08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3492 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um skýrslu fjmrh. um ríkisfjármálin 1983. Sú skýrsla hefur tæpast komið á óvart eftir stormasamt ár í fjármálum og stjórnmálum þjóðarinnar og ég sé enga ástæðu til að blanda mér í deilur um hver eigi sökina á því gati. Það hlýtur að skrifast á reikning beggja ríkisstjórna sem fóru með völd á því ári.

En það er stóra gatið. Óneitanlega er þessi uppákoma svolítið einkennileg. Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs var ítrekað minnt á markmið ríkisstj. um raunhæf fjárlög og var ekki annað að heyra en fjmrh. og formaður fjvn. og aðrir þm. stjórnarflokkanna tryðu að þetta markmið hefði náðst. Fjárlögin voru afgreidd með um 375 millj. kr. halla og voru margir sæmilega sáttir við það, höfðu orð um að í rauninni væri hér ekki verr að staðið en undanfarin ár, raunar betur jafnvel, nú væri hallinn viðurkenndur og sýndur svart á hvítu. Sá væri munur á vinnubrögðum að hér væri ekki verið að fela neitt. Og samt er nú, nokkrum vikum síðar, sagt, að hallinn sé kominn úr 375 millj. upp í 1.4–2 milljarða. Kannske segja menn það alveg satt að þeir hafi ekki vísvitandi verið að fela neitt þegar fjárlögin voru afgreidd. En a. m. k. virðist ýmislegt hafa gleymst og ýmislegt verið misreiknað, að ekki sé nú minnst á vandamálin sem menn neituðu algerlega að horfast í augu við.

Kannske er barnalegt og svolítið billegt að segja: Þetta sagði ég. En sú er nú samt raunin, að þetta sagði ég og þetta sögðum við þm. stjórnarandstöðunnar. Það er t. d. ljóst núna að 300 millj., sem ákveðið var strax á miðju síðasta ári að spara í heitbrigðis- og tryggingakerfinu, eru enn að þvælast fyrir mönnum. Góðu heilli virðist hafa tekist að koma í veg fyrir sjúklingaskattinn illræmda, sem átti að brúa það bil, en önnur ráð liggja ekki enn á borðinu. Og vandinn hefur vaxið. Nú vantar okkur 650 millj. í heilbrigðis- og tryggingakerfið skv. niðurstöðum þeirra vísu manna sem fjmrh. lætur reikna fyrir sig. Kannske hafa þeir fengið nýjar tölvur í jólagjöf.

Þá var einnig fullkomlega ljóst við afgreiðslu fjárlaga að hlutur Lánasjóðs ísl. námsmanna var of lítill. Eftir að ég ítrekað en árangurslaust minnti á málefni Lánasjóðsins í fjvn. freistuðum við fulltrúar Kvennalistans þess að fá samþykkta brtt. á þingfundi um aukið framlag til sjóðsins. Till. okkar um 100 millj. kr. aukið framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna var felld við 2. umr. Við 3. umr. reyndum við enn að fá þingheim til að hækka framlag ríkisins um 50 millj. en þm. stjórnarflokkanna felldu það. Nú, rúmum tveim mánuðum síðar, er allt í einu viðurkennt að framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna hafi verið vanáætlað um 100 millj. kr., sem ég tel raunar of lága tölu, eins og ég færði rök fyrir þegar ég mætti fyrir brtt. okkar Kvennalistakvenna. Hvers vegna er sá vandi viðurkenndur nú en ekki þá? Er verið að undirbúa jarðveginn fyrir aðför að Lánasjóðnum? Það setur óneitanlega að manni kvíða við lestur frétta um tillögur til að draga úr lánveitingum til námsmanna. En ég ætla ekki að fara frekar út í það mál núna. Til þess gefst tækifæri í umr. um fsp. til menntmrh. um þessi mál sem lögð er fram hér í dag. Hins vegar hlýt ég að spyrja fjmrh. að því hvernig á því standi að þessar 100 millj. eru allt í einu núna orðnar hluti af hallanum á ríkissjóði. Hvers vegna voru þær það ekki fyrir áramót? Þetta er tiltölulega einfalt reikningsdæmi og þurfti ekki einu sinni tölvu til.

Þá er erfitt að trúa því að menn hafi ekki vitað um hin og þessi lán sem væru að falla á ríkisábyrgðasjóð eða að ríkið þyrfti að greiða fyrir smíði skipsins sem það gefur til Grænhöfðaeyja. Var nú líklegt að Slippfélagið á Akureyri ætlaði að gefa það, taka það ómak á sig? Og margsinnis var búið að benda á að engin von væri til þess að áætlanir um lánsfjáröflun innanlands stæðust. Þannig var allt þetta stóra gat í raun og veru til staðar þegar við afgreiðslu fjárlaga í des. og þeir sem mest fjalla um fjármál ríkisins gerðu sér áreiðanlega fulla grein fyrir því, eins og sjá má af ummælum hagsýslustjóra og fleiri f fjölmiðlum þessa dagana. En hallinn er staðreynd hvort sem hann verður 1 eða 2 milljarðar eða einhver önnur tala að lokum. Og hvernig á að mæta honum? Um það spurði fjmrh. hér áðan og höfðaði til ábyrgðar allra þm. Varla er við því að búast að við, sem tilheyrum stjórnarandstöðunni, eigum einhverjar töfraformúlur uppi í erminni þegar þeir sem mest fjalla um málin og gerst þekkja til og bestan aðgang hafa að öllum upplýsingum virðast ekki vita sitt rjúkandi ráð. Tillögur Kvennalistans eru þær sömu og við umr. um fjárlagafrv. fyrir áramót. Við lýstum andstöðu okkar við það að eyða fé í óarðbærar framkvæmdir eins og flugstöðina á Keflavíkurflugvelli og við höfum bent á að útflutningsuppbæturnar þyrfti að endurskoða. Þá erum við sannfærðar um að spara mætti stórfé í yfirstjórn ráðuneyta og ríkisstofnana. Þá hef ég aldrei skilið það heldur hvers vegna Seðlabanka eigi að greiða stórfúlgur í yfirdráttarvexti vegna vandamála ríkissjóðs. Einnig virðist augljóst að nú beri að hætta við hugmyndir um aukin skattfríðindi til þeirra sem vilja fjárfesta í fyrirtækjum. Væri nær að snúa sér nú alvarlega að því að leita að skattsvikurum sem að margra áliti sleppa við skattgreiðslur sem nema milljónum, sumir segja milljörðum.

En hvers vegna er verið að þyrla upp þessu moldviðri núna? „Ég held að fólk hljóti að meta þessa hreinskilni, annað skil ég ekki,“ er haft eftir fjmrh. í einu blaðanna í dag. Eins og hér hefur verið bent á hefur í rauninni lítið nýtt komið til. Gatið var á sínum stað fyrir áramót. Hvers vegna ætti fólk að meta hreinskilni um þessi mál frekar nú en við afgreiðslu fjármála í des.? Hver er hinn raunverulegi tilgangur með þessari skýringu?