07.03.1984
Neðri deild: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3475 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

83. mál, lögræðislög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Frv. það til lögræðislaga á þskj. 88, sem liggur hér fyrir hv. deild, var lagt fyrir Alþingi á s. l. vetri. Það kom til l. umr. undir janúarlok, en fékk ekki meiri umfjöllun á því þingi að öðru leyti en því, að nefnd sú sem fékk það til meðferðar leitaði umsagna um málið. Komu svör frá lagadeild Háskólans. Enn fremur hafa nú, eftir að frv. hefur verið útbýtt, borist ábendingar frá félaginu Geðhjálp um breytingar á frv. Erindi þessi fékk nefnd í Ed. til meðferðar, en sá ekki ástæðu til að breyta því og kemur það nú óbreytt frá Ed. hingað til Nd.

Þetta frv. var samið af nefnd sem falið var að endurskoða gildandi lögræðislög. Nefndin var skipuð undir árslok 1980. Sérstök áhersla mun hafa verið lögð á að teknar yrðu til endurskoðunar lagareglur um vistun manna á sjúkrahúsi án samþykkis þeirra. Mun ábending um þörf á frekari athugun á þessum lagaákvæðum hafa komið frá þeim dómstóli sem mest fjallar um slík málefni, þ. e. Sakadómi Reykjavíkur, og enn fremur frá þeim læknum sem flesta slíka sjúklinga fá til meðferðar, þ. e. læknum geðsjúkrahúsa ríkisins.

Nefnd þeirri sem frv. samdi var falið að endurskoða lögræðislögin í heild, eftir því sem hún teldi ástæðu til. Nefndin fór lítið út fyrir það svið sem sérstaklega var tilefni endurskoðunarinnar og kann því síðar að verða tilefni til að öðrum efnum verði gerð skil. Má þar nefna reglur um fjárforráð ómyndugra, en það efni mun þarfnast umfangsmikillar könnunar.

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að máli þessu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.