07.03.1984
Efri deild: 58. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3444 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér liggur í eitt skiptið enn fyrir frv. til l. um breytingu á lögum í sambandi við sjávarútveginn. Þau eru öll við sama heygarðshornið. Það á sem sagt að ganga einu sinni enn á rétt sjómanna. Mig furðar það stundum. Það er eins og þeir haldi, þessir hv. ráðamenn, að skip veiði sjálfkrafa án þess að hafa áhafnir. Ég ætla að vitna í nokkur orð í bréfi, sem er mótmæli frá 77 skipshöfnum. Ég ætla að fá að vitna í seinni part bréfsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú endurskoðun og uppskipti á sjóðakerfi sjávarútvegsins, sem gerð var 1976 í samráði við sjómenn, leiddi af sér 6% lækkun á hlutaskiptum gegn því að sjóðakerfi sjávarútvegsins yrði afnumið í áföngum sem þó var aldrei framkvæmt eins og samið var um 1976. Við viljum því vara Alþingi við að samþykkja þessa lagabreytingu án þess að þessir fjármunir komi til skipta. Með því er hið háa Alþingi að efna til ófriðar við sjómenn og ekki að setja réttlát lög sem er þó hlutverk Alþingis Íslendinga.“

Ég tel að þetta sé nægileg skýring á því sem er að ske nú. Ég held að ekki sé hægt að setja slík atriði í lög, eins og er að finna í síðustu tveimur línunum á síðu 2, án skýringa. Ég vildi fá hæstv. sjútvrh. til að útskýra það eilítið. Þar stendur: „Sjútvrn. mun setja um þetta nánari reglur í samráði við hagsmunasamtök og stjórn Aflatryggingasjóðs.“ Hvaða hagsmunasamtök? Eru það ekki hagsmunir sjómanna sem koma þarna inn í líka? Ef þeir mótmæla eindregið, hver verður þá niðurstaðan? Verður þetta frv. samþykkt með mótmælum sjómanna og gegn þeirra atkv.?