06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3416 í B-deild Alþingistíðinda. (2948)

231. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svar við þessari fsp.: Með bréfi dags. 15. nóvember 1982 skipaði ráðuneytið eftirtalda menn í nefnd til að kanna öryggisbúnað fiski- og farskipahafna samkvæmt þeirri þál. sem hér er vitnað til: Pál Guðmundsson deildarstjóra, sem tilnefndur var af Siglingamálastofnun ríkisins, Pétur Stefánsson útgerðarmann, tilnefndan af Landssambandi ísi. útvegsmanna, Hafþór Rósmundsson, tilnefndan af Sjómannasambandi Íslands, Daníel Gestsson yfirverkfræðing, sem tilnefndur var af Hafnamálastofnun ríkisins og Hannes Þ. Hafstein framkvæmdastjóra Slysavarnafélags Ístands, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar.

Samkvæmt skipunarbréfi nm. skyldu störf nefndarinnar miða að því að benda á kunnar eða hugsanlegar slysagildrur við hafnarmannvirki og landgang skipa og báta og benda á við hvaða hafnir landsins og á hvaða sviði sé helst og brýnust þörf úrbóta, að kanna aðbúnað til björgunar og slysavarna við hafnir landsins og gera tillögur um leiðir til úrbóta í ofangreindu efni, sjómönnum og öðrum sem um hafnir fara til aukins öryggis.

Um störf nefndarinnar hingað til svarar formaður hennar bréfi rn. á þennan hátt:

„Sem svar við fsp. yðar um störf nefndar sem skipuð var í nóvember 1982 til að kanna öryggisbúnað fiski- og farskipahafna skv. þál. þar um, sem samþykkt var á Alþingi 27. apríl þess árs, vil ég geta eftirfarandi:

Í viðræðum nm. hefur sérstök áhersla verið lögð á nýtingu hafnarsvæða, frágang og merkingu stiga, aukinn öryggisbúnað við hafnir og síðast en ekki síst varðandi ýmsan slíkan búnað um borð í skipunum sjálfum, t. d. landganga og allan frágang við þá.

Nefndin skrifaði til hafnarstjóra og hafnarvarða um land allt þar sem hún leitaði samstarfs, bað um ábendingar og sendi jafnframt spurningalista í ellefu liðum sem hún óskaði svars við. Fulltrúi Hafnamálastofnunar ríkisins lagði fram athyglisverða skýrslu um flotbryggjur fyrir smábátahafnir, en notkun þeirra fer ört vaxandi í nágrannalöndum okkar og hefur nefndin rætt mjög ákveðið þetta atriði.

Þá kynntu nm. sér greinargóða úttekt í máli og myndum um frágang og fleira á hafnarmannvirkjum, sem gerð var árið 1978.

Nm. eru sammála um að nauðsynlegt sé að þeir geti skipt með sér verkefnum eftir landshlutum, gert úttekt skv. fyrirliggjandi upplýsingum og heimsótt ýmsar hafnir til samanburðar á frágangi hafnarmannvirkja til samráðs við hafnarstjóra og hafnarverði um ábendingar til úrbóta þar sem þörf krefur.

Í viðræðum við samgrn. var þessu komið á framfæri og ítrekað með bréfi ásamt beiðni um sérstaka fjárveitingu í því augnamiði. Þótt nefndarstörf hafi legið niðri um sinn eru ýmsar athyglisverðar upplýsingar sem liggja fyrir og er fullur vilji nm. að takast á við þau verkefni, ljúka störfum og skila áliti. Því er áréttuð sú ósk og þess er vinsamlegast farið á leit við það háa ráðuneyti að það hlutist til um sérstaka fjárveitingu til þessa verkefnis, allt að 150 þús. kr.“

Það rn. hefur nú ekki úr miklu fjármagni að spila, en hins vegar mun ekki standa á því að reyna að verða við beiðni um að nefndin geti haldið áfram störfum og lokið störfum sem fyrst. Kemur til álita í því sambandi að Hafnamálastofnun leggi út nauðsynleg útgjöld vegna nefndarinnar. En ég hef lagt á það áherslu að hún hraði störfum og skili áliti sem fyrst.