08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3489 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Öllum þm. mun vera ljóst að það eru engin ný tíðindi fólgin í þeim tölum sem hæstv. fjmrh. hefur gert að umtalsefni í dag. Þetta var allt saman vitað meira og minna og að langmestu leyti fyrir jól, þegar fjárlög voru til afgreiðslu, eins og reyndar hefur verið staðfest af embættismönnum í ríkiskerfinu. Það sem eru tíðindi í sambandi við þessar umr. er hins vegar að með umr. hefur ríkisstj. staðfest að hún sé búin að missa kjarkinn. Hún trúir ekki lengur á tölurnar sem hún barðist fyrir fyrir jól. Hún trúir ekki lengur á þær ákvarðanir sem teknar voru við fjárlagaafgreiðsluna fyrir jól. Hún vill ekki standa við þær. Þá voru afgreidd fjárlög. Þá var ákveðið að skera niður á ýmsum þáttum. Þá var ákveðið að fjárlög 1984 væru sérlega góð og þau voru talin einstaklega raunhæf. Þessi umr. er fyrst og fremst til marks um að ráðh. treystir sér ekki lengur til að standa við þau fjárlög sem hann og ríkisstjórnarflokkarnir stóðu að afgreiðslu á fyrir jól. Fjárlagaramminn er brostinn og efnahagsstefnan er hrunin. Raunveruleikinn blasir við. Þetta er það sem eru tíðindi í sambandi við umr. núna.

Ég held að þessi umr. sé líka til marks um að hæstv. fjmrh. vilji vísa þessu máli af sér, hann sé ekki einungis búinn að missa trúna á fjárlögin heldur líka trúna á að samstarfsmenn hans standi með sér í því að halda utan um fjárlögin með þeim hætti sem hann hefði óskað. Hann vill ekki axla ábyrgðina af því að sitja uppi með þessi fjárlög. Hann er að vísa málinu á félaga sína í ríkisstj. Þetta er áreiðanlega sannleikur málsins í þessu sambandi.

Sannleikurinn er líka sá, að í ríkisstj. vísar hver á annan einn ganginn enn: fjmrh. vísar á ríkisstj., ríkisstj. vísar á fjmrh., fjmrh. vísar á stjórnarflokkana og þannig gengur þetta koll af kolli. Í þessu sambandi er hafið enn eitt yfirlýsingastríðið og það rignir enn marklausum yfirlýsingum yfir þjóðina. Því miður er svo komið að það er jafnvel orðið minna að marka yfirlýsingar hæstv. fjmrh. en hæstv. forsrh. og er þá nokkuð langt til jafnað. En vel að merkja: þjóðin hefir ekki á marklausum yfirlýsingum og hún er búin að fá meira en nóg af þeim.

Um þá stöðu sem nú er uppi vil ég segja að það er áreiðanlega einn meginþátturinn í því að komast út úr þeirri stöðu að menn séu tilbúnir að gera ýmsar kerfisbreytingar. Það er enn einu sinni ljóst og enn einu sinni hafa menn rekið sig á að slíkar kerfisbreytingar ná ekki fram að ganga, a. m. k. ekki þegar Framsfl. er í ríkisstj. eða framsóknarmenn í öðrum flokkum. Þá reka menn sig á vegg og sitja uppi með óbreytt kerfi.

Ég get nefnt sem dæmi að á fjárlögum einum eru 1.5 milljarðar kr. sem eiga að fara í landbúnaðardæmið. Þetta er bundið af úreltum ákvæðum. Menn eru meira að segja að tala um það núna að þær ákvarðanir sem menn tóku um að sporna við varðandi útflutningsbæturnar skuli nú hrynja og reikna það inn í dæmið hjá sér.

Það var annars athyglisvert að hæstv. ráðh. hafði engar tillögur fram að færa um hvernig ætti að ráða fram úr þeim vanda sem nú er við að glíma. Ég held að nauðsynlegt sé að menn setji sér raunhæf markmið um hvernig eigi að bregðast við þessum vanda, sem reyndar hefur verið þekktur frá því fyrir jól. Það er skoðun okkar Alþfl.-manna að við því verði að bregðast með fjölþættum hætti. Þó að hæstv. ráðh. hafi ekkert til málanna að leggja skal ég segja þá skoðun okkar að við teljum að það verði að mæta þessu að 1/s a. m. k. með sparnaði, að hluta til með auknum tekjum og menn verði þá jafnvel að sætta sig við að færa seinasta þriðjunginn af þessum vanda á milli ára.

Að því er sparnaðinn varðar ættu menn fyrst að setja sér að efna það sem að var stefnt um sparnað en renna nú ekki á rassinn. Við skulum setjast niður og skoða bæði framkvæmda- og rekstrarliði að nýju og leita sparnaðar hvarvetna þar sem það er mögulegt. Við skulum gera þær kerfisbreytingar sem eru nauðsynlegar til að ná raunverulegum árangri í stað þess að vísa þessu af okkur. Og við skulum taka á útflutningsbótaþættinum, sem alltaf hefur skriðið úr höndum manna, og þar er um stórar fjárhæðir að ræða.

Að því er tekjuhliðina varðar er nú unnið að endurskoðun á tekjuáætlun. Þar skyldi þó ekki leynast einhver matarholan. Og menn ættu í annan stað að láta ógert að framkvæma þá lækkun á sköttum á fyrirtækjum sem fyrirhuguð er og er inni í þessum vanda. Almenningur í þessu landi er búinn að taka á sig byrðar, en fyrirtækin hafa sloppið. Ég get einmitt nefnt verslunina í þessu sambandi. Hæstv. fjmrh. hefur kvartað undan því að verslunin hafi ekki efnt það að lækka vöruverðið á sama tíma og vextir og tilkostnaður hafi lækkað. En á ekki verstunin þá líka að leggja sitt af mörkum í því dæmi sem við stöndum hér frammi fyrir? Þar gæti líka verið matarhola, hæstv. fjmrh.

Sannleikurinn er nefnilega sá, að ekki er hægt að ætlast til þess að launafólkið í landinu taki á sig þrengingarnar ef ríkissjóður ætlar að lifa um efni fram. Og það dugar ekkert að gera þetta sérstaklega að umræðuefni hér og tilkynna þegar þekktar tölur, en láta svo málið renna út í sandinn og hafa engar tillögur fram að færa. Nú þarf einmitt að taka á þessu máli. Það er sjálfsagt og eðlilegt að Alþingi taki fjárlögin upp að nýju og þau komi hér að nýju til umfjöllunar úr því að það stendur ekki steinn yfir steini í þeim. Við Alþfl.menn teljum það sjálfsagt og eðlilegt og erum reiðubúnir að leggja okkar af mörkum til þess að afgreidd verði hér ný fjárlög.

Ég hef hér, herra forseti, gert nokkur atriði að umtalsefni í þessu sambandi og ég hef gert grein fyrir þeirri meginstefnu sem Alþfl. hefur að því er varðar úrlausn þessa máls, en það má ekki standa öllu lengur á ríkisstj. að koma með sínar tillögur. Á henni hvílir nefnilega mesta ábyrgðin í þessum efnum.