06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3434 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég tek undir að þessi till. er þörf og tek einnig undir að það er frekar leiðinlegt hve fáir þm. eru hér til að ræða þetta mál og ekki síst úr þeim ágæta flokki sem hér hefur verið sérstaklega nefndur til að beri aðalábyrgðina á því ástandi sem lýst er að sé ekki gott. Það hefði verið mjög gaman ef hæstv. landbrh. hefði tekið þátt í þessari umr., en um það er ekki að tala. Hann er ekki hér staddur.

Mér finnst þó að sá málflutningur sem hér hefur farið fram sé ekki að fullu til rökstuðnings tillgr. Tillgr. er um að gera úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna, en hér hefur umr. fyrst og fremst snúist um landbúnaðinn og þann þátt lánanna sem að honum snýr. Ég ætla hvorki að verja né hallmæla þeim þætti afurðalánanna, kem ekki upp í ræðustól til að segja beinlínis að þetta sé gott eða vont, en ef það er mjög vont núna er það búið að vera vont undanfarna áratugi og var vont í þeirri fögru veröld sem Alþfl. átti hlut að að skapa á viðreisnarárum. Alþfl. — þá mjög sterkur stjórnarflokkur — stjórnaði með öðrum flokki þá, Sjálfstfl. Væntanlega var þá kominn sá möguleiki sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson nefndi áðan. Þá héldu þau öfl um valdataumana sem höfðu möguleika og jafnvel vilja til að gera það sem hv. þm. var að nefna hér, taka nú vel til í framsóknarkerfinu og hreinsa til. En því miður var ekkert gert á þessu tímabiti. Afurðalánakerfinu var ekki breytt og við stöndum í sömu sporum nú í sambandi við afurðalánakerfið og á tímum viðreisnar.

En vegna þess að mér finnst tónninn í þessari till. vera sá að ekki sé eingöngu verið að fordæma afurðalánakerfið í landbúnaðinum, sem ég ætla ekki að fara að mæla bót, tel ég ástæðu til að láta í ljós þá skoðun mína að afurðalánakerfið í sjávarútvegi á Íslandi sé ekki þannig uppbyggt að það sé mjög nauðsynlegt að fara að breyta þar einhverju. Sjálfsagt þarf í tímanna rás að breyta ýmsu, en afurðalánakerfið, þ. e. lán út á framleiddar afurðir, í sjávarútvegi er að mínu mati eins eðlilegt og sjálfsagt og að lánakerfi sé uppbyggt í þjóðfélaginu, eins og er hjá okkur Íslendingum, svo að hver sá framleiðandi sem framleiðir sjávarafurðir til útflutnings hafi nokkra tryggingu fyrir því að geta fengið fyrirgreiðslu í lánakerfinu til að fjármagna þann kostnað. Ég sé ekki neina leið til að misnota kerfið og þar af leiðandi tel ég að þessi till. hefði frekar átt að fjalla beint um að gera úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi landbúnaðarins frekar en að hinir þættirnir fylgdu þar með.