08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3494 í B-deild Alþingistíðinda. (3010)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns víkja nokkuð að ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar sem hann hélt hér áðan við þessa umr. Hann sagði að fjárlagafrv. í meðförum fjárveitinganefndar og Alþingis hefði hækkað um ríflega 840 millj. kr., sem væri methækkun um mörg undangengin ár, eða rúm 9%. Hv. þm. veit sjálfsagt allra manna best í þessum þingsal að hér er um sjónhverfingar að ræða. Þarna er nánast um það að ræða að í fjárlagafrv. voru ekki teknar lántökur til vegagerðar og hlutu því niðurstöðutölur fjárlaga að hækka um 480 millj. kr. af þeim bókhaldsástæðum einum. Ég verð að segja að ég hélt satt að segja af kynnum mínum af hv. þm. Geir Gunnarssyni að hann mundi ekki fara í slíkar talnablekkingaumr. öðruvísi en þá að skýra hreinskilnislega frá af hverju þessi tala er fengin. Sem sagt 480 millj. kr. af þessu eru hreint bókhaldsatriði.

Annað bókhaldsatriði kemur til. Nú í fjárlögum í ár eru tekjur alþjóðaflugmálastofnunarinnar færðar teknamegin en ekki dregnar frá gjöldum eins og áður hefur verið. Þar kemur annað bókhaldsatriði til. Ég sagði hér við 3. umr. fjári. að þær brtt. sem fjvn. hefur flutt við 2. og 3. umr. þessa frv. næmu einungis u. þ. b. 330 millj. kr. eða innan við 2% af útgjöldum fjárlagafrv. Þá er undanskilin till. um lækkun á útgjöldum vegna forsendubreytinga, ekki ætla ég að fara í blekkingartalnaleik með það, og einnig till. um tilfærslu vegna þess að tekjur frá Alþjóðaflugmálastofnuninni eru nú færðar teknamegin skv. brtt. frá meiri hluta fjvn. og útgjöld á móti, hjá Pósti og síma, Flugmálastjórn og Veðurstofunni. Það liggur sem sagt ljóst fyrir að í meðförum þingsins hækkaði fjárlagafrv. raunverulega um 330 millj. kr. en ekki 840 millj. kr. eins og aðaltalsmaður hv. stjórnarandstöðu hefur haldið fram hér og verð ég að játa að slíkur málflutningur kemur mér mjög á óvart.

Þá sagði hv. þm.hæstv. fjmrh. hefði sett á fót nefnd undir forustu ríkisendurskoðanda til þess að stýra rannsókn á fjári. Ég vil aðeins í sambandi við þetta mál — búið er að ræða þessa nefndarskipun hér áður — upplýsa að þessi nefnd var sett á laggir og hóf störf löngu áður en fjárlög voru afgreidd. Um það var rætt að þessi nefnd héldi áfram þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í það að sjá til botns í ríkisfjármálunum eftir þá óreiðu sem þau hafa verið í undanfarið. Hún tók þess vegna til starfa fyrr en fjárlög voru afgreidd og hún hélt áfram þeirri vinnu sem þar hafði farið fram á vegum fjmrn. og fjvn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málflutning hv. þm. Geirs Gunnarssonar en ég mun kannske koma óbeint inn á hann á eftir í þessum orðum mínum.

Í einu dagblaðanna eru þau ummæli höfð eftir hv. þm. Ragnari Arnalds, hæstv. fyrrverandi fjmrh., orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Það sem kemur fyrst og fremst á óvart er að ríkisstjórnin viðurkenni nú aðeins tveimur mánuðum eftir fjárlagaafgreiðslu hvernig ástatt er.“ (RA: Meira. Án þess að nokkrar hugmyndir liggi fyrir um hvernig bregðast skuli við.) Ég vil aðeins segja hv. þm. frá því að það kemur mér alls ekkert á óvart að þessi vinnubrögð komi honum á óvart, í ljósi þess hvernig hann stóð að málum hér fyrr á tíð. Ég hélt því fram við fjárlagaafgreiðslu ársins 1983, sem talsmaður stjórnarandstöðunnar þá, að þá skorti eitt þúsund millj. króna á að endar næðu saman í fjárlögum ársins og það væri fyrir séð þegar þau voru afgreidd á Alþingi. Það var ekki einungis vegna þess að um það væri að ræða að reiknitala fjárl. var augljóslega úr lausu lofti gripin, verðlagsforsendur algjörlega í lausu lofti, heldur líka vegna þess að það var algjörlega ljóst að margir liðir voru stórlega vanáætlaðir ef ekki var ætlunin að draga úr umsvifum í ríkiskerfinu. En ríkisstj. lagði mjög mikla áherslu á það þá að ekki væri ætlunin að draga úr samneyslu og framkvæmdum.

