08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3483 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ríkisstj. þykir rétt að gera í upphafi grein fyrir því hvað hún hyggst gera í sambandi við bætur almannatrygginga.

Í fyrsta lagi verður gefin út reglugerð um hækkun bóta almannatrygginga, á hinum almenna lífeyri, skv. 79. gr. laga um almannatryggingar. Hér er um að ræða bótahækkanir almenna lífeyrisins, að þær hækki um 7% frá 1. mars 1984.

Í öðru lagi er um að ræða útgáfu reglugerðar um ráðstöfunarfé vistmanna á dvalarstofnunum aldraðra.

Sú reglugerð er sett með stoð í 26. gr. laga um málefni aldraðra nr. 91 frá 1982. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð frá því á s. l. ári. Í þeirri reglugerð sem gefa á út er gert ráð fyrir að ráðstöfunarfé aldraðra, sem vistaðir eru á dvalarheimilum aldraðra og engar tekjur hafa aðrar en lífeyri almannatrygginga, hækki þannig að mánaðarupphæð sú sem í gildi er í marsmánuði hækki og verði 1989 kr. á mánuði. Ráðstöfunarfé aldraðra, sem vistaðir eru á hjúkrunarheimilum og hjúkrunardeildum fyrir aldraða og engar tekur hafa aðrar en lífeyri almannatrygginga, hækka þannig að mánaðarupphæð sú sem í gildi er í marsmánuði 1984 verður 1750 kr.

Allar aðrar bætur munu hækka í samræmi við frv. sem ríkisstj. mun leggja fyrir Alþingi á næstu dögum. Þar er kveðið svo á um að árlegur barnalífeyrir með hverju barni skuli vera 24 180 kr., árleg mæðralaun skuli vera með einu barni 15 156 kr., með tveimur börnum 39 708 kr. og með þremur börnum eða fleiri 70 428 kr.

Ef aðrar tekjur elli- og örorkulífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga fara ekki fram úr 29 084 kr. á ári skal greiða uppbót á lífeyri hans að upphæð 56 736 kr. á ári. Hafi bótaþegi hins vegar tekjur umfram 29 084 kr. á ári skal skerða uppbótina um 45% þeirra tekna sem umfram eru. Sama gildir um hjónalífeyri eftir því sem við á. Til tekna teljast ekki í þessu sambandi vextir, verðbætur eða gengishagnaður sem frádráttarbær er frá tekjum við ákvörðun tekjuskattsstofns.

Einhleypingi, sem nýtur óskertrar uppbótar eða tekjutryggingar skv. 1. mgr. þessa frv. og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, skal að auki greiða í heimilisuppbót 1422 kr. á mánuði. Eigi hann rétt á skertri tekjutryggingu lækkar heimilisuppbótin í sama hlutfalli.

Þessi ákvæði eru öll þau sömu og eru í gildandi lögum.

Ég hygg að það sé rétt, til þess að þingheimur átti sig á þessum breytingum, að skýra frá því að elli- og örorkulífeyrir er 3157 kr. á mánuði og hækkar skv. þessu um 7% eða í 3378, en tekjutryggingin, sem er 3861 kr. á mánuði, mun ein og sér hækka um 22.5% eða í 4728 kr. á mánuði. Þetta þýðir að sá sem hefur óskerta tekjutryggingu og ellilífeyri eða örorkulífeyri hefur núna 7018 kr., en eftir þessa breytingu mundi það hækka í 8106 kr. eða að meðaltali um 15.5%.

Ef við lítum á þann kostnað sem þessar breytingar hafa í för með sér er talið að breytingin á hinum almenna lífeyri, 7% breytingin, valdi á ári um 134 millj. kostnaðarauka, en á þessu ári eða frá og með 1. mars yrði sú hækkun 112 millj. Í öðru lagi næmi sérstök hækkun tekjutryggingar um 110 millj. á ári, en miðað við 1. mars mun hún nema um 92 millj. kr. Breyting á skerðingarákvæði er áætluð kosta 11–22 millj. Sérstök hækkun barnalífeyris, mæðralauna, heimilisuppbótar og vasapeninga næmi á heilu ári 77 millj., en miðað við 1. mars 64 millj. Skv. þessu er áætlað að þessar auknu bótagreiðslur muni kosta á ári 343 millj., en miðað við 10 mánuði á bilinu frá 279–290 millj. kr.

Rétt er að geta þess að í því samkomulagi sem ríkisstj. gerði við aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og VSÍ, um tillögur um úrbætur fyrir hina verst settu var ekki reiknað með hækkun á hinum almenna lífeyri svo að það samkomulag er fyrir utan þessa upphæð. Hins vegar er rétt og skylt að geta þess að í því samkomulagi var gert ráð fyrir að aðrar bætur væru framkvæmdar með tilfærslu innan fjárlaga og þar yrði reynt að ná samstöðu um þá tilfærslu. Ætla ég ekki að fara frekar út í það því að hæstv. fjmrh. hefur lýst því ítarlega. Hins vegar fannst mér rétt og lagði til í ríkisstj. að heildarhækkun allra bóta lægi ljós fyrir, hverjar tillögurnar væru, hvort sem það væri í formi þeirra tveggja reglugerða sem ég gat um í upphafi eða í formi þess frv. sem ríkisstj. hyggst leggja fyrir.