06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3431 í B-deild Alþingistíðinda. (2966)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég gæti trúlega ekki varið það fyrir samviskunni síðar meir ef ég hefði ekki notað tækifærið til þess að þakka flm. og frsm. fyrir flutning þessa máls og ef ég hefði ekki notað tækifærið til þess að leggja blessun mína yfir þetta ágæta mál þó að ég ætli mér ekki, enda orðið mjög áliðið fundar, að fara um það mörgum orðum.

Efnislega er þetta till. um úttekt á afurðalánakerfi atvinnuveganna. Það er náskylt öðru stóru máli sem lítil skil hafa verið gerð hér á Alþingi, þ. e. sjóðakerfið sjálft, sjóðakerfi atvinnuveganna og síðan sá þáttur þess sem er afurðalánakerfið sjálft. Þetta er gífurlega stórt mál og þær spurningar sem hér er varpað fram, svo sem eins og um upphaflegan tilgang þessa kerfis, hvort hann standist dóm reynslunnar. Er árangurinn kannske allt annar en til var ætlast í upphafi? Þetta mikla fjármagnsstreymi, frá hverjum er það komið, hvar endar það að lokum? Hverjum er þetta kerfi raunverulega í hag?

Það var hin gamla góða lífsvenja Rómverja hinna fornu að spyrja einfaldra spurninga um flókin mái. Og það er kannske fyrst og fremst þessi spurning: Hverjum er þetta kerfi í hag? Það er flókið, það er viðamikið, það er stór þáttur í allri efnahagsstjórn landsmanna. Það er svo flókið að yfirleitt tekst ekki að gera því nokkur sómasamleg skil í umr. manna á milli. En einföldustu spurningar eru oft lykillinn að fróðlegustu svörunum.

Grg., sem hér fylgir og tekur að vísu aðeins til takmarkaðs hluta af kerfinu, þ. e. afurðalánakerfið að því er varðar sauðfjárafurðir og þá um leið niðurgreiðslukerfið, sú athugun, sem hér liggur fyrir í fskj., athugun Þorvalds Búasonar eðlisfræðings sem er um margt mjög fróðleg, beinist ekki hvað síst að því að reyna að leiða í ljós, miðað við dálítið einfalt líkan og skoðun á einu ári verðlagsárinu 1980–81, hverjum þetta kerfi væri í hag. Ég held að niðurstöðurnar séu óumdeilanlega þær að hafi verið meiningin að þetta kerfi væri bændum landsins í hag, þá er það engan veginn sannað mál. Þvert á móti held ég að hægt væri að færa veigamikil rök að því að hagur bænda væri betur tryggður ef þetta kerfi væri lagt fyrir róða. Ef menn spyrja: Er þetta kerfi neytendum í þéttbýli í hag, meiri hluta þjóðarinnar, fer ekki á milli mála að svo er alls ekki. Hverjum er það þá í hag?

Niðurstaðan virðist vera sú að þetta sé fyrst og fremst í hag tiltölulega fámennum en gífurlega valdamiklum hópi í efnahagskerfi Íslendinga, sem ég kalla gjarnan á góðri stundu í einföldunarskyni Framsóknar-SÍS-kerfið og á þá nánar við auðhringinn SÍS og dreifingar- og vinnslukerfi innan þess auðhrings tengt hagsmunum landbúnaðarins. Þetta er gífurlega öflugt atvinnurekstrar- og fjármagnskerfi. Það er búið að byggja sig upp á mjög löngum tíma. Á fögrum stundum beitir það áróðri sem fyrst og fremst höfðar til tilfinninga allra þjóðlegra manna um að viðhalda byggð á Íslandi, um að gæfa hagsmuna vinnandi stétta, sem eru bændur.