Ég skal nefna nokkur dæmi um hvernig að þessari fjárlagaafgreiðslu var staðið. Í fjárl., eins og þau voru afgr. 1983, voru áætlaðar nánast sömu upphæðir til útgjalda að krónutölu eins og útgjöld urðu á árinu 1982. Ég skal nefna þrjú dæmi um rekstur aðalskrifstofu þriggja rn. Heilbr.- og trmrn. átti að fá í sinn hlut á fjári. 1983 7 millj. 135 þús. kr. Það kostaði að reka þetta rn. hv. þm. Svavars Gestssonar á árinu 1982 7 millj. 414 þús. kr. Það kostaði meira á árinu 1982 að reka rn. hv. þm. Svavars Gestssonar en átti að eyða til þess skv. fjárl. 1983. Slík voru nú vinnubrögðin. (SvG: Það var mjög vel með farið fé.) Síðan get ég upplýst hv. þm. um að eins var ástatt um félmrn. Hann eyddi sjálfur á árinu 1982 rúmum 5 millj. kr. en hann átti að fá rétt rúmar 5 millj. kr. á árinu 1983 til þess að gera hið sama. Allir vita nú hvernig verðlag fór hækkandi á þessum tíma. Sama var að segja um rn. hv. þm. Ragnars Arnalds, sem þá var hæstv. fjmrh. Hann átti að fá til þess að reka sitt rn. árið 1983 svo til sömu fjárhæð og rekstur þess kostaði í krónutölu 1982.

Þetta eru nú aðeins örfá dæmi um það hvernig staðið var að fjárlagaafgreiðslu ársins 1983 og það er einnig dæmi um hvernig staðið hefur verið að fjárlagaafgreiðslu undanfarin ár.

En nú skulum við fara örfáum orðum um það hvernig afkoma ríkissjóðs var á árinu 1983 og bera hana saman við fjárlagaáætlun. Hæstv. ráðh. hefur að sjálfsögðu gert grein fyrir þessu hér en ég vil draga athygli manna að örfáum punktum. Í fyrsta lagi fóru útgjöld fram úr, eins og hann nefndi, um 3300 millj. kr. eða 25%. Aukafjárveitingar voru veittar upp á 25% af fjárlögum. Hvar liggur í rauninni fjárveitingavaldið þegar svo er staðið að málum? Hv. Alþingi fær ekki þessar niðurstöður ríkisreiknings fyrir árið 1983 til umfjöllunar, og þar með aukafjárlög fyrr en kannske einhvern tímann síðar meir á þessu ári. Þá er Alþingi að fjalla um ákvarðanir sem hafa verið teknar 25% fram úr fjárlögum á árinu í fyrra. Ég spyr: Hvar er í rauninni fjárveitingavaldið þegar svo er komið?

Önnur rekstrargjöld fyrir árið 1983 urðu hjá öllum ríkisstofnunum 1640 millj. kr. Hvað skyldi hafa verið áætlað fyrir þessu? Það voru aðeins áætlaðar 940 millj. 700 millj. fór þessi liður fram úr áætlun sem er 75%. Þetta er langt fram úr þeim verðlagsforsendum sem voru á milli þessara ára. Nefna má eitt dæmi af því að ég hef í þessum umr. undanfarið bent á það hvað lyfjakostnaður hefur hækkað mikið hjá ríkinu og hann er vanáætlaður í fjárl. eins og komið hefur fram. Benda má á að á milli áranna 1982 og 1983 hækkuðu greiðslur ríkissjóðs vegna lyfjakostnaðar um 158% og þessi liður var stórkostlega vanáætlaður í fjárlögum ársins 1983.

Fjórða atriðið, sem ég vil hér nefna vegna afkomu ársins 1983 og fjárlaga fyrir það ár, er að rekstur embætta sýslumanna og bæjarfógeta fór yfir 100% fram úr fjárlögum árið 1983 í raun. En það eru einmitt þessir tveir liðir, sem ég vil koma að síðast, sem hafa valdið mönnum nokkrum vonbrigðum, hvernig útkoman var þegar farið var ofan í saumana á þeim dæmum. En það er í rauninni ekkert sérstakt við það að fjárlög hafi ekki staðist áætlun á árinu 1983. Ég er hérna með upplýsingar um það að ríkisreikningur fór 28.8% fram úr fjárlögum árið 1982. Undanfarin ár hafa útgjöld ríkissjóðs farið langt fram úr áætlun. Sum árin hefur tekist að ná endum saman vegna mikilla tekna ríkissjóðs. Þetta hefur best tekist þegar stærsta gatið hefur verið í þjóðarbúskap Íslendinga, þegar þjóðarbúskapur Íslendinga hefur verið rekinn með sem mestum halla, eyðslan sem mest, eins og á árinu 1980 og 1981. Þá hefur tekist að ná endum saman þrátt fyrir alla þessa umframeyðslu. En á árinu 1983 tókst þetta ekki eins og menn vita.

