07.03.1984
Neðri deild: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3466 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

155. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Land og fólk eru forsenda ríkis. Þjóð sem ekki hefur land getur aldrei myndað ríki. Ísland varð til vegna þess að flóttamenn settust hér að og náðu samkomulagi um vissa yfirstjórn sinna mála.

Ég hygg að í þeirri umr. sem hér fer fram séu það þrjú meginatriði sem menn verða að gera sér grein fyrir. Í fyrsta lagi: Hvaðan komum við? Í annan stað: Hvar erum við? Og í þriðja stað: Hvert stefnum við? Því miður virðist mér að sú umr. sem hér hefur farið fram hafi ekki byggst á því að menn hugleiddu á nokkurn hátt hvaðan þeir kæmu, því síður hvar þeir væru og alls ekki með neinni umhugsun um hvert þeir stefndu. Hér hafa fyrst og fremst verið barðar bumbur undir kjörorðinu að það séu mannréttindi sem séu á dagskrá.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér upp úr mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna til þess að þm. geti sjálfir dæmt eftir eigin samvisku hversu miklir mannréttindamenn þeir eru.

1. gr.: Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.

2. gr.: Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Eigi má heldur gera greinarmun á mönnum fyrir sakir stjórnskiputags lands þeirra eða landsvæðis, þjóðréttarstöðu þess eða lögsögu yfir því, hvort sem landið er sjálfstætt ríki, umráðasvæði, sjálfstjórnarlaust eða á annan hátt háð takmörkunum á fullveldi sínu.

3. gr.: Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.

4. gr.: Engan mann skal hneppa í þrældóm né nauðungarvinnu. Þrælahald og þrælaverslun, hverju nafni sem nefnist, skulu bönnuð.

5. gr.: Enginn maður skal sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

6. gr.: Allir menn skulu, hvar í heimi sem er, eiga kröfu á að vera viðurkenndir aðilar að lögum.

7. gr.:Allir menn skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án manngreinarálits. Ber öllum mönnum réttur til verndar gegn hvers konar misrétti, sem í bága brýtur við yfirlýsingu þessa, svo og gagnvart hvers konar áróðri til þess að skapa slíkt misrétti.

8. gr.: Nú sætir einhver maður meðferð, er brýtur í bága við grundvallarréttindi þau, sem tryggð eru í stjórnarskrá og lögum, og skal hann þá eiga athvarf hjá dómstólum landsins til þess að fá sinn hlut réttan.

9. gr.: Ekki má eftir geðþótta taka menn fasta, hneppa þá í fangelsi eða varðhald né gera útlæga.

10. gr.: Nú leikur vafi á um réttindi þegns og skyldur, eða hann er borinn sökum um glæpsamlegt athæfi, og skal hann þá njóta fulls jafnréttis við aðra menn um réttláta, opinbera rannsókn fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.

11 gr.: Hvern þann mann, sem borinn er sökum fyrir refsivert athæfi, skal telja saklausan, uns sök hans er sönnuð lögfullri sönnun fyrir opinberum dómstóli, enda hafi tryggilega verið búið um vörn sakbornings. Engan skal telja sekan til refsingar, nema verknaður sá eða aðgerðaleysi, sem hann er borinn, varði refsingu að landslögum eða þjóðarétti á þeim tíma, er máli skiptir. Eigi má heldur dæma hann til þyngri refsingar en þeirrar, sem að lögum var leyfð, þegar verknaðurinn var framinn.

12. gr.: Eigi má eftir geðþótta raska heimilisfriði nokkurs manns, hnýsast í einkamál hans eða bréf, vanvirða hann eða spilla mannorði hans. Ber hverjum manni lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.

13. gr.: Frjálsir skulu menn vera ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis. Rétt skal mönnum vera að fara af landi burt, hvort sem er af sínu landi eða öðru, og eiga afturkvæmt til heimalands síns.

14. gr.: Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum. Enginn má þó skírskota til slíkra réttinda, sem lögsóttur er með réttu fyrir ópólitísk afbrot eða atferli, er brýtur í bága við markmið og grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna.

15. gr.: Allir. menn hafa rétt til ríkisfangs. Engan mann má eftir geðþótta svipta ríkisfangi eða rétti til þess að skipta um ríkisfang.

