31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

42. mál, orkulög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Mér finnst í sumu af því sem fram hefur komið í þessum umr. gæta nokkurs misskilnings, eins og þegar menn tala svo að hér sé spurningin um það hvort stjórnvöld eigi engin áhrif að hafa á gjaldskrár orkufyrirtækja eða ráða þeim alfarið.

Hv. 9. þm. Reykv. skýrði í hverjum vanda hann væri staddur nú ef hann ætti að standa að því að fella brbl. sem hann bar ábyrgð á að sett væru. Jú, ég skil sjónarmið ráðh. En ég held að það þurfi að líta dálítið nánar á þetta mál. Ég held að þetta sé afleiðing af vanda sem hv. 9. þm. Reykv. stóð frammi fyrir áður og mætti ekki að mínu viti á réttan hátt. Þegar frv. sama efnis var lagt fram á síðasta þingi þá kom það í ljós, eins og bæði ég og flokksmaður hv. 9. þm. Reykv., hv. 5. þm. Vesturl., tókum fram hér í umr. áðan, að það var ekki þingmeirihluti fyrir þessu frv., það var ekki þingmeirihluti fyrir því. Undir slíkum kringumstæðum skeður það svo að þáv. hæstv. iðnrh. setur brbl. ekki einungis nákvæmlega eins efnislega heldur nákvæmlega eins orðuð eins og frv. sem ljóst var að hafði ekki þingmeirihluta. Og hv. 9. þm. Reykv., sem var þá í ríkisstj., bar ábyrgð á því að það yrði farið á þennan veg kringum vilja Alþingis og í raun og veru á móti vilja Alþingis. Og ég hygg, af því menn eru svo mikið núna að tala um að kyngja, að það hafi verið sýnu erfiðara fyrir hv. 9. þm. Reykv. að kyngja því að standa að slíkri afstöðu. Og ég hygg að það geti ekki verið að slíkum manni sem honum hafi verið það ljúft í sjálfu sér.

Hv. 9. þm. Reykv. sagði að það væri alvanalegt og það væri mjög eðlilegt að það væri ákvæði í lögum sem gæfu ríkisstj. heimild til þess að ráða og grípa inn í hlutina í þýðingarmiklum málum eins og gjaldskrármálum orkufyrirtækja, sem hér er rætt um. Hv. þm. sagði að það væri eðlilegur þáttur í stjórnuninni að hafa heildarstjórn á þessum málum. Þetta er líka alveg rétt. Og hann sagði að almenn ákvæði um þetta væru alveg nauðsynleg. Ég tek líka undir það. Ég er m.ö.o. algjörlega sammála öllum þessum sjónarmiðum sem hv. 9. þm. Reykv. kom með.

En hv. 9. þm. Reykv. ræddi um þetta eins og það þyrfti að gera einhverja breytingu á lögum til þess að svona væri. Ég vék að því áðan að í lögum, í orkulögum, eru almenn ákvæði um þessi efni. Það eru ákvæði. Ég vitnaði m.a.s. í greinar í orkulögunum um þetta efni. Það er 25. gr., sem varðar rafmagnsveitur, og það er 29. gr. sem varðar hitaveitur. Þar er tekið fram að gjaldskrár þessara fyrirtækja verði ríkisstj. að staðfesta. Það er ekki hægt að setja gjaldskrár nema með samþykki ríkisstj. Þetta er í lögum, og það bið ég menn að hafa í huga, þetta er í lögum.

En eins og ég hef áður getið um, um Landsvirkjun voru sérákvæði. Og þess vegna féll Landsvirkjun ekki undir þessi almennu ákvæði orkulaga. En það kom ekki að sök, ef svo mætti komast að orði, meðan verðstöðvunarlögin voru við lýði eins og ég áður greindi frá. En frv. sem lagt var fram í fyrra um þetta efni, samhljóða brbl. sem við nú ræðum, það var fyrst og fremst sett fram til þess að ríkisstj. hefði heimild varðandi gjaldskrárnar þegar Landsvirkjun ætti í hlut. Nú sagði hv. 9. þm. Reykv. áðan að hann vildi ekkert ræða um Landsvirkjun í sambandi við þetta mál og svo var að skilja að það kæmi ekki málinu við. En í grg. með stjfrv., sem hann bar ábyrgð á og lagt var fram á síðasta þingi, kemur það fram að Landsvirkjun er aðalatriðið. Í upphafsorðum grg., sem er nú stutt, er einmitt þetta tekið fram. Með leyfi hæstv. forseta, þar segir:

„Opinber fyrirtæki í landinu eru nú öll háð opinberu eftirliti með verðlagningu á orku nema Landsvirkjun.“ Frv. var ætlað að bæta úr þessu. Og ég geng út frá því að það hafi líka verið ætlun þeirra sem báru ábyrgð á brbl. þá að bæta úr þessu, ef hægt er að nota það orðalag.

En ég benti á það í fyrra og ég benti á það nú hér í minni fyrri ræðu, að samningurinn um sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar byggði á því að það væri óbreytt það ástand sem áður var, að Landsvirkjun lyti ekki hinum almennu ákvæðum um íhlutun ríkisstj. Þetta var skilyrði, eftir því sem mér er tjáð, og ég hygg að ég geti fengið nánari upplýsingar um það, skilyrði fyrir sameiningunni af hálfu Reykjavíkurborgar. Og þetta var eitt af þeim atriðum sem mest voru rædd í þessum samningaviðræðum. Það er því alls ekki rétt að orða það svo, eins og hv. 9. þm. Reykv. gerði, að Landsvirkjun komi þessu máli ekkert við.

Ég vildi nú benda á þetta og ef þetta mál verður lagt fram í hv. iðnn. þá mun ég eiga þess kost að ganga rækilega úr skugga um þessi efni og kannske enn betur en ég hef gert. Ég tel mig hafa fulla ástæðu til að segja það sem ég hef sagt um þetta hér nú á þessum fundi og þetta kom fram hjá okkur í fyrra á þinginu, þessi afstaða Reykjavíkurborgar.

Ég held, með tilliti til þess sem ég nú hef sagt, að menn þurfi ekkert að óttast varðandi almennar heimildir ríkisstj. til afskipta af þessum málum, þó að þessi brbl. verði felld, vegna þess að ríkisstj. hefur eftir sem áður 25. og 29. gr. orkulaga við að styðjast. En þá má spyrja hvort það sé óeðlilegt að fetla þessi brbl. með tilliti til Landsvirkjunar, sem þau áttu fyrst og fremst að varða, eins og ég hef skýrt. En við mat á því finnst mér ekki leika vafi á því að þar þurfi að koma til athugunar hvort ekki þurfi að taka eitthvert tillit til þeirra samninga sem gerðir voru við sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar.

Ég bendi líka á í þessu sambandi, eins og ég hef gert hér áður, að á síðasta þingi bar ríkisstj. fram frv. um ný landsvirkjunarlög. Hv. 9. þm. Reykv. bar ábyrgð á því. Og hvað segir um þetta atriði í hinum nýju lögum? Það segir einmitt það sama sem samið var um. Og það var engin tilviljun að þess var gætt, því að það var samið um það, að í lögum um Landsvirkjun væri það ljóst að Landsvirkjun væri ekki sett undir hin almennu ákvæði í orkulögunum um setningu gjaldskrár.

Þetta vildi ég nú að hér kæmi skýrt fram. Mér finnst að þegar menn ræða þessi mál þá verði menn að hafa þessa forsögu í huga, því að allir viljum við leitast við að komast að réttri niðurstöðu um afgreiðslu þessa máls.