12 og slys á sjómönnum við ferðir af og frá skipi tímabilið 1975–1980 reyndust 128. Er í síðastnefnda tilvikinu aðallega um að ræða slys vegna falls úr eða í landgangi á bryggju, við að komast á milli skips og báta eða við að komast á eða af bryggju úr stiga svo nokkuð sé nefnt. Er þessi síðastnefndi fjöldi slysa byggður á skýrslum um bótaskyld tjón sjómanna, en til þess að slys teljist bótaskyld af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins þarf viðkomandi að hafa verið frá vinnu í 10 daga eða lengur svo sem kunnugt er. Í mörgum tilvikum er um smávægileg meiðsli að ræða, sem eigi að síður verða þó talin til slysa. Upplýsingar um önnur slys, sem ekki ná framangreindu 10 daga lágmarki, er erfitt að fá svo óyggjandi sé. Þó er vitað að nokkuð er um meiðsli og óhöpp sem ótvírætt mundu falla undir það sem almennt er kallað slys.

Fjöldi einstaklinga, sem orðið hefur fyrir slysum við hafnir eða land hérlendis það tímabil sem hér hefur verið gert að umtalsefni, er samtals 296 einstaklingar og eru þá bjarganir taldar þar með, sem reyndust 110.

Því miður virðist slysatíðni síðastliðin tvö ár svipuð og árin á undan. Með hinu hörmulega slysi í Grundartangahöfn nú fyrir skömmu, þar sem fjórir menn fórust, vorum við enn á ný minnt á hinar miklu hættur sem sjómenn búa við ekki aðeins á hafi úti heldur jafnframt við hafnir landsins. Gefur slíkur fjöldi slysa, sem hér hefur verið drepið á, vissulega fulla ástæðu til athafna og aðgerða.

Tóku alþm. till. vel á sínum tíma og eftir umfjöllun þingsins var hún samþykkt af Alþingi þann 27. apríl 1982. Er þál. á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. skipun fimm manna nefndar til að gera heildarathugun á fiski- og farskipahöfnum landsins með tilliti til slysaliættu sjómanna og annarra sem um hafnir fara.

Í nefndinni sitji einn fulltrúi tilnefndur af Slysavarnafélagi Íslands og sé hann formaður nefndarinnar. Eftirtaldir aðilar skipi hver einn fulltrúa í nefndina: Siglingamálastofnun ríkisins, Hafnamálastofnun ríkisins, Landssamband ísi. útvegsmanna og Sjómannasamband Íslands.

Skal starf nefndarinnar miða að því:

a) að benda á kunnar eða hugsanlegar slysagildrur við hafnarmannvirki og landgang skipa og báta,

b) að benda á við hvaða hafnir landsins og á hvaða sviði sé helst og brýnust þörf úrbóta,

c) að kanna aðbúnað til björgunar og slysavarna við hafnir landsins,

d) að gera tillögur um leiðir til úrbóta í ofangreindu efni, sjómönnum og öðrum, sem um hafnir fara, til aukins öryggis.

Ofangreind athugun og tillögugerð skal liggja fyrir eigi síðar en í árslok 1982.“

Svo sem fram kemur í ályktuninni skyldi athugun og tillögugerð liggja fyrir eigi síðar en í árslok 1982. Svo mun ekki hafa verið og ekki heldur ári síðar, í árslok 1983. Því hef ég leyft mér að leggja fram á þskj. 405, tölul. I, fsp. til hæstv. samgrh. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 27. apríl 1982 um skipun og störf nefndar til að kanna öryggisbúnað fiski- og farskipahafna?“