06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3423 í B-deild Alþingistíðinda. (2957)

189. mál, fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það virðist ekki mikill áhugi alþm. á þessu máli. Í grg. segir að það hafi verið flutt á fimm síðustu þingum án þess að hljóta afgreiðslu, enda vara flm. við bjartsýni.

Ég er ekki á móti því að málið verði skoðað, en ég er því fylgjandi að við hugsum okkur vel um í þessum efnum. Ég vil benda á að ef út í þessa starfsemi væri farið væri verið að gera upp á milli landshluta, króa af landsvæði þar sem allir væru stikkfrí, ef svo má segja. Það yrði náttúrlega eftir því hver niðurstaðan yrði með það hvað aðilum væri boðið upp á. Við hljótum að spyrja sjálf okkur að því: Ef við teljum okkur hafa efni á því t. d. að bjóða skattfríðindi og tollfríðindi og margháttaða fyrirgreiðslu erlendum eða innlendum aðilum á Keflavíkurflugvelli eða í Straumsvík, hvers vegna þá ekki annars staðar á landinu? Mismunun af þessu tagi kann að vera enn þá varasamari þar sem landið er lítið og þjóðin fámenn. Menn verða varla ginnkeyptir fyrir því að setja á stofn iðnfyrirtæki fyrir norðan og vestan og austan ef þeir fá lakari fyrirgreiðslu þar en erlendir eða innlendir aðilar í Keflavík. Það má a. m. k. ekki efna til beinnar samkeppni við sams konar iðnað sem fyrir er í landinu.

Við kynnum vissulega að græða á stofnun fríiðnaðarsvæðis og þá er ég helst að hugsa um ef við gætum með því móti flutt inn verk- og tækniþekkingu sem örðugra yrði að afla með öðru móti. Hugsanlega ykjust útflutningstekjur okkar. En helsti ávinningurinn væri vitanlega ný atvinnutækifæri sem bráðvantar einmitt á Suðurnesjum.

En ég vil vara við of mikilli bjartsýni, eins og flm. gera raunar. Ef á að bjóða mikil fríðindi þarna getur það haft sínar afleiðingar sem ekki sér fyrir endann á.