07.03.1984
Efri deild: 58. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3452 í B-deild Alþingistíðinda. (2980)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Út af þessari síðustu spurningu vil ég segja að án þess að ég ætli að fara að efna til mikilla deilna um hvort verið er að skerða kjör manna eður ei verð ég að segja það eins og er að mér finnst að það gleymist oft að við getum ekki við allt ráðið í þessu landi. Olían, gengið og fjármagnskostnaðurinn er eitthvað sem við getum ekki ráðið algjörlega við, því miður. Það eru ekki Íslendingar sem hafa hækkað olíuna umfram allt annað verðlag í heiminum og fjármagnskostnaður hefur á undanförnum áratug hækkað alveg gífurlega atmennt í heiminum. Þetta og það hve við erum raunverulega háðir erlendum viðskiptum og erlendu fjármagni hefur gert okkur mjög erfitt fyrir. Innlendur fjármagnskostnaður hlýtur að einhverju leyti að taka mið af þeim fjármagnskostnaði sem er erlendis. Því að hvernig væri málum fyrir komið ef það væru þá sérstök forréttindi þeirra sem fengju þetta innlenda fjármagn að fá það mun ódýrara en hitt og væri líklegt að einhver mundi vilja spara við slík skilyrði?

Kannske er aðalatriðið í málinu, þegar verið er að tala um skert kjör, að skerðingin er atmennt vegna utanaðkomandi áhrifa og vegna þess hvað gerist í okkar auðlindum. En hér á Alþingi heyrir maður oft að þetta sé eingöngu vegna þess að þessi lög hafi verið sett eða hin ráðstöfunin gerð. Ef svo væri ættu einhvers staðar að safnast upp digrir sjóðir sem væru þá vænlegir fyrir þá, sem eiga að búa hér í framtíðinni, til ráðstöfunar. En það er því miður ekki svo og mætti stundum vera betur í heiðri haft.

En hér var um það spurt með hvaða hætti þetta skerti kjör sjómanna eða skerti ekki kjör sjómanna. Það vita allir sem hér eru að það er greitt til Aflatryggingasjóðs af útflutningsgjaldi. Útflutningsgjald kemur ekki til skipta til sjómanna eða kemur í flestum tilfellum ekki til útgerðar. Hins vegar renna þessar greiðslur til Aflatryggingasjóðs og það hefur verið með þeim hætti að eingöngu þau skip sem lent hafa í sérstökum aflabresti hafa fengið þaðan tekjur. Þetta hefur verið gagnrýnt, t. d. af þeim sem gera út togara, að sáralítið af þessu fé hefur í gegnum tíðina runnið til þeirra. Það er alveg rétt, það hefur í miklum mæli runnið til lítilla báta og í mörgum tilvikum orðið til þess að viðhalda mjög óhagkvæmri útgerð. Það er engin launung á því. Það má vel vera að í sumum tilfellum sé æskilegt að viðhalda slíkri útgerð til þess að halda uppi atvinnu. En til lengdar er ekki gott að stofna til útgerðar með þeim hætti og styrkja hana þannig. Sérstaklega ekki þegar floti okkar er of stór við núverandi aðstæður, þá hljótum við að taka slíkt skipulag til endurskoðunar.

Það sem kemur sjómönnum til góða í þessu sambandi er eingöngu það að þær útgerðir, sem lenda í slíkum erfiðleikum, fá greiðslur frá Aflatryggingasjóði. Þær greiðslur hafa hins vegar engin áhrif á skyldu útgerðarinnar til að greiða þessum sjómönnum kaup. Viðkomandi sjómenn fá ekkert meira kaup vegna þess að það komi greiðslur frá Aflatryggingasjóði.

Hins vegar má segja sem svo, sem er rétt, að atvinnurekandi eða útgerðaraðili, sem fær peninga frá ákveðinni stofnun, hefur frekar bolmagn til að greiða og það hefur verið viss trygging fyrir sjómenn fyrir að fá þessi laun greidd. En það hefur engin áhrif haft á upphæð þessara sömu launa.

Vegna þess held ég því fram að hér sé ekki um skerðingu á launum sjómanna að ræða. En ég tók hins vegar fram að það mætti vera í einhverjum tilvikum að það minnkaði öryggi þeirra fyrir því að fá þessi laun greidd. En þetta öryggi er einnig til í öðrum lögum og ábyrgð útgerðarmanna er sú sama.

Um þetta skal ég ekki della frekar en ég er að vísu ekki sérfræðingur í kjaraskerðingartali. Ég skal taka það fram. Ég hef ekki verið mjög hrifinn af öllu því tali í gegnum árin og hef ekki lagt mig sérstaklega inn í þær orðræður og aðrir eru mér fremri í þeim efnum.

Ég vil aðeins að lokum taka fram að í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir því að allt ríkisframlagið til Aflatryggingasjóðs renni til hagsmunamála sjómanna. Það hefur ekki gert það fram að þessu. Ég tel það eðlilegt og að því leytinu til gerir það það að verkum að hægt verður að standa betur að t. d. fæðisgreiðslum áhafnadeildar. Þó það sé ekki stór upphæð virkar það sem bætt kjör sjómanna.

Ég vil einnig taka fram að vegna þessara erfiðleika allra var ákveðið að minnka það sem færi utan skipta um tvö prósentustig sem eru væntanlega bætt kjör sjómanna. Að vísu var því haldið fram í kjarasamningum að sjómenn hefðu með því fengið 6% hækkun. Ég tel það ekki hafa verið rétta túlkun vegna þess að ég tek undir það að sjómenn hafa orðið fyrir sérstökum aflabresti og það hefur verið rangur samanburður þegar því var haldið fram að sjómenn fengju 6% og því þyrftu aðrir að fá 6%. Því menn gleyma því oft í þessari umr. um kjörin að sjómenn eru fyrst og fremst háðir aflanum sem kemur að landi en ekki prósentuhækkunum í fiskverði. Hins vegar verður fiskverðsbreyting aftur í vor eins og vitað er.

Ég vildi aðeins ítreka það að lokum að ég tel fyrir mitt leyti að ég hafi reynt að hafa, eftir því sem ég hef getað, gott samráð við sjávarútvegsnefndir. Hitt er svo annað mál að við höfum að undanförnu verið að reyna að safna saman öllum þeim umkvörtunum sem inn hafa komið og við töldum ekki rétt og í raun og veru engum til góðs að vera að birta þennan umrædda lista. Þess vegna þykir mér út af fyrir sig leitt að nm. í sjútvn. skuli þurfa að kvarta yfir þessum samskiptum en við skulum þá bara reyna að laga það eftir því sem hægt er. Það er reiðilaust af minni hálfu og ég er tilbúinn hvenær sem er að koma á fund sjútvn. og ég veit ekki til þess að neitt hafi á því staðið.

En ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði að ég taldi það ekki þjóna neinum tilgangi að vera að afhenda þennan lista fyrr en hann væri orðinn réttur. Þetta er nú einu sinni mjög viðkvæmt mál og það er mikið af misskilningi í gangi varðandi þessa kvótaskiptingu. Fjölmiðlar reyna að elta uppi öll erfið dæmi og elta lítið þá sem ánægðir eru — því alltaf eru einhverjir sæmilega ánægðir — en reynt hefur verið í miklum mæli að ala á óánægju í þessum málum eins og hægt er. Þess vegna höfum við talið rétt að bíða með slíka birtingu. En við höfum sem sagt sent þennan lista til þingsins og hann er nú heldur skárri en hann var í Morgunblaðinu en hann er samt ekki nógu góður því ýmsar leiðréttingar eiga eftir að koma þar fram.