06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3427 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna. Ásamt mér eru flm. hv. þm. Pétur Sigurðsson og Egill Jónsson. Með leyfi forseta vil ég lesa upp þáltill. en hún hljóðar sem hér segir:

„Alþingi ályktar að fela viðskrh. að skipa nefnd til að gera úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna. Sérstaklega skal kannað hvort það fjármagn, sem er í afurðalánakerfinu, nýtist sem skyldi í þágu þeirra sem fyrst og fremst eiga að njóta þess. Lögð skal áhersla á að í úttektinni komi ferill fjármagnsins frá lánveitingu til endurgreiðslu skýrt fram.“

Í þessari þáltill. er hreyft við þeim stóra þætti peningakerfisins sem rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna eru. Núv. viðskrh. hefur falið Seðlabanka Íslands að endurskoða gildandi afurða- og rekstrarlánakerfi, en flm. þessarar þáltill. telja að jafnframt sé nauðsynlegt að úttekt þessa efnis, sem þáltill. gerir ráð fyrir, eigi sér einnig stað.

Mikil umr. fer jafnan fram um þessa tegund lána og sýnist sitt hverjum. En ljóst er að erfitt getur verið að kanna rækilega rekstrarlán atvinnuveganna umfram það sem kemur fram í opinberum gögnum. Hins vegar er full ástæða til og afar brýnt að gerð sé ítarleg úttekt á afurðalánakerfi þjóðarinnar svo að það komi skýrt og ljóslega fram hvernig afurðalánakerfið er í framkvæmd. Þá er það ekki síður mikilvægt að fram komi hvort afurðalánakerfi landbúnaðarins t. d. hafi náð þeim árangri sem að var stefnt á sínum tíma þegar þetta kerfi var sett á laggirnar fyrir áratugum síðan.

Í umr. á undangengnum misserum hefur m. a. verið fullyrt að afurðalánakerfi landbúnaðarins sé ekki eins skilvirkt gagnvart bændum og æskilegt væri. Enn fremur hefur því verið haldið fram að í skjóli þessa afurðalánakerfis eigi sér stað óæskileg fjármagnstilfærsla til óskyldra aðila sem sé bæði bændum og neytendum til tjóns.

Ekki liggja fyrir nægilega sannfærandi upplýsingar frá hinu opinbera um að ekki eigi sér hugsanlega stað misnotkun í þessu lánakerfi. Nokkrar athugasemdir hafa verið gerðar af hálfu einstaklinga í þessum efnum, m. a. af Þorvaldi Búasyni eðlisfræðingi sem hefur gert ítarlega athugun á rekstrarforsendum og áhrifum verðbólgu á afkomu vinnslustöðva landbúnaðarins þar sem komið er mjög inn á þessi atriði. Með þessari þáltill. fylgir skýrsla Þorvaldar Búasonar sem fskj. en afurðalánakerfi landbúnaðarins og meðferð þess fjármagns, sem þar um ræðir, hefur mikil áhrif á verðlagningu landbúnaðarafurða sem og á hag neytenda og bænda.

Með þessari þáltill. er því verið að leggja til að heildarúttekt verði gerð á afurðalánakerfi atvinnuveganna, í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði, til að skýra þessi mál, m. a. með tilliti til þess að unnt verði að fyrirbyggja hugsanlega misnotkun á því mikla fjármagni sem hér um ræðir og svo að sjálfsögðu einnig til að eyða tortryggni.

Verðbólguþróun síðustu ára hefur raskað öllu jafnvægi í peningamálum sem kunnugt er. Mjög erfitt er að meta áhrifin af þessari röskun í peningakerfinu og varast þær hættur sem fylgja því. Sú röskun, sem á sér stað í sjálfvirkum kerfum eins og afurðalánakerfin eru, getur boðið heim misnotkun og getur valdið því að kerfið, sem upprunalega er stofnað til þess að þjóna þeim tilgangi sem hér er greint frá, snúist í höndum þeirra sem eiga að vinna að viðkomandi útfærslu á sviði peningamála.

