07.03.1984
Efri deild: 58. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3450 í B-deild Alþingistíðinda. (2978)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Þetta frv. gefur ekki tilefni til almennrar efnahagsumræðu en ég hygg að menn verði að hafa í huga að útgerðin verður að ganga og ganga vel. Annars er íslensku þjóðarbúi illa komið. Hins vegar hefur verið búið þannig að útgerðinni á undanförnum árum að hún hefur staðið á brauðfótum, hverjum sem það er að kenna. Ég hygg að ríkisstjórnir hafi almennt búið þannig um hnútana að skilja eftir sig erfiðleika þar og bæta á þá erfiðleika, m. a. með því að kynda undir verðbólguna. Það er ekki verðtryggingin sem er upphafið að þessu, það er ekki verðtrygging sem er orsök erfiðleikanna, það er verðbólgan sjálf sem stjórnmálamenn og aðrir hafa kynt undir, aukið og eflt.

Ég fullyrti áðan og geri enn að þetta frv. verði til að skerða kjör sjómanna og furða mig á því ef ágreiningur er um það. Við getum deilt um leiðir til að bjarga útgerðinni og við erum tilbúnir til þess, a. m. k. í Alþfl., að ræða það með stjórnvöldum hvernig hjálpa skuli útgerðinni og koma henni til að ganga vei. En að deilt sé um hvort þetta sé skerðing fyrir sjómenn eða ekki, það kemur á óvart. Ég þekki það af eigin raun að þessi ráðstöfun verður til þess að sjómenn eiga erfiðara með að fá sitt kaup. Það hefur oft verið erfitt en ég er öruggur á því að það verður mun erfiðara eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt.

Heyrst hafa þær raddir hér að menn hafi gert út á Aflatryggingasjóð. Vafalaust eru til dæmi um það. Það er eins og með alla tryggingu að ýmsir óverðugir fá út úr tryggingum. En að leggja af kerfið þess vegna er vond ráðstöfun, ófær ráðstöfun. Heldur væri nær að laga það sem aflaga hefur farið. Ég hygg að möguleikar séu á því bæði í þessum tryggingum sem öðrum. En ég ítreka það að ef þetta frv. verður samþykkt verður enn gengið á hlut sjómanna. Ég tel það alveg augljóst og ekki umdeilanlegt atriði. Og líka það að sjómönnum verður gert erfiðara fyrir að fá sín laun sem eru allt of lág í dag og hafa verið skert meira en laun annarra launþega í landinu.