16. gr.: Konum og körlum, sem hafa aldur til þess að lögum, skal heimilt að stofna til hjúskapar og fjölskyldu, án tillits til kynþáttar, þjóðernis eða trúarbragða. Þau skulu njóta jafnréttis um stofnun og slit hjúskapar, svo og í hjónabandinu. Eigi má hjúskap binda, nema bæði hjónaefni samþykki fúsum vilja. Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins, og ber þjóðfélagi og ríki að vernda hana.

17. gr.: Hverjum manni skal heimilt að eiga eignir, einum sér eða í félagi við aðra. Engan má eftir geðþótta svipta eign sinni.

18. gr.: Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í þessu felst frjálsræði til að skipta um trú eða játningu og ennfremur til að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustu og helgihaldi.

19. gr.: Hver maður skal frjáls skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur slíkt frjálsræði í sér réttindi til þess að leita, taka við og dreifa vitneskju og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.

20. gr.: Hverjum manni skal frjálst að eiga þátt í friðsamlegum fundahöldum og félagsskap. Engan mann má neyða til að vera í félagi.

21. gr.: Hverjum manni er heimilt að taka þátt í stjórn lands síns, beinlínis eða með því að kjósa til þess fulltrúa frjálsum kosningum. Hver maður á jafnan rétt til þess að gegna opinberum störfum í landi sínu. Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvgr. viðhöf eða jafngildi hennar að frjálsræði.

22. gr.: Hver þjóðfétagsþegn skal fyrir atbeina hins opinbera eða alþjóðasamtaka og í samræmi við skipulag og efnahag hvers ríkis eiga kröfu á félagslegu öryggi og þeim efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, sem honum eru nauðsynleg til þess að virðing hans og þroski fái notið sín.

23. gr.: Hver maður á rétt á atvinnu að frjálsu vali, á réttlátum og hagkvæmum vinnuskilyrðum og á vernd gegn atvinnuleysi. Hverjum manni ber sama greiðsla fyrir sama verk án manngreinarálits. Allir menn, sem vinnu stunda, skulu bera úr býtum réttlátt og hagstætt endurgjald, er tryggi þeim og fjölskyldum þeirra mannsæm lífskjör. Þeim ber og önnur félagsleg vernd, ef þörf krefur. Hver maður má stofna til stéttarsamtaka og ganga í þau til verndar hagsmunum sínum.

24. gr.: Hverjum manni ber réttur til hvíldar og tómstunda, og telst þar til hæfileg takmörkun vinnutíma og reglubundið orlof að óskertum launum.

25. gr.: Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum, sem skorti valda og hann getur ekki við gert. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, skilgetin sem óskilgetin, skulu njóta sömu félagsverndar.

26. gr.: Hver maður á rétt til menntunar. Skal hún veitt ókeypis, a. m. k. barnafræðsla og undirstöðumenntun. Börn skulu vera skólaskyld. Iðnaðar- og verknám skal öllum standa til boða og æðri menntun vera öllum jafnfrjáls, þeim er hæfileika hafa til að njóta hennar. Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og innræta þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarflokka og að efla starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðarins. Foreldrar skulu fremur öðrum ráða, hverrar menntunar börn þeirra skulu njóta.

27. gr.: Hverjum manni ber réttur til þess að taka frjálsan þátt í menningarlífi þjóðfélagsins, njóta lista, eiga þátt í framförum á sviði vísinda og verða aðnjótandi þeirra gæða, er af þeim leiðir. Hver maður skal njóta lögverndar þeirra hagsmuna í andlegum og efnalegum skilningi, er leiðir af vísindaverki, ritverki eða listaverki, sem hann er höfundur að, hverju nafni sem nefnist.

28. gr.: Hverjum manni ber réttur til þess þjóðfélags og milliþjóðaskipulags, er virði og framkvæmi að fullu mannréttindi þau, sem í yfirlýsingu þessari eru upp talin.

29. gr.: Hver maður hefur skyldur við þjóðfélagið, enda getur það eitt tryggt fullan og frjálsan persónuþroska einstaklingsins. Þjóðfélagsþegnar skulu um réttindi og frjálsræði háðir þeim takmörkunum einum, sem settar eru með lögum í því skyni að tryggja viðurkenningu á og virðingu fyrir frelsi og réttindum annarra og til þess að fullnægja réttlátum kröfum um siðgæði, reglu og velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi. Þessi mannréttindi má aldrei framkvæma svo, að í bága fari við markmið og grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna.