Íslenska afurðalánakerfið var á sínum tíma byggt upp í verðbólgulausu þjóðfélagi og það er skipulagt út frá allt öðrum forsendum en við Íslendingar höfum búið við undanfarna áratugi auk þess sem framkvæmd þessa kerfis hefur verið í höndum tiltölulega fárra aðila. Á það við hvort sem litið er til bankakerfisins eða þeirra sem fjalla um afurðalánin úti í atvinnulífinu. Þetta eru, ef litið er á hvernig þessi kerfi hafa verið í framkvæmd, lokuð kerfi. Fyrir öllum almenningi eru afurðalánakerfi þjóðarinnar þannig að fólk á erfitt með að skilja hvað í þeim felst og hvernig þau eru í framkvæmd. Af þessu leiðir að á síðustu árum, í þeirri geysilegu verðbólgu sem við höfum búið við, hafa vaknað upp grunsemdir um misnotkun sem gæti út af fyrir sig verið lögleg lögum skv. eða skv. reglugerðum um afurðalánakerfi en bjóða samt heim þeirri hættu að þótt löglegt sé að útfæra afurðalánakerfið með þeim hætti sem við þekkjum gæti þar verið um misnotkun að ræða þannig að fært væri til fjármagn með óeðlilegum hætti.

Í fyrrgreindri skýrslu, sem fylgir þessari þáltill. sem fskj. sem Þorvaldur Búason eðlisfræðingur hefur tekið saman, er m. a. varpað fram þeirri spurningu hverjar séu raunverulegar forsendur í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða og einnig hver er raunverulegur þáttur afurðalánanna í verðmynduninni. Þá mætti einnig varpa því fram, sem er kannske það sem skiptir mestu máli, hver er sannleikurinn um raunverulegar forsendur í sambandi við verðlagningu á landbúnaðarafurðum? Á hverju ári á sér stað mikil umr. um þetta víðs vegar í dagblöðum, hér á hv. þingi og víðar en því fer víðs fjarri að almenningur verði nokkurs vísari af þeim umræðum.

Allir kannast við upplýsingar um, í fyrsta lagi, að framleiðsluverð landbúnaðarvara sé of hátt á Íslandi samanborið við verð á hliðstæðri vöru í nágrannalöndum og er ýmsum fullyrðingum varpað fram í þeim efnum. Í öðru lagi, að slátur- og heildsölukostnaður fyrir dilkakjöt sé t. d. jafnhár eða því sem næst og verð á kjöti frá Nýja-Sjálandi komið á markað í Evrópu. Í þriðja lagi er fullyrt að bændur beri skarðan hlut frá borði vegna þess að þeir fá ekki gerða upp reikninga fyrir framleiðslu sína fyrr en seint og um síðir í mikilli verðbólgu. Í fjórða lagi, að vinnslustöðvar hagnist á verðbólgunni og ekki síst á afurðalánunum, en afurðalánin fá þær á lágum vöxtum miðað við þá vexti, sem aðrir þurfa að greiða, að ógleymdu því sem nefnt er vaxta- og geymslugjald, sem skilar arði af óseldum birgðum sauðfjárafurða. Þannig mætti lengi telja. Þetta eru spurningar sem ég og meðflm. mínir álítum að ekki hafi verið svarað sem skyldi.

Inn í þessa umr. kom einnig atriði sem ég gat um áðan, vextirnir. Hverjir eru raunverulegir og greiddir vextir? Hvert rennur vaxtamismunurinn? Hvernig þróast vextirnir í þessu kerfi miðað við 100–140–150% verðbólgu eins og gerðist á síðustu árum? Og sem sagt, hverjir hagnast á þeim mismuni sem þarna verður og hvernig á sér stað tilfærsla á fjármagni? Eru það bændur sem hagnast á þessu? Eru það vinnslustöðvar? Eru það dreifendur eða eru það neytendur? Engin skýr svör hafa fengist í þessum efnum.

Til þess að skýra þetta frekar vil ég nefna sem dæmi að árið 1980 má segja að vegna þeirra vaxtakjara, sem giltu um afurðalán, hafi verið um ákveðna uppsprettu fjármagns að ræða fyrir þann sem átti kost á að taka afurðalánin. Á því ári voru vextir af þeim 29% og 33% af nafnvöxtum en verðbólgan mældist þá um 50%. Þarna er um gífurlega mikinn mun að ræða og þessi munur hefur aukist og stækkað sem nemur aukningu verðbólgu frá árinu 1980 og allt fram til loka síðasta árs.

