07.03.1984
Efri deild: 58. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3438 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 51 frá 20. apríl 1953, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Eins og alkunna er hafa að undanförnu orðið miklir erfiðleikar í sjávarútvegi. Í sjálfu sér eru margar ástæður fyrir því og þær helstar að fyrir utan almennan aflabrest hefur olía farið hækkandi á heimsmörkuðum á undanförnum árum, vextir og fjármagnskostnaður hefur einnig farið mjög hækkandi og samfara mikilli verðbólgu og á margan hátt óhagstæðri gengisþróun fyrir útgerðina hafa þessi vandamál aukist stig af stigi. Á s. l. vori lá þessi vandi fyrir og það lá fyrir okkur þá að gera ráðstafanir til að forða verstu áföllunum. Það sem fyrst var gert var að draga úr þeirri verðbólguþróun sem hér hefur verið á undangengnum árum og hefur e. t. v. verið einn mesti fjandi sjávarútvegsins í heild sinni. Jafnframt því hefur verið reynt að taka á öðrum vanda sjávarútvegsins sem er ekki aðeins fjárhagslegur heldur er hér einnig um skipulagsvanda að ræða. En segja má að þegar birtar voru tillögur um afla á s. l. hausti var þessi vandi enn meiri og því úr vöndu að ráða hvernig út úr því skyldi komist á árinu 1984. Í framhaldi af því var breytt um fiskveiðistefnu eins og kunnugt er. Fiskverð var ákveðið í byrjun febr. við mjög erfiðar aðstæður og svokallað kvótakerfi tekið upp fyrir árið 1984.

Ég ætla ekki að rekja þessi mái. Þau hafa áður verið rædd hér á Alþingi. En ég vil minna á að í sambandi við fiskverðsákvörðun 10. febr. 1984 var gefin út svohljóðandi fréttatilkynning frá sjútvrn. og vildi ég vitna hér til hennar, með leyfi forseta:

„Í tengslum við ákvörðun fiskverðs fyrir tímabilið 1. febr. til 31. maí og setningu reglugerðar um stjórn botnfiskveiða á árinu 1984 eru áformaðar ýmsar ráðstafanir til þess að bæta afkomu og fjárhagslegt skipulag sjávarútvegsins og stuðla að sanngjarnri og skynsamlegri tekjuskiptingu innan hans. Meginatriði eru þessi:

1. Skuldbreyting útgerðarskulda eftir almennum reglum þannig að áhvílandi skuldum, hvort sem þær eru í skilum eða vanskilum, allt að 90% af vátryggingarverðmæti skipanna, verði breytt í lán sem hefur jafnlangan lánstíma og upphaflegu stofnlánin að viðbættu minnst einu en mest sjö árum og ræðst lengingin af hlutfalli áhvílandi skulda. Lánskjörum verði breytt þannig að greiðslubyrði lækki verulega á næstu árum og dreifist sem jafnast yfir lánstímann. Auk þess verði lausaskuldum útvegsins breytt í lengri lán innan vissra marka.

2. Kostnaðarhlutdeild utan skipta skv. brbl. nr. 55/1983 haldist óbreytt en til skipta komi 2% af henni í viðbót við fyrri skiptahlut áhafna.

3. Bætur úr hinni almennu deild Aflatryggingasjóðs verði með sérstökum hætti árið 1984 þannig að vegna hins atmenna og atvarlega aflabrests, sem fyrirsjáanlegur er 1984 verði greiddar sérstakar bætur af tekjum og eignum deildarinnar sem nemi 4% af öllu aflaverðmæti miðað við skiptaverð. Bætur þessar greiðist inn á reikning hvers skips hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa, sbr. lög nr. 4/1976. Bæturnar komi í stað allra bótagreiðslna almennu deildar sjóðsins 1984 og komi ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna.“

Í fjórða lagi er í þessari fréttatilkynningu fjallað um áhafnadeild Aflatryggingasjóðs en þar er gert ráð fyrir að hann fái til ráðstöfunar á árinu 1984 ríkisframlagið til Aflatryggingasjóðs, sem er 18.6 millj. kr., auk síns venjulega tekjustofns af útflutningsgjaldi. Þetta verði gert til þess að deildin geti aukið greiðslur fæðispeninga og einnig til þess að hún geti greitt úr fjárhagsörðugleikum sjómanna sem upp kynnu að koma vegna þess að útgerð skipa stöðvast vegna aflabrests og hinna nýju reglna um stjórn botnfiskveiða á árinu 1984.