30. gr.: Ekkert atriði þessarar yfirlýsingar má túlka á þann veg, að nokkru ríki, flokki manna eða einstaklingi sé heimilt að aðhafast nokkuð það, er stefni að því að gera að engu nokkur þeirra mannréttinda, sem hér hafa verið upp talin.“

Herra forseti. Hér er mikið af fögrum fyrirheitum og miðað við að formenn fjögurra stjórnmálaflokka í þessu landi hafa sameinast um að bera fram till. hvarflar að manni að e. t. v. væri búið að uppfylla allt sem hér stendur. En það er eins og mig minnir að það séu aðeins örfáir dagar síðan það var deiluefni hér á Alþingi hvort hverjum manni bæri sama greiðsla fyrir sama verk. Ég man ekki betur en það hafi legið við að það yrði brottrekstrarsök úr ráðherrastól að fjmrh. taldi slíkt sjálfsagt og gerði samning þar að lútandi. Þetta er þó ótvírætt í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Er hugsanlegt að við teljum að það atriði eigi að vera undanþegið þegar við erum að tala um mannréttindi í þessu landi?

„Engan mann má neyða til að vera í félagi“, stendur hér. Ég veit ekki betur en sú stéttarlöggjöf sem er í þessu landi hafi neytt mann til að greiða stéttarfélagsgjöld, 1% af dagvinnutekjum, án þess að þeir ættu nokkurt val um hvort þeir vildu greiða þetta gjald og vera í þessu félagi eða ekki. Er hugsanlegt að það sé á allmörgum sviðum sem við virðum ekki þessa samþykkt? Er hugsanlegt að jafnvel í menntuninni, sem er nú kannske mestu réttindi hvers einstaklings, margbrjótum við samþykktina? Er iðnaðar- og verknám öllum opið í þessu landi? Erum við ekki með kerfi í gildi sem tryggir að vissir hópar þjóðfétagsins hafi sérstaklega góða aðstöðu til að vernda sig gegn atvinnuleysi og skammta inngöngu í sínar stéttir? Ég veit ekki betur en svo sé.

Það vantar mikið á að við virðum mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Það fer ekki milli mála. Það sem ég hef hér gagnrýnt er aðeins brot af því sem betur mætti fara í okkar samfélagi.

Ein grein er hér sem víkur að því máli sem hér er á dagskrá. Það er, með leyfi forseta: „Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvgr. viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.“ — Kosningarréttur jafn. Það er þetta sem menn hafa tekist á um hér í orði kveðnu. Það má segja að skattheimta í þessu landi sé á þann hátt jöfn að það gildi sömu lög fyrir alla einstaklinga. Hins vegar eru menn ekki látnir greiða sömu skatta. Það fer eftir því hversu mikið þeir bera úr býtum. Okkur þykir það nokkuð sanngjarnt. Minn kosningarréttur er sá nákvæmlega sami og allra annarra í þessu landi. Ef ég er í Reykjavík og er þar búsettur hef ég sama kosningarrétt og Reykvíkingar. Ef ég flyt mig til Suðurlands hef ég sama kosningarrétt og Sunnlendingar. Ef ég flyt mig til Austfirðinga hef ég sama kosningarrétt og Austfirðingar og ef ég flyt mig til Norðurlands þá hef ég sama kosningarrétt og Norðlendingar. Búsettur á Vestfjörðum hef ég sama kosningarrétt og Vestfirðingar og búsettur á Vesturlandi sama kosningarrétt og Vestlendingar.

Það fer ekki á milli mála að þannig er og ástatt með hvern og einasta þegn hins íslenska ríkis. Það sem þau kosningalög sem hér eru til umræðu fjalla aftur á móti um er að gert er ráð fyrir að þegar kosið hefur verið og búið er að telja atkv. sé athugað jafnræði á milli flokka, eins og það er kallað, og flokkunum úthlutað þm., þ. e. öll atkvæði fara í einn kassa og út úr þeim er talið og þannig er þm. skipt. Þetta þýðir að sjálfsögðu að kosningarréttur er 100% jafn hvar sem er á Íslandi eftir að þessi lög yrðu samþykkt. Það fer ekkert milli mála. Kosningarréttur er einnig jafn skv. þeirri skilgreiningu sem ég gat hér um áðan. Ég vil vekja athygli á því að ef sú skilgreining er röng brýtur hvert einasta ríki Evrópu mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna varðandi þessi atriði. Í Danmörku hefur það verið í gildi að kosningarréttur og ákvörðun um hversu mörg atkv. hvert kjördæmi hefur byggist í fyrsta lagi á íbúafjölda og þar eru börnin talin með, í annan stað á þeim sem hafa kosningarrétt og í þriðja stað er tekið tillit til þess landsvæðis sem þeir búa á. Þar bætast við þær tölur sem áður hafa verið nefndar 20 íbúar á hvern ferkílómetra, sem var hugsað af Dönum til mótvægis gegn þeirri miðstýringu og því miðstýringarvaldi sem óneitanlega fylgir þeirri þjóðfélagsgerð sem við búum í.