Allar framleiðslugreinar njóta þessara lána þannig að það er sjálfsagt mál að bæði hv. Alþingi og þjóðinni sé gerð grein fyrir því hvert þessi vaxtamismunur fer. En skv. því sem staðreyndir segja manni um framkvæmd þessara mála, þegar maður veltir því fyrir sér hvort rekstrarlánin séu vegna bænda eða vinnslustöðva, má raunverulega fullyrða að afurðalánin, sem ganga til landbúnaðarins, séu raunverulega veitt vinnslustöðvum þótt tilgangurinn sé sá að fjármagna rekstur sauðfjárbúa.

Hvernig lánsfé ratar síðan til bænda er með mismunandi hætti. Sumar vinnslustöðvar skipta lánsupphæðinni á viðskiptareikninga bænda eftir magni afurðanna næsta haust á undan. Aðrar ráðstafa þeim til þeirra bænda sem það árið þurfa sérstaklega á lánum að halda o. s. frv. En í stuttu máli sagt, þessi endurlánastarfsemi hefur ekki verið kortlögð og því miður hefur ekki verið unnt að fá hreinar línur í lánamyndina.

Ef við skoðum nokkuð hvernig greiðslum til bænda er háttað kemur í ljós að greiðslur til bænda fyrir sauðfjárafurðir eru með mismunandi hætti. Meginreglan mun vera sú að bændur fái 80% heildargreiðslunnar í nóv. og eru þá ekki reiknaðir vextir. 20% eiga þeir að fá í apríl og reiknast þá innlánsvextir á þá greiðslu frá nóv. að telja, þ. e. miðað við árið 1980, 35% til aprílloka en 34% frá maí að telja. Litið er svo á að bændur eigi afurðirnar og vinnslustöð sé einungis með þær í umboðssölu. Verð breytist þá á þriggja mánaða fresti. Þegar afurðirnar hafa verið seldar er reiknað meðalverð og bændum greiddur mismunur af meðalverði og upphaflega áætluðu verði í nóv. Það þýðir þá miðað við árið 1980/1981 að vextir reiknast af þeirri upphæð frá nóv. árinu áður, þ. e. frá árinu 1980.

Þá má gera greinarmun á tveimur reglum um greiðslur til bænda. Fyrsta regla, ef ég mætti nefna hana það, er þannig að greiðslurnar eru einfaldlega inntar af hendi, bændur fá ávísun, peninga eða lagt er inn á bankareikning bænda. Skv. reglu 2 fer greiðslan fram með þeim hætti að á viðskiptareikning bænda eru færðar inneignir, bændur taka síðan út vörur eða peninga jafnt og þétt eftir þörfum og eign að sjálfsögðu. Það mun vera þannig í reynd að aðeins Sláturfélag Suðurlands notar reglu nr. 1 og þar mun vera um að ræða ca. 15% af þeim sláturafurðum sem seldar eru í landinu. En meginreglan mun vera skv. reglu 2, þ. e. greiðslan fari fram með þeim hætti að á viðskiptareikning bænda séu færðar inneignir og bændur taki síðan út í vörum eða peningum eftir þörfum.

Eftir hvorri reglunni framkvæmdin fer getur haft geysimikla þýðingu, þ. e. með tilliti til þess hvað bændur bera raunverulega úr býtum. Ef t. d. fylgt er reglu 1, þ. e. bændur fái ávísun, peninga eða lagt inn á reikninga hjá þeim, miðað við allar forsendur 1980, kemur í ljós að á því ári, miðað við gkr., hefðu bændur borið meira úr býtum sem nemur 187 809 kr. miðað við þús. kg en miðað við reglu 2 hefðu bændur borið minna úr býtum eða sem nemur aðeins 14 556 kr. Þegar skoðað er hver verðbólguþróun er, hvernig vaxtaútreikningar eru o. s. frv. sýnir þetta og undirstrikar að ekki er sama hvernig afurðalánakerfið er útfært. Miðað við alla milljarða sem eru í afurðalánakerfinu, hvort sem það er í landbúnaði, sjávarútvegi eða iðnaði, gefur það auga leið að reikningsglöggir menn, sem kunna á kerfið, geta með löglegum hætti, en ég vil segja ósiðlegum, fært til hundruð millj. kr. árlega sér eða þeim fyrirtækjum í hag sem þarna koma við sögu, en bændum og neytendum til tjóns.