Í fimmta lagi er fjallað hér um útflutningsgjald af saltfiski.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að breyta greiðslum úr Aflatryggingasjóði á árinu 1984 meðan það sérstaka ástand, sem hér hefur skapast, varir. Hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða og ég vil leggja á það áherslu að hér er ekki verið að leggja til að farið verði með Aflatryggingasjóð með þessum hætti um alla framtíð. Hitt vil ég hins vegar leggja áherslu á að ég tel nauðsynlegt að breyta því fyrirkomulagi sem áður hefur verið þótt það fyrirkomulag, sem hér er tekið upp fyrir árið 1984, sé ekki slíkt fyrirkomulag að það eigi að gilda um alla framtíð.

Ég tel að nauðsynlegt sé, ekkert síður en að jafna afla eða draga úr aflasveiflum á milli skipa eða svæða, að reyna að draga úr þessum sveiflum á milli ára. Sjóðurinn hefur þróast mjög í þá átt að jafna milli skipa og milti svæða. Hér er því slegið föstu að vegna hins almenna aflabrests skuli fjármagn sjóðsins notað á árinu 1984 til að jafna þá miklu sveiflu sem hefur orðið á milli ára. Það gæti áreiðanlega orðið mjög til bóta sem framtíðarskipan að ekki sé einungis jafnað á milli svæðanna og skipanna heldur verði einnig sú tilhögun tekin upp í framtíðinni að slíkt sé mögulegt.

Ég vil taka fram að ekki er fullt samkomulag um þessa tilhögun. Fulltrúar sjómanna hafa tekið fram að þeir séu andvígir þessari ráðstöfun á fjármagni sjóðsins og það eigi að koma til skipta. Benda má á að gert er ráð fyrir því að auka svokallaða kostnaðarhlutdeild utan skipta. Þó að það komi ekki beinlínis þessu máli við er það nú samt svo að bætur úr Aflatryggingasjóði koma ekki og hafa ekki komið með beinum hætti til skipta. Hins vegar má halda því fram með réttu að það hafi auðveldað viðkomandi útgerðum og viðkomandi aðilum að standa við skuldbindingar sínar gagnvart sjómönnum.

Ég held að það eigi ekki að dyljast neinum að þessar ráðstafanir treysta að nokkru afkomu útgerðarinnar og þar með getu hennar til að greiða aflahluti og kauptryggingu. Hér er því ekki eingöngu um hagsmunamál útgerðaraðila að ræða, eins og oft hefur verið haldið fram, heldur skiptir það að sjálfsögðu einnig máli fyrir alla sjómannastéttina að útvegurinn sé svo staddur fjárhagslega að hann geti staðið í bærilegum skilum með aflahluti.

Að öðru leyti vil ég vísa til grg. með þessu frv. Þar kemur fram að eignir almennu deildarinnar í ársbyrjun 1984 eru u. þ. b. 200 millj. Gert er ráð fyrir að tekjur á árinu 1984 verði um 120 millj. kr. Hins vegar er gert ráð fyrir því að bótagreiðslur skv. frv. muni nema 210–220 millj. kr. þannig að í reynd er verið að ráðstafa u. þ. b. helmingi af eignum almennu deildarinnar eða á bilinu u. þ. b. 90–100 millj. umfram tekjur á árinu 1984.

Auk þess eru birtar hér sem fskj. upplýsingar um hag botnfiskveiðanna á árinu 1982 og áætlaða afkomu á árinu 1984 miðað við þær aflamarksreglur sem hafa verið settar. Er það fyrst og fremst gert til þess að hægt sé að gera sér betri grein fyrir hag greinarinnar. Einnig eru hér í töflu upplýsingar um áætlaðar skuldir útgerðar í árslok 1983.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um mál þetta lengra mál á þessu stigi en vil leggja til að málinu verði vísað til hv. sjútvn. að lokinni þessari umr. og til 2. umr.