Það er dálítið skoplegt þegar Bandalag jafnaðarmanna talar um að miðstýringin sé nánast einkamál annarra stjórnmálaflokka á sama tíma og þeir, eitt íslenskra stjórnmálaafla, stilltu upp fyrir öll kjördæmi Íslands á einum stað undir einni stjórn. Það var 100% miðstýring, en þeir gera engu að síður grín að hinum, sem miðstýrðu þó ekki meira en svo að það var stillt upp í hverju kjördæmi.

Ég ætla næst að víkja að því hvaðan við komum. Ég gat þess í upphafi máls míns að flóttamenn hefðu myndað hér ríki, fyrst og fremst norskir flóttamenn. Það ríki var ríki goðanna. Það er rétt að víkja hér örlítið að því í stuttu máli hvað Alfræði Menningarsjóðs, Íslandssagan, segir um goðana:

„Goðorð voru ásamt þingum aðalstofnanir íslenska samfélagsins á þjóðveldisöld. Um 930 skiptist landið í 36 goðorð, full goðorð og færu, sem kallað var, en við fjórðungaskiptinguna um 965 var þremur goðorðum bætt við í Norðlendingafjórðungi. Fyrir hverju goðorði réð goði, en það var opinber titill æðstu höfðingja Íslendinga af leikmannastétt fram að lögtöku Járnsíðu 1271. Mun heitið goði dregið af orðinu goð, þ. e. guð, og standa rótum í hinni fornu trú, að höfðingjar væru goðbornir og stæðu undir sérstakri vernd guðanna. Fátt er þó öruggt um upphaf goðvalds og goðaskipunar, en talið, að það megi einkum rekja til forstöðu goða fyrir blótum í heiðnum sið, ásatrú, og e. t. v. hofseignar, þótt engar óyggjandi heimildir hafi varðveist um það, að ásatrúarmenn hafi nokkurs staðar reist guðum sínum stórhýsi eða hof, auk þess má án efa rekja goðavald til ættgöfgi, fylgdarliðs og auðæfa höfðingja. Samband milli ásatrúar og stjórnskipunar hefur verið mjög laust í böndunum á fyrsta skeiði þjóðveldis, enda breyttist staða goða í samfélaginu lítt við kristnitöku árið 1000.

Goðar voru fullvalda, enginn yfir þá settur og allir jafnir að lögum, ættar- og héraðshöfðingjar, sem fóru með löggjafarvald á Alþingi, sátu á miðpalli lögréttu og höfðu einir atkvæðisrétt, höfðu dómsvald á Alþingi og vorþingum, voru þrjú goðorð í þingi, nefndu menn í dóma, en dæmdu ekki sjálfir, og fóru með framkvæmdarvald ásamt sakaraðilum. Goðorð var dómsögn, réttareining þjóðveldisins og skattfrjáls einkaeign goða, meðan hann rækti skyldur sínar að lögum. („Veldi er það, en eigi fé“, segir í tíundarlögum.) Goðorð urðu opinberar stofnanir eftir að Alþingi hófst á Þingvöllum og voru arfgeng og gengu kaupum og sölum er tímar liðu, og menn gátu þegið þau að gjöf, enn fremur fyrirgert þeim með embættisafglöpum. Tveir eða fleiri gátu átt goðorð saman og skiptu meðför þess eftir eignarhlutföllum sínum, goðorð skiptist við arfaskipti.

