31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

42. mál, orkulög

Ólafur Jóhannesson:

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja það að hæstv. iðnrh. kemur mér í heldur ljótan vanda. Ég hef að vísu ekki ritað undir þau brbl. sem hér liggja fyrir. En um þau var fjallað í fyrrv. ríkisstj. og þar samþykkti ég þau og útgáfu þeirra ásamt öðrum ráðh. Nú kemur hæstv. iðnrh. og mælist til þess við mig ásamt öðrum þdm. að fetla þetta frv., að vísu ekki alveg strax heldur eftir nánari skoðun. Þetta er nú dálítið stór biti að kyngja. Og maður þarf helst að hafa eitthvað mjúkt til að renna honum niður með.

Ég féllst á þessi brbl. á sínum tíma, sem hafa aðeins það ákvæði að geyma að gjaldskrár séu háðar samþykki ráðh. af þeirri ástæðu að ég taldi þá og tel enn að svona ákvæði séu skynsamleg. Það er alvanalegt að slíkt ákvæði sé sett, að samþykki viðkomandi ráðh. sé áskilið til reglugerða, samþykkta og annarra þvílíkra ákvarðana sem lægra sett stjórnvald tekur og hefur heimild til að taka. Ég held að þetta sé eðlilegur þáttur í því að hafa heildarstjórn á hlutum. Það er engin ástæða til þess að gera því skóna að neinn ráðh. misnoti þetta vald. En rökin sem ég fékk nú frekast út úr máli hæstv. iðnrh. voru samt þau, að fyrrv. hæstv. iðnrh. hefði ekki verið treystandi og væri ekki treystandi til þess að fara með þetta vald. Nú er sá fyrrv. ráðh. á burtu og í stólinn er sestur núv. hæstv. iðnrh. Ekki getur það verið að hann vantreysti sjálfum sér til að fara með slíkt vald? Það getur ekki verið. Ég verð að segja það að ég vantreysti honum ekkert til að fara með þetta vald. En ég fæ eiginlega ekki séð hvernig ég ætti að rökstyðja mín sinnaskipti, nema þá helst með því að ég hefði treyst fyrrv. hæstv. iðnrh. til að fara með þetta vald en treysti ekki núv. hæstv. iðnrh. til að fara með þetta vald. Og það er dálítið, eins og ég sagði, stór biti fyrir mig, og ég býst við fyrir aðra,.að kyngja því.

Ég vildi taka þetta fram því að líklega fer fyrir mér eins og hæstv. iðnrh., að ég geng ekki þetta kveldið hlæjandi til sængur, þegar ég þarf að bræða þetta með mér, hvort ég eigi að verða við þessum tilmælum núv. hæstv. iðnrh. að fella þetta frv. þegar þar að kemur. Ég vil alls ekki ræða neitt um Landsvirkjun og hennar rekstur í þessu sambandi. Þetta er almennt ákvæði, sem á almennt við, alveg óháð einstökum fyrirtækjum, og ég vil alls ekki blanda umr. um það neitt inn í þetta.

En ég verð náttúrlega að skoða þetta mál og kynna mér það hjá fyrrv. hæstv. kollega mínum, hvort þeir hafi fengið eitthvert meðtæti til að renna þessu niður. Ég ætla sem sagt að skoða málið, en er alls ekki reiðubúinn á þessari stund til að víkja frá þeirri ákvörðun sem ég tók á sínum tíma og átti þátt í að taka á sínum tíma. Og ég er af sannfæringu með því að hafa svona almenn ákvæði í lögum. Það er hættulaust, það er engin ástæða almennt til þess að halda að ráðh. fari að misbeita slíku valdi. En eins og ég sagði áðan og vil endurtaka, þá eru almenn ákvæði af þessu tagi alveg nauðsynleg til þess að tryggja ríkisstj. og ráðh. heildarstjórn á málum, og að það sé samræmi í hlutum. Til þess hefur ríkisstj. besta aðstöðu að fylgjast með í þeim efnum.

Og ég veit ekki betur en að það sé markmið hæstv. núv. ríkisstj., enda kom það alveg greinilega fram hjá hæstv. iðnrh., að hafa mjög fast — ég veit ekki hvort ég má segja eftirlit — en föst tök á verðlagsmálum og fylgjast ákaflega vel með í þeim málum. Enda liggur það í hlutarins eðli þar sem hennar meginmarkmið er það að koma verðbólgunni niður, þá verður hún að hafa tök á þessum þætti mála. Þess vegna er það að mínu mati nauðsynlegt að stjórnin hafi í höndunum nægilega stýristauma. En hún getur farið mjúklega með það stýri og tekið skynsamlega á þessum málum. En auðvitað verður aldrei stjórnað án þess að hafa vald, það er eins og hver önnur firra.