Menn verða að muna að upphaflega var afurðalánakerfið fyrst og fremst sett á laggirnar fyrir framleiðendur og neytendur en ekki fyrir þá aðila sem eru milliliðir í því kerfi sem hér um ræðir, hvort sem það á við í landbúnaði eða sjávarútvegi. Það er óeðlilegt að þjónustuaðilar í hvoru kerfinu sem er, í landbúnaði eða sjávarútvegi, taki umframgróða eða hagnað á tæknilegum forsendum miðað við verðbólguþróun í þjóðfélaginu svo að ekki sé talað um annan þátt, sem ekki er unnt að fara út í hér á hv. þingi að svo stöddu, sem er hvernig greiðslur eru inntar af hendi, hvort það sé dregið vikum eða mánuðum lengur að greiðslur fari til þeirra sem framleiða vöruna. Það er annar þáttur, sem ég ætla ekki að leyfa mér að fara út í á þessu stigi.

Það er skoðun okkar flm. þessarar þáltill. að full þörf sé á því að þetta kerfi allt saman sé tekið til gagngerðrar endurskoðunar og þarna sé framkvæmd nákvæm úttekt á því hvernig þetta er framkvæmt og hvernig þetta kemur tæknilega út í sambandi við breyttar forsendur í verðbólguþjóðfélagi. Nauðsynlegt er að upplýsa þessi mái. Nauðsynlegt er að taka fyrir hugsanlega misnotkun og nauðsynlegt að breyta framkvæmd þessara mála í samræmi við breyttar kringumstæður. Og ekki er síður nauðsynlegt að þetta mál sé ekki alfarið í höndum fárra aðila, hvort sem það er í bankakerfinu eða úti í atvinnulífinu. Hér er um svo stórar upphæðir að ræða að það getur haft afgerandi áhrif á annars vegar afkomu framleiðenda, í tilfelli landbúnaðarins bænda, og í hinu tilfellinu afkomu útgerðar og fiskiðnaðar.

Það er einnig nauðsynlegt að girt sé fyrir það með öllum ráðum að afurðalánakerfið sé nýtt í þágu ótengdra framkvæmda eða óskyldra fyrirtækja, þ. e. að peningarnir séu ekki færðir til hliðar í bili innan kerfisins til þess að byggja upp hagsmuni óskyldra aðila sem geta haft hönd um framkvæmd og afgreiðslu afurðalána.

Við leggjum áherslu á það, flm., að þessi kerfi séu skoðuð, skipulag þeirra og framkvæmd, hvort sem er í sambandi við landbúnað, sjávarútveg eða iðnað, og við væntum þess, herra forseti, að að lokinni þessari umr. fái þessi þáltill. þinglega meðferð og henni verði vísað til atvmn.

Að endingu vil ég segja þetta: Á hinu ágæta hv. Alþingi er áhugi hv. þm. oft í öfugu hlutfalli við stærð þeirra mála sem flutt eru hér. Það minnir mig dálítið á það þegar ég var á sínum tíma forustumaður í stóru stéttarfélagi. Á aðalfundum bar það oft við að menn rifust um það hvort tíkallinn hefði átt að fara í blómvönd til þessa eða hins, en þegar kom að því að ræða um stóru stærðirnar í sjóðunum, hvort sem það voru lífeyrissjóðir eða annað, þá stóð enginn upp til þess að fjalla um það. Líkt mun vera farið um þetta mál. Líklegast er það að vigt og þyngd í öfugu hlutfalli við það sem hv. þm. vilja yfirleitt fjalla um. En ég held að með því að fjalla um þessi mál, sem snerta afurðalánakerfi þjóðarinnar, gætu hv. þm. e. t. v. fundið stóran hluta sem fyllti það gat sem hæstv. fjmrh. virðist vera í vandræðum með í sambandi við fjárlög og framkvæmd þeirra á árinu 1984.