Bændum var skylt að fylgja einhverjum goða, en í upphafi var þeim frjálst, hvaða goða þeir sýndu trúnað og hlytu vernd hjá. Goðorð voru því ekki ákveðnar landfræðilegar heildir, heldur persónusamband goða og skjólstæðinga hans eða fylgismanna, er nefndust þingmenn hans, og var bundið gagnkvæmum samningi (eins konar handfestur í samræmi við lénsskipulag Evrópu á miðöldum). Heimilisfólk hafði sömu þingfesti, var í sama goðorði og húsbóndi og búðsetumenn sömu og landeigandi. Aðalskylda þingmanns var að fytgja goða til þings og málsókna, en virðing hans fór mikið eftir þingfylgi. Til þings gátu goðar kvatt níunda hvern bónda, sem þingfararkaupi átti að gegna, en kvöddu stundum fleiri til í stórdeildum.

Goða var falin lögvernd einstaklinga innan goðorðsins; var hann skyldur að verja skjólstæðing gegn yfirgangi, að öðrum kosti gátu þingmenn hans yfirgefið hann og leitað fulltingis annars goða. Var goði skyldur að varðveita frið í héraði, annast löggæslu, reka brott eða taka af lífi ófriðarseggi og skógarmenn.

Í upphafi þjóðveldis kölluðust goðorð mannaforráð, veldi, en síðar ríki, og felst í því þróunarsaga frá lítt stéttgreindu þjóðveldi til ríkisvalds. Þegar landeigendastétt hafði eflst að tollum, tíundum og landskuldum á 12.–13. öld urðu goðorð (mannaforráðin) að ríkjum, þar sem goðar ríktu og bændur urðu skattþegnar þeirra, og gagnkvæmt trúnaðarsamband goða og þingmanns breyttist í einhliða drottinvald stórhöfðingja yfir eiðsvörðum þegnum; goðorð urðu að landfræðilegum heildum og goðar að smáfurstum, sem leituðu ríkisvaldi sínu styrks hjá norska konungsvaldinu á 13. öld. Þegar á 11. öld tóku valdahlutföll að raskast og einstaklingar ná undir sig fleiri en einu goðorði. Guðmundur ríki Eyjólfsson á Möðruvöllum í Eyjafirði mun fyrstur manna fara með tvö goðorð, en Haukdælir eignuðust öll goðorð í Árnesþingi í lok 11. aldar. Við lok þjóðveldis áttu fimm ættir, Ásbirningar, Haukdælir, Oddverjar, Sturlungar og Svínfellingar, öll goðorð landsins og afhentu þau smám saman í hendur Noregskonungs 1251–1264, og lauk því endanlega með Gamla sáttmála.

Goðorð og vorþing lögðust fljótlega af eftir lögtöku Járnsíðu 1271 og voru sameinuð í staðfræðilega takmörkuð stjórnsýsluumdæmi, sem greindust í sýslur er stundir liðu fram; fullvalda goðar hurfu úr sögunni, en í stað þeirra komu konungs- og síðar hirðskipaðir sýslumenn, fulltrúar erlends valds í hinum nýju umdæmum.“

Það fer ekki milli mála að þegar konungur hafði brotið Gamla sáttmála bar honum skv. þeim samningum sem hann hafði gert að skila aftur goðorðunum til þegnanna, og það merkilega við goðorðin var m. a. að þau grundvölluðust á hinum fornu fjórðungum.

Ég vil leyfa mér að víkja hér að grein eftir Gunnar Karlsson, sem nefnist „Goðar og bændur“, þar sem hann vitnar í Jón Jóhannesson, og vil lesa á bls. 21 í þessari bók, sem heitir „Saga“, með leyfi forseta:

„Jón Jóhannesson lýsir í Íslendingasögu sinni ákvæðum Grágásar um þingfesti bænda og segir síðan: „Samband goða og þingmanna hans, þeirra er voru bændur eða landeigendur, var því algjörlega frjálst persónusamband, og gátu þingmenn eins goða búið innan um þingmenn annarra goða. Goðorðin voru því ekki staðarlega afmörkuð að lögum nema við fjórðungamót. Þó hefur eitthvert aðhald verið í hofunum, en ekki er nauðsynlegt að gera ráð fyrir, að hofssóknir hafi verið staðarlega takmarkaðar fremur en vorþingssóknir.“

Það fer ekki á milli mála, að goðorðin voru afmörkuð við fjórðungamót. Það þýddi að hið forna samkomulag hljóðaði upp á samkomulag hinna fornu fjórðunga.

