06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3417 í B-deild Alþingistíðinda. (2949)

231. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Fyrirspyrjandi (Jón Sveinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir mjög skýr svör við spurningu minni og vænti þess svo sannarlega að nefndinni verði gert kleift að ljúka störfum svo sem þál. gefur tilefni til.

Þau slysatilvik sem ég nefndi hér á undan gefa ástæðu til að ætla að öryggisbúnaði við hafnir landsins sé víða mjög ábótavant og virðist í því efni oft vera um að ræða hvers konar öryggisbúnað. Þó má finna í hafnarreglugerðum og öðrum sambærilegum reglum um búnað skipa ótvíræða skyldu til aukins öryggis og betri búnaðar en nú tíðkast. Eru t. d. kunn ákvæði í hafnarreglugerðum þar sem fram kemur að fyllsta öryggis skuli gætt. Einnig er að finna í reglum um vinnuöryggi á fiskiskipum og um vinnuöryggi á flutningaskipum og farþegaskipum, sem settar hafa verið skv. lögum um eftirlit með skipum, ýmis ákvæði um búnað skipa, svo sem landgang o. fl. Eru allar þessar reglur góðar og gildar svo langt sem þær ná. Ég vil þó leyfa mér að efast um að eftirlit sé hér nægilegt og reglum fylgt til hlítar. Ýmislegt kemur hér til svo sem fjárskortur hafnasjóða, útgerðarfélaga og einstaklinga að ógleymdu athugunarleysinu. Ástandið í þessum efnum er þó vafalaust nokkuð misjafnt eftir því hvar á landinu er.

Í núverandi hafnalögum eru ekki ákvæði sem segja til um hver skuli bera kostnað af slysavörnum við hafnir landsins. Hins vegar var lagt fram á síðasta þingi og nú á þessu þingi frv. til nýrra hafnalaga, en í 26. gr. frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði allt að 75% af stofnkostnaði við slysa- og mengunarvarnir. Í grg. með frv. segir hvað þetta atriði snertir, með leyfi forseta:

„Vakin skal sérstök athygli á að stofnkostnaður við mengunar- og slysavarnir í höfnum verður skv. tillögu nefndarinnar styrkhæfur um 75% en er ekki styrkhæfur að neinu leyti skv. núgildandi lögum. Nefndin vill með tillögunni leggja áherslu á að þessar varnir séu í fullkomnu lagi í höfnum.“

Tek ég heils hugar undir þessar aths. sem sýna að þessum málum er nú gefinn betri gaumur en máske oft áður. Ég ítreka þakkir fyrir svör hæstv. ráðh. og vænti þess að þál. verði fylgt eftir.