08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3483 í B-deild Alþingistíðinda. (3004)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fjmrh. hefur gert þinginu grein fyrir stöðu ríkissjóðs og mun ég ekki fara orðum um það. Mér þykir hins vegar rétt að tengja þetta nokkuð almennum upplýsingum um peningamálin því að þar er vitanlega um einn stærsta liðinn í ríkisfjármáladæminu að ræða.

Við höfum óumdeilanlega náð mjög miklum árangri í viðureigninni við verðbólguna. Hún er nú um 10% á ársgrundvelli og þrátt fyrir þá launasamninga sem hafa verið gerðir telur Þjóðhagsstofnun að verðbólga frá áramótum til áramóta verði um 12–14% og verðbólguhraði í lok ársins um 10–11%.

Í peningamálum blasa hins vegar við vissar hættur. Útlánaaukning bankanna í janúar og febrúar er 33.3% eða töluvert meiri en verðbólga er nú. Bendir það augljóslega til nokkurrar þenslu og meiri þenslu en æskilegt er ef takast á að halda þensluáhrifum niðri, eins og mikilvægt er til að treysta þann árangur sem hefur náðst.

Ríkissjóðsdæmið er að sjálfsögðu stór liður í þessu og hefur staðan gagnvart Seðlabanka af þeim sökum versnað töluvert. Skuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana við Seðlabankann jukust í janúar og febrúar um 857 millj. kr. Gjaldeyrisstaðan hefur versnað um 1340 millj. kr., fyrst og fremst vegna yfirdráttar í Seðlabanka.

Mér þykir rétt að þessar upplýsingar komi hér fram þótt í stuttu máli sé og vil með þeim leggja ríka áherslu á þá skoðun mína og ríkisstj. að í viðureigninni við verðbólguna sé þenslan í peningamálum stærsti vandinn sem við eigum við að stríða nú og verður að ná tökum á. Þar er ríkissjóðsdæmið stærst og mun fjmrh. að sjálfsögðu, eins og hann hefur hér lýst, gera till. til ríkisstj. og Alþingis um hvernig jafnvægi verður náð í ríkissjóði.

Mér þykir jafnframt rétt, af því að ég er staðinn hér upp, að geta þess að ríkisstj. ákvað á fundi sínum s. l. þriðjudag að skipa embættismenn í að útfæra þá tilfærslu innan fjárlaga sem ákveðin var og samþykkt í tengslum við samninga VSÍ og ASÍ. Mun ríkissjóður þannig að fullu standa við þær samþykktir sem þá voru gerðar þótt samningar hafi ekki verið samþykktir af öllum stéttarfélögum. Þetta mál er reyndar það langt komið að það sem að tryggingum snýr er tilbúið til framkvæmda og mun heilbr.- og trmrh. gera grein fyrir því á eftir.