Ég tel mig hér hafa rakið fram að þeim tíma er Íslendingar glötuðu frelsi sínu, sem þeir eignuðust aftur vegna þess samnings sem nefndur hefur verið Gamli sáttmáli. Konungar höfðu brotið þann sáttmála og af þeirri ástæðu var hægt að sækja það með orðum að þeim bæri að skila okkur aftur frelsi. Það hlýtur að vera rökrétt að gera ráð fyrir að þeim hafi borið að skila aftur frelsi hinna fornu fjórðunga, enda varð hver fjórðungur fyrir sig að sverja konungi hollustu á sínum tíma. Það samkomulag hinna fornu fjórðunga hlýtur því að hafa verið í gildi þegar við fáum stjórnarskrá 1874.

Það er athyglisvert ef við skoðum lög um kosningar til Alþingis sem eru frá 1877. Þessi lög eru nr. 16 14. september 1877. Ég hef heimildir úr Handbók Alþingis Stjórnarlög Íslands, nokkur þau helstu, gefin út að tilhlutan skrifstofu Alþingis, Reykjavík, Prentsmiðjan Gutenberg, 1920. Þar segir svo, með leyfi forseta, í 18. gr. um skiptingu kjördæma, sem enn tekur í grundvallaratriðum mið af hinum fornu goðorðum og hinum fornu fjórðungum:

„Sérhver sýsla á landinu skal vera eitt kjördæmi, að undanteknum Skaftafells- og Þingeyjarsýslum, sem hvorri um sig skal skipt í tvö sérstök kjördæmi, með þeim takmörkum, sem hingað til hafa verið. Kaupstaðurinn Reykjavík, með því nágrenni, sem heyrir undir lögsagnarumdæmi bæjarins, skal vera kjördæmi út af fyrir sig.

Tölu hinna þjóðkjörnu alþingismanna, sem ákveðin er í stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands, 5. janúar 1874, 14. gr., skal skipt niður á þann hátt, að tveir alþm. séu kosnir í sérhverju af kjördæmum þeim, sem hér skulu talin: Gullbringu- og Kjósarsýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Ísafjarðarsýslu ásamt Ísafjarðarkaupstað, Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu, Eyjafjarðarsýslu ásamt Akureyrarkaupstað, Norður-Múlasýslu og Suður-Múlasýslu, en í hverju hinna kjördæmanna, sem eru hin tvö kjördæmi í Skaftafells- og Þingeyjarsýslum, hvorri um sig, Vestmannaeyjasýsla, Reykjavíkurkaupstaður, Borgarfjarðarsýsla, Mýrasýsla, Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla, Dalasýsla, Barðastrandarsýsla og Strandasýsla, skal kjósa einn alþm.

Breytingar verða á þessum lögum og ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér upp þær breytingar sem gerðar eru 1903:

„Ef frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands, 5. janúar 1874, er eykur tölu hinna þjóðkjörnu alþm. upp í 34, verður að lögum og Alþingi verður haldið, eftir að lögin hafa öðlast gildi, áður en ný kjördæmaskipun er komin á, skulu hinir fjóru nýju alþm. kosnir þannig: Einn af Reykjavíkurkaupstað, einn af Ísafjarðarkaupstað, einn af Akureyrarkaupstað og einn af Seyðisfjarðarkaupstað.“

Enn er það svo að það er einn þm. sem bætist við, hver og einn úr umdæmum hinna fornu fjórðunga. Jafnvægið helst. Við könnumst við þróunina nokkuð vei eftir þetta að smátt og smátt höfum við verið að gera breytingar þar sem grundvöllurinn, samkomulagið forna milli fjórðunganna, er rofinn. Og nú er svo komið að við erum komin að vatnaskilum. Við erum komin að þeim vatnaskilum að það er ekki lengur spurning um hvort einn af hinum fornu fjórðungum skuli hafa aukinn rétt á við þann næsta. Við erum komnir að þeim vatnaskilum að einn fjórðungurinn, Sunnlendingafjórðungur, mun fá meirihlutavald á Alþingi, verði þær breytingar gerðar sem hér er verið að leggja til. Það þýðir í reynd að samkomulagið forna er endanlega fallið og einum fjórðungnum er falið drottnunarvald yfir hinum öllum, ef hann stendur saman. Það er þessi spurning sem er lögð fyrir alþm. og þá verður hver og einn að gera sér grein fyrir því hvort hann er fulltrúi ákveðins svæðis þessa lands í þeirri ákvörðunartöku sem hér er til umr.

