07.03.1984
Efri deild: 58. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3444 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka mjög undir það sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði hér varðandi þá birtingu á aflamarki sem kom í Morgunblaðinu. Þessar upplýsingar voru aðeins í höndum örfárra manna. Ég ætla ekki að tilgreina hverjir það voru enda skiptir það ekki máli héðan af. Hins vegar virðist svo vera að fjölmiðlar — og kannske þá sérstaklega þetta blað — leggi sig mjög fram um að birta trúnaðarupplýsingar og ég get út af fyrir sig e. t. v. ekki verið að kenna einstökum blaðamönnum eða ritstjórn þessa blaðs um það. En greinilegt er að þessum aðilum er ekkert í mun að reynt sé að hafa þessi mál með þeim hætti að talist geti eðlilegt. Fjölmiðlum þykir það sjálfsagt, jafnvel þótt mál séu stimpluð sem algert trúnaðarmál, að reyna að finna þau og birta þau. Við vorum margbúnir að neita öllum fjölmiðlum og þessum aðilum um þessar upplýsingar í rn. en einhverra hluta vegna tókst þeim að ná þeim.

Ég vil hins vegar taka fram að við töldum óæskilegt að birta þessar upplýsingar vegna þess að þær eru í mörgum tilfellum ekki réttar. Það á eftir að framkvæma leiðréttingu á allmörgum skipum. Hins vegar ákváðum við að um leið og þær leiðréttingar hefðu verið birtar eða verið gerðar yrði listinn birtur. En vegna þessa atburðar höfum við — gerðum það að vísu ekki fyrr en í morgun — sent Alþingi þennan lista í framhaldi af skriflegri fsp. sem hér kom fram og vænti ég þess að hann verði prentaður í dag. En það var hugmynd okkar að þingið fengi þetta fyrst í hendur eftir að þeir aðilar, sem þurftu að hafa þetta með höndum, höfðu um það fjallað.

Ég vil hins vegar segja það varðandi það samráð, sem hér var gagnrýnt, að ég kannast ekki við að ég eða mitt rn. hafi neitað því að ræða við sjávarútvegsnefndir þingsins um þessi mál. Það tel ég ekki vera rétt og — (Gripið fram í.) Já, úr því hefur verið bætt núna. Að vísu bætti Morgunblaðið úr því þótt það væri með óeðlilegum hætti. Maður vill náttúrlega gjarnan, krefjast þess af þessum fjölmiðlum að þeir virði einhverjar venjur og einhverjar samskiptavenjur. Ég segi fyrir mig að við erum að reyna það í sjútvrn. að láta fjölmiðlum í té eins miklar upplýsingar og við teljum okkur vera fært. En við höfum hins vegar orðið fyrir því nokkrum sinnum að við höfum afhent t. d. hagsmunaaðilum eingöngu trúnaðarupplýsingar en verðum svo fyrir því að þær birtist í blöðum og fjölmiðlum. En ég tek undir þessa gagnrýni og ég harma að svo skyldi hafa tekist til og get ekkert meira um það sagt.

Hitt er svo annað mál að við höfum verið að safna saman þeim kvörtunum sem hafa komið og þær eru allmargar. Auðvitað vissum við að hér er við margvísleg vandamál að etja. Nefnd á vegum hagsmunaaðila, þar sem er fulltrúi sjómanna, útvegsmanna og rn., hefur unnið mjög gott starf að undanförnu við að fara í gegnum þessi mál og þar hefur verið hin besta samstaða. Í framhaldi af því búumst við við að gefa út einhverjar breytingar á reglugerð og það er sjálfsagt og nauðsynlegt að skýra þau mál fyrir sjávarútvegsnefndum þingsins. En við töldum hins vegar hyggilegra að bíða þar til kærufrestur væri útrunninn þannig að við hefðum fulla yfirsýn yfir málið áður en breytingar yrðu framkvæmdar.

Ég vil aðeins taka fram vegna þeirra orða, sem hér hafa komið fram, að hér sé verið að ráðast að kjörum sjómanna, eins og það gjarnan er kallað, og ganga á rétt þeirra, þá er það svo að þeir peningar, sem hér um ræðir, hafa ekki komið fram sem aukin laun sjómanna. Það er ekki rétt að segja að sjómenn hafi fengið þessa peninga í sínar hendur. Þeir eiga rétt á kauptryggingu og þeir eiga rétt á henni áfram. Ég vil leyfa mér að biðja aðila að tata dálítið skýrar um þetta mál.