En öll þessi fagra veröld sem notuð er í áróðri SÍS á stórhátíðum og tyllidögum stenst ekki þegar betur er að gáð. Það er fyrst og fremst í hag þessum millilið allra milliliða, þessu gífurlega viðamikla bákni, og það kemur fram í hverju dæminu á fætur öðru. Hér eru nefnd nokkur. T. d. er sá þáttur sem heitir Niðurgreiðslur á vaxta- og geymslukostnaði landbúnaðarafurða, sem vikið er að á bls. 31 í þessari grg. Þar er því reyndar haldið fram að niðurgreiðslur á vaxtakostnaði eigi engan rétt á sér einfaldlega vegna þess að kjör á afurða- og rekstrarlánum eru slík að vinnslustöð greiðir 131 kr. pr. kg minna til baka en hún fékk lánað. Þá er miðað við þetta ár sem ég nefndi í upphafi og verðbólgustig 50%. Þ. e. hér er svo ríflega bundið um hnúta að ekki er aðeins um að ræða lán sem eru á niðurgreiddum kjörum og sem raunverulega þarf ekki að greiða til baka, eru að hluta raunverulega styrkir. Svo koma niðurgreiðslur á vaxtakostnaði þar til viðbótar, sem er gersamlega óþarfur og óréttlætanlegur, svo að aðeins sé nefnt hér eitt lítið dæmi.

Dæmi er hér nefnt um það sem heitir sláturkostnaður. Færðar eru sönnur á að hann sé u. þ. b. þrisvar sinnum meiri í þessu kerfi en kostnaðurinn við að slátra samsvarandi magni eða öllu heldur slátra sauðfé í Nýja-Sjálandi og flytja alla leiðina eða hálfa leiðina kringum hnöttinn og koma á markað til neytendanna í Evrópu eða í Bretlandi. Það er þrisvar sinnum meiri kostnaður hér en þar.

Það er alveg ljóst af þessum dæmum að fjármunatilfærslan er alveg gífurleg. Þegar við hins vegar lítum á hlut bænda, sem venjulega er sá að fá greitt fyrir sínar afurðir eftir dúk og disk og það oft á mjög lélegum kjörum, sjáum við fljótlega að það sem er hreyfiafl kerfisins, þeir sem mata krókinn, þeir sem eru fyrst og fremst grimmastir í að verja þetta óbreytta kerfi, eru hvorki neytendur í þéttbýli né bændur heldur tiltölulega fámennur hópur milliliða sem hefur gífurlegra hagsmuna að gæta að viðhalda þessu kerfi. Nú höfum við aðeins stiklað á örfáum dæmum um einn þátt þessa kerfis sem er landbúnaðarkerfið.

Ég lofaði því af því að orðið er áliðið fundar að orðlengja ekki mikið um þetta. Ég vil aðeins, í framhaldi af því sem ég hef þegar sagt, minna á að þessi fjármagnsstjórnun, þessi pólitíska kommissarafjármagnsstjórnun, sem við höfum byggt upp hér á undanförnum áratugum, er raunverulega dæmi af austurevrópsku hagkerfi, þ. e. það eru pólitískir kommissarar, þar sem eru samtvinnaðir hagsmunir atvinnurekenda og pólitískra flokka sem hafa byggt upp kerfið. Þetta er lokað valdakerfi og það lifir í skjóli þess að tveir stærstu flokkar þjóðarinnar hafa sameiginlega gengið í ábyrgð fyrir þetta kerfi á kostnað neytenda í þéttbýli. Þriðji flokkurinn, Alþýðubandalagið, a. m. k. á 20 ára Framsóknarskeiði sínu meðan hann var trúaður á hina lúðvísku hagfræði, gerðist síðan þriðji ábekingur á þennan smánarlega víxil. Nú er eitthvað aðeins farið að rofa til í þeim flokki eftir því sem maður heyrir stundum hjá málflytjendum hans þannig að a. m. k. sumir þeirra virðast farnir að átta sig á því að þeir voru upphaflega flokkur, sem átti að gæta hagsmuna neytenda í þéttbýli, þótt ekki sakaði að þeir gerðu um leið hvað þeir gætu til þess að rétta hlut bænda sem eru arðrændir af þessu kerfi. Það er vandinn við þetta mál.