Ég vil, með leyfi forseta, vekja athygli á vissu atriði í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna: „Þjóðfélagsþegnar skulu um réttindi og frjálsræði háðir þeim takmörkunum einum, sem settar eru með lögum í því skyni að tryggja viðurkenningu á og virðingu fyrir frelsi og réttindum annarra.“

Það er þetta með frelsi og réttindi annarra sem allmargir úr hinum dreifðu byggðum eru mjög svo efins um að verði virt gagnvart þeim því eins og að málum er staðið liggur ljóst fyrir að einn af hinum fornu fjórðungum fær meirihlutavald og þar með drottnunarvald yfir hinum öllum. Og við spyrjum okkur að því gjarnan: Verður það þá virðingin fyrir réttindum þeirra landsvæða, Austfirðingafjórðungs, Norðlendingafjórðungs og Vestfirðingafjórðungs, sem þeir hafa í heiðri? Mér sýnist að hin mikla miðstýring sem á sér stað í þessu landi sanni okkur allt annað. Við vorum t. d. fyrir stuttu að samþykkja lög varðandi fiskveiðar við landið. Þau fela ráðh. mikið vald. Hann afhendir aðilum þetta vald til úrvinnslu og eitt af því sem þeir komast að er að Patreksfjörður skuli ekki lengur tilheyra Vestfjörðum þegar skipt er fiskimiðum eða rétti til fiskimiða við landið.

Spurningin hlýtur að vera þessi. Er rökrétt að Sunnlendingafjórðungur hinn forni skuli fá vald til að drottna yfir öllum hinum fjórðungunum, taka ákvarðanir um hvort Vopnfirðingar fari á sjó eða ekki? Hér þýðir ekki að gera sér grein fyrir öðru en því að menn eru komnir á krossgötur. Hver og einn sem afhendir þann rétt sem honum var falið að gæta á þann veg hefur endanlega afgreitt það mál og það verður ekki aftur tekið.

Ég hygg að það sé ákaflega hollt hjá mönnum að lesa frásögnina í Íslandsklukkunni þegar Jón Hreggviðsson er leiddur um götur kóngsins Kaupmannahafnar og kynntur fyrir stórhýsunum sem þar blöstu við. Þá var hann alltaf hræddur um það í leiðinni hvaðan sá auður kæmi sem hefði byggt þessar hallir, þessi hús. Einn hafði haft verslun á Bátsenda, annar hafði haft verslun á öðrum stöðum, en það var sameiginlegt að stórhýsin tengdust Íslandi og þeim umsvifum sem danskir menn höfðu haft hér.

Ég var spurður að því af vestfirskum bónda hverju þyrfti að breyta í þessari frásögn Íslandsklukkunnar ef skipt væri um borg og Reykjavík höfð í staðinn fyrir kóngsins Kaupmannahöfn. Hverju þyrfti að breyta ef við löbbuðum um þessa borg og bentum á stórhýsin, hvort sem við færum inn í Sundahöfn og bentum á Holtagarða, hvort sem við skoðuðum eignir Eimskips eða annarra stórra fyrirtækja með langa sögu? Spurningin er: Hverju þurfti að breyta? Er það e. t. v. niðurstaðan af því frelsi sem við fengum að nýlendustefnan frá Danmörku, sem lagðist undir lok hafi leitt til þess að hið mikla miðstýrða vald á Íslandi hafi haldið áfram nýlendustefnu frá höfuðborg landsins, sópað gulli frá hinum dreifðu byggðum og sett það hér í fasteignir til uppbyggingar? Var þá ekki til lítils barist? Hvað skyldi það hafa fært mikinn auð til þessa svæðis að gengisskráningin hefur löngum verið röng í þessu landi? Allir kannast við að Seðlabankinn hefur á seinni árum haft sjálfdæmi um hversu marga íslenska pappírsseðla hann léti fyrir þá dollara sem hann fengi. Og hvenær hefur verið skipt á sanngirnisgrundvelli? Hefur síldarauður Austurlands og Norðurlands orðið til að byggja upp á þeim svæðum eða var hann fluttur burtu?