Ég vil gjarnan taka undir það með vini mínum og samþingsmanni Geir Gunnarssyni „Dag skal að kveldi lofa, mey að morgni og fjárlög að ári“, en ég hefði ekki tekið mér þessi orð í hans munn vitandi hvernig staðið hefur verið að fjárlagaafgreiðslu undanfarin ár í hans tíð.

Fyrst og fremst var ætlunin að komast út úr þessu feni vanáætlana og aukafjárveitingaflóðs. Fyrst og fremst var ætlunin að gera það með fjárlagaafgreiðslunni fyrir árið 1984. Stefnt var að því að áætla þá liði sem raunhæfast sem ekki var tekin bein ákvörðun um að skera niður. Ég geri mér vonir um að á flestum sviðum hafi þetta tekist nokkurn veginn. Það er því algjörlega út í loftið þegar menn eru að segja hér að fjárlög fyrir árið 1984 séu markleysa. É,g bíð rólegur eftir því að að þessu leyti skuli fjárlög lofa að ári. Ég er algerlega viss um að fjárlagaáætlun fyrir langflesta þætti ríkisbúskaparins er miklu raunhæfari en hún hefur verið um langt skeið.

Auðvitað var meginmarkmiðið með því að stefna að þessu að færa aftur fjárveitingavaldið til Alþingis og það er það sem hæstv. ráðh. er að gera hér. Hann er að gera Alþingi grein fyrir þessum vanda sem samt sem áður verður við að glíma.

Þá vil ég aðeins fjalla í nokkru um það margumrædda gat, sem menn hafa verið að gera hér að umtalsefni, og hvað hafi legið fyrir við fjárlagaafgreiðsluna og hvað ekki. Við fjárlagaafgreiðslu lá fyrir og það var tekið fram í bak og fyrir að þetta markmið næðist ekki að fullu að þessu sinni nema til kæmu sérstakar aðgerðir. Bent var á að aðgerðir þyrfti til að færa verkefni til sveitarfélaga. Ýmsir þættir fjárlaga voru að þessu leyti óraunhæfir vegna þess að ætlunin var að taka þetta upp í viðræðum við sveitarfélögin. Gert var ráð fyrir því að sparnaður næðist í heilbrigðiskerfinu, eins og margoft hefur verið tekið fram, um þessar 300 millj. kr., að fjárlagaupphæðin nægði vegna útgjalda Lánasjóðs ísi. námsmanna og að fjárlagaupphæðin nægði vegna útflutningsbóta á landbúnaðarvörum. Allt þetta var skýrt tekið fram og fjárlagaafgreiðslan hvíldi á þessum forsendum. Þar komu líka til ýmsir minni liðir, eins og endurmat þyrfti á rekstri grunnskóla, tónlistarfræðslu, rekstri Skipaútgerðar ríkisins, Námsgagnastofnunar o. s. frv. Allt var þetta tíundað nákvæmlega og kom raunar fram alveg strax í fjárlagafrv. samtals nema þessir liðir, sem lágu fyrir við fjárlagaafgreiðsluna, um 650–700 millj. kr. af því margfræga gati sem menn eru að tala um. Fyrir lágu upplýsingar um þetta. Fyrir lá að fjárlagaafgreiðslan byggðist á þessu. Þessir liðir nema 650–700 millj. kr.

En það var ekki síst vegna þess einmitt að það var vitað mál að ekki var um það að ræða að þessir liðir væru eins raunhæfir og menn vildu vera láta og stefndu að að ég sagði hér við 3. umr. fjárl., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá vil ég ekki síst leggja á það áherslu við þessa fjárlagaafgreiðslu að fjárlög fyrir árið 1984 ber að skoða sem áfanga. Þau eru áfangi í því að draga saman seglin í ríkiskerfinu, minnka ríkisumsvifin. Þau eru áfangi í uppstokkun á ríkisbúskapnum öllum og þau eru ekki síst áfangi á þeirri leið að breyta og endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins. Öllu þessu starfi verður að halda áfram eins og ég ræddi um við 2. umr.

Þetta eru, með leyfi forseta, óbreytt orð sem ég viðhafði hér við þessa umr. Það lá því alveg ljóst fyrir að við litum á þessa fjárlagaafgreiðslu sem áfanga að þessu marki en ekki sem einhverja fullkomna áætlanagerð eins og hér hefur verið ýjað að að við höfum haldið fram.