Ef það mætti treysta því að hv. flm., hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, gæti komið þessu máli í gegnum þann þingflokk, sem hann tilheyrir, gæti kannske farið að rofa aðeins til. Því að vissulega er þetta kerfi búið að þrúga okkur nógu lengi. En eins og ég sagði, þetta kerfi er að því leyti óvinnandi að meðan það ástand varir að fulltrúar í þingflokki Sjálfstfl., sem eru auðvitað fyrst og fremst kosnir sem umbjóðendur neytenda í þéttbýli, fá ekki komið fram innan síns flokks svona stórum og merkilegum málum nema í formi þáltill., sem ekkert bendir til að Sjálfstfl. sem slíkur standi að, er kannske verið að vekja upp falskar vonir.

Ég skal taka það skýrt fram að þetta er ekki sagt af tortryggni í garð 1. flm. og frsm. Ég þykist mega treysta því að ef ég mætti sjá hann á stól landbrh. eða stól viðskrh. fyrir hönd þess flokks mundi hann reyna að fylgja þessu máli fast fram. En því miður er það margra áratuga reynsla sem kennir okkur að þetta er að vísu mál sem er eitt af stærstu málum meiri hluta þjóðarinnar, þetta er m. a. s. líka ótvírætt hagsmunamál bænda, flestra hverra a. m. k. Engu að síður er það svo að við búum nú við ríkisstjórnarmynstur, þ. e. samstarf Sjálfstfl. og Framsfl., sem sagan kennir okkur að er því aðeins sett á laggirnar og fær því aðeins þrifist og staðist að þessir flokkar hafi gert með sér undirmál um það að við hagsmunum þessa kerfis verði ekki hróflað. Það er forsenda, reyndar hornsteinn, þessa stjórnarsamstarfs, því miður.

Rétt aðeins til þess að ljúka máli mínu vil ég minna á það að í stjórnarmyndunarviðræðunum milti allra stjórnmálaflokkanna á s. l. vori kom mjög rækilega fram að stóru ágreiningsefnin, t. d. að því er varðaði Alþfl. annars vegar og svo þessa tvo flokka hins vegar, snerust um þessi mál. Krafa Alþfl. var sett fram í mjög mörgum liðum í stjórnarmyndunarálitsgerðum um að þetta kerfi yrði stokkað upp. Reyndar bæði þessi kerfi, stýrikerfi fjármagns í landinu að því er varðar sjóðakerfi atvinnuveganna. og svo hins vegar landbúnaðarkerfið allt saman, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins, niðurgreiðslukerfið, útflutningsbæturnar, einmitt mjög í anda þeirrar till. sem hér er til umr.

Auðvitað vissum við og vitum að þeir sem raunverulega unnu verkin fyrir Sjálfstfl. í þessum stjórnarmyndunarviðræðum, sem var yngri deildin, voru í hjarta sínu alveg sammála okkur. Þeir hefðu út af fyrir sig getað skrifað undir það, flestir hverjir, að það væri einn brýnasti þátturinn í hagstjórnaraðgerðum næst eftir því að afnema vísitölukerfið áð stokka upp þetta kerfi. En því miður, kosningaúrslitin voru þannig að þeir töldu sér ekki fært að mynda öfluga meirihlutastjórn með öðrum en Framsfl. og urðu þess vegna þar með að selja frumburðarrétt neytenda í þéttbýli, meiri hluta þjóðarinnar, og reyndar hagsmuni bænda í hendurnar á SÍS-Framsóknarkerfinu með þeim afleiðingum að hér verður ekki um þokað. Trygging Framsóknar-SÍS kerfisins fyrir því að svo verði er það að meðan Sjálfstfl. og hluti af Alþb. eru raunverulega framsóknarmenn í dularklæðum er lítil von um breytingu.

Það sem þarf að gerast til þess að koma hér á raunverulegum róttækum nauðsynlegum kerfisbreytingum er að þau öfl nái saman í íslenskri pólitík, sem vilja setja þessi mál á oddinn og hafa til þess afl að gefa þessu Framsóknarkerfi SÍS frí frá völdum svo sem eins og einn eða tvo áratugi.