Ég hygg að í þeirri stöðu sem við erum í nú — spurningin er hvar við stöndum — hljótum við að gera upp við okkur hvort það miðstýrða þjóðfélag sem við höfum búið við hefur fært okkur þann jöfnuð í þessu landi sem við höfum vonast eftir að það færði okkur. Mitt svar er nei, skilyrðislaust nei. Það fer ekki á milli mála að þegar ömtin voru brotin niður hrundi taflstaða Norðurlands gagnvart þessu svæði, þá hrundi taflstaða Norðurlands eins og spilaborg. Þeir sem telja að við eigum aðeins að byggja vissan hluta landsins, þetta svæði, hafa að sjálfsögðu engar áhyggjur af því hvort þessi þróun heldur áfram eða ekki. Það eru aðeins hinir, sem trúa því enn að því aðeins höldum við sjálfstæði í þessu landi í framtíðinni að við höldum áfram að byggja landið allt, sem brjóta heilann um hvort það verði til góðs, hvort að það sé til farsældar fyrir íslenska þjóð, og þá á ég við svæðin fyrir utan Sunnlendingafjórðung hinn forna, að Sunnlendingafjórðungur fái meirihlutavald á Íslandi. Mér finnst alveg sjálfsagt og algjört réttlætismál að ef Sunnlendingafjórðungur hinn forni vill sjálfstæði, vill ekki una því að tilheyra hinum hlutum landsins, fái hann það sjálfstæði ef hann sækist eftir því. En mér finnst jafnfráleitt að fulltrúar hinna fjórðunganna á Alþingi afhendi það vald sem þeim er trúað fyrir á þann hátt sem hér er verið að leggja til og ég er sannfærður um annað. Sagan mun aldrei fyrirgefa það.

Ég hygg að ekki dyljist nokkrum manni að áður en innlend stjórn tók við í þessu landi dreifðist fólkið um land allt eftir því eðlilega lögmáli hvar í landinu var möguleiki að halda lífi, hvar var hægt að fá brauð til að lifa af. Það voru náttúrugæði landsins sem réðu því hvernig fólkið dreifðist. Ekkert annað, engin miðstýring eða neitt slíkt, réði því, aðeins náttúrugæði landsins. Hver mundi trúa því í dag að Ísafjörður hafi einu sinni verið næststærsti kaupstaður þessa lands? Hver mundi trúa því í dag að þaðan, af svæði Vestfjarða, hafi komið krafan um að byggja fyrsta bændaskóla landsins, byggja fyrsta stýrimannaskóla landsins, að fyrsta bókasafn Íslands hafi verið í Flatey? Þetta eru þó staðreyndir. En miðstýringarvaldið tryggði að stýrimannaskólinn skyldi vera í Reykjavík og miðstýringarvaldið flutti einnig bændaskólana úr stað. Og það sama miðstýringarvald heldur áfram að draga hlutina til sín. Þess vegna þurfti að ræða kosningar og stjórnskipunina samhliða öðrum atriðum stjórnarskrárinnar, þannig að menn gætu nú sest niður við að tryggja það sjálfstæði héraðanna sem er nauðsyn gegn þessari miðstýringu.

Það var mikil ógæfa formanns Framsfl. að virða ekki varnaðarorð flokksþings framsóknarmanna þar sem varað var við því að rjúfa stjórnarskrármálið, taka kosningalögin ekki út úr, heldur afgreiða stjórnarskrána sem heild. En það hefur áður gerst að menn hafa ekki virt varnaðarorð og það hafa gjarnan verið kappar miklir sem hafa ekki virt varnaðarorð. „Ég sigli ei skýin, ég sigli sjó, svaraði kappinn og hló.“ — Hver kannast ekki við þetta? En það var engin frægðarsigling yfir Breiðafjörðinn í það sinn og það hefði verið betra að hlusta á þann skipstjóra sem ráðlagði að hlaða á annan veg skútuna sem þá lagði á stað úr Skor. Það var engin frægðarsigling. Og það er spurning hvort það gæfuleysi að kljúfa þetta mál, ganga til samkomulags eins og hér hefur verið gert, á ekki eftir að hafa alvarlegri afleiðingar en menn hafa til þessa hugsað út í.

Spurt er: Hvert stefnum við? Ég vil halda áfram og taka fyrir þriðja liðinn í því sem ég hef hér gert að umtalsefni.(Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) E,g er búinn með ca. 2/3. (Forseti: Þá held ég að það verði að gera hlé á þessari umr. um sinn. Henni.verður haldið þá áfram á næsta fundi, ef hv. þm. vill verða við þeim tilmælum.) Að sjálfsögðu, forseti, verð ég við þeim tilmælum.