Það er út af fyrir sig rétt, sem haldið er fram, að þar með sé ekki jafngóð trygging fyrir því að viðkomandi kauptrygging sé greidd. Það er út af fyrir sig rétt. En útgerðarmaður og útgerðaraðili hefur jafnmiklar skyldur við sjómanninn að greiða honum laun og sem betur fer er orðin betri trygging fyrir því í lögum með öðrum hætti að laun séu greidd, sem ég veit að hv. þm. Karl Steinar Guðnason þekkir. Það má hins vegar vel vera að þessi trygging verði ekki nægilega góð.

En ég vil einnig benda á að hér er úr nokkuð vöndu að ráða og það er ekki svo að hér séu víða fullir sjóðir af fjármagni til að ganga í til að bæta stöðu sjávarútvegsins. Ég vildi gjarnan vita af því ef svo væri. En það hefur nú ekki reynst þannig þegar við höfum að undanförnu verið að leita að ráðum til að komast með einhverjum hætti fram úr þessum málum. Vissulega hefðum við viljað gera margt öðruvísi en við höfum ekki séð að kostirnir væru svo mjög margir. Hins vegar heyrum við það mjög gjarnan að ómögulegt sé að gera þetta svona og ómögulegt að gera þetta hinsegin. Það er það sem við heyrum dags daglega. En við heyrum minna um hvernig hefði þá átt að gera það.

Það vill náttúrlega alltaf verða svo að þegar við erfiðleika er að etja er auðvelt að finna að og það ber að gera það. En hins vegar er það ekki af neinni illgirni, eins og allt að því er látið að liggja, við sjómannastéttina að þessi ráðstöfun er gerð á árinu 1984. Ég leyfði mér að halda því fram að þessi ráðstöfun sem slík sé ekki skerðing á launum sjómanna. Það væri betur að menn töluðu stundum dálítið skýrar í öllum fullyrðingunum.

Hitt er svo annað mál að það væri vonandi að afli yrði mun meiri en menn hafa gert ráð fyrir. Hins vegar vil ég vara við því, jafnvel þótt vel aflist um sinn, að ætla að hér sé einhver stórkostlegur afli á ferðinni. Aflabrögð eru misjöfn við landið og fiskurinn leggst nokkuð misjafnt upp að landinu. T. d. er sáralítill afli, eftir því sem ég best veit, við suðurströndina núna og við Reykjanes. Hins vegar hefur komið góð ganga inn á Vestfjarðamið og eins hefur afli verið góður fyrir Vesturtandi. Við þurfum að sjálfsögðu að fylgjast vel með þessum málum og taka ákvarðanir í samræmi við það.

En það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hrygningarstofninn sé í góðu ásigkomulagi nú á næstunni því að nú fáum við þær fréttir að hér sé hlýnandi sjór og bætt skilyrði og til mikils að vinna að hrygning takist vel og þegar lífríki batnar, eins og við erum að vona að muni gerast, muni sem best úr rætast. En til þess að svo geti orðið þarf að sjálfsögðu að vera til staðar einhver lágmarks hrygningarstofn. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ekki komi til greina að taka fyrri ákvarðanir til endurskoðunar. Að sjálfsögðu á að gera það þegar menn hafa nægilega vitneskju. En hins vegar tel ég að of snemmt sé að tala eins og það sé gefinn hlutur.

Hv. þm. Kotbrún Jónsdóttir spurði hvernig ætti að skilja það sem segir hér á bls. 2 að sjútvrn. muni setja um þetta nánari reglur í samráði við hagsmunasamtök og stjórn Aflatryggingasjóðs. Þá má svara því til að ekki hefur verið gengið endanlega frá því en uppi hafa verið hugmyndir um að setja sérstaka nefnd — að sjálfsögðu með aðild sjómanna — til að fjalla um þessi mál. Um það og annað verður væntanlega rætt í dag á fundi í svokallaðri ráðgjafarnefnd um sjávarútvegsmál. En hún kemur saman til fundar í dag til þess að ræða þessi mál og ýmis önnur er varða sjávarútveginn. T. d. höfum við ekki lokið við skiptingu á afla fyrir árið 1984. Ekki hafa verið ákveðnar reglur fyrir humarveiði og síldveiði og m. a. um þau mál er ráðgjafarnefndin nú að fjalla.