Í framhaldi af þessu vil ég taka fram að það eru einkum tveir stórir liðir, sem tala má um að ekki hafi verið séð fyrir endann á við fjárlagaafgreiðsluna og ekki legið upplýsingar fyrir um, en það er kostnaður við rekstur embætta sýslumanna og bæjarfógeta svo og framlög til sjúkratrygginga. Nú er áætlað að óbreyttu að það kosti 300–350 millj. kr. meira að reka sjúkratryggingakerfið en gert er ráð fyrir í fjárlögum og er þá gert ráð fyrir því að margumræddur 300 millj. kr. sparnaður nái fram. Ég vek athygli þingheims á því að þessi niðurstaða er miklu mun minni munur á áætlun á rekstri þessa mikilvæga þáttar tryggingakerfisins en ég veit til að nokkurn tíma hafi átt sér stað milli fjárlaga og raunveruleikans og ég vona satt að segja að ekki sé þarna um að ræða óraunsæja tölu, þessar 300–350 millj. kr.

Ég skal gera þennan þátt að nokkru umtalsefni. Lyfjakostnaður er áætlaður í fjárlögum núna 480 millj.. kr. Þar er um að ræða 100% hærri fjárhæð en í fjárlögum 1983, en nú er þessi fjárhæð ekki talin nema 460 millj. heldur 580 millj. skv. nýjustu tölum Tryggingastofnunar ríkisins. Ég sagði áðan að þessi kostnaður hefði hækkað milli áranna 1982 og 1983 um 158%. Áætlunin í fjárlögum var miðuð við rauntölur 1982 og fyrstu mánuði ársins 1983. Ef ekki væri um einhverja breytingu að ræða frá þeim tíma ætti fjárlagatalan að standast. Ég held að hér sé á ferðinni mjög alvarlegt mál, miklu alvarlegra en þetta fjárlagagat sem menn eru að fjargviðrast um að þessu leyti. Ég held að margt bendi til þess að neysla lyfja á Íslandi aukist ár frá ári alveg gífurlega og mér er til efs að nokkurn tíma hafi verið áætlað raunhæft fyrir því hvaða kostnaður lenti á ríkissjóði af þeim sökum, hvorki fyrr né síðar.

Annar þáttur sjúkratryggingakerfisins, sem segja má að gangi nokkuð sjálfala og sé í rauninni sjálfvirkt kerfi, er kerfi daggjalda sjúkrahúsa. Mér er tjáð að ef finnist einhvers staðar pláss fyrir kannske 10 sjúkrarúm í þessu sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun, 5 í þessari stofnun o. s. frv., og sjúkrarúm séu þar sett inn og sjúklingar teknir inn á þá stofnun sé reikningurinn einfaldlega sendur til ríkisins og enginn viti í raun hverju þessi reikningur fyrir daggjaldaþjónustu á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum geti numið hverju sinni. Þess vegna getum við alveg eins verið að ræða um einhverja aðra tölu en talið er vera vanáætlað í þessu margfræga gati að þessu leyti. Þetta er um þennan þátt og það verður að játast að það kemur á óvart að hann sé nú talinn vanáætlaður um 350 millj. kr., þ. e. til sjúkratryggingakerfisins. Auðvitað gæti þetta verið einhver önnur tala. Af sjálfu leiðir af því sem ég hef sagt hér um það hvernig stofnað er til útgjalda í þessum efnum.

Annar þátturinn sem ekki kom upp á yfirborðið við fjárlagaafgreiðslu og skiptir meginmáli, var kostnaður við rekstur embætta sýslumanna og bæjarfógeta. Þarna er ekki um nýja bólu að ræða eins og menn vita sem hafa komið nálægt ríkisfjármálunum. Tíðkast hefur undanfarin ár, ekki bara í tíð fyrrv. ríkisstj. heldur að ég held í tíð miklu fleiri ríkisstj., að fjárlagaáætlun hefur kannske í rauninni verið út í bláinn eða kannske ekkert verið út í bláinn vegna rekstursumsvifa þessara embætta. Embættismenn lögreglunnar t. d. hafa þá sérstöðu að þeir eru jafnframt flestir innheimtumenn ríkissjóðs og þeir greiða þann kostnað sem verður af rekstri embættanna og senda síðan ríkissjóði afganginn af sínu innheimtufé. Hugmyndin var að breyta þessu kerfi. Það er búið að vera hugmyndin lengi, það var hugmynd í fjmrh.-tíð hv. þm. Ragnars Arnalds að breyta þessu, það varð ekki af því. En það var hugmyndin a. m. k. að fitja upp á því að breyta þessu á þessu ári í samráði við dómsmrn. og þessi embætti, að þessi embætti skili sínu innheimtufé og fái síðan greiðslur af fjárlögum eins og aðrir aðilar í þjóðfélaginu. Ég sé að hv. þm. hrista höfuðið en þetta hefur nú bara tíðkast í gegnum tíðina og undir forustu þeirra ágætu þm. sem hrista hvað ákafast höfuðin. En það var meiningin að breyta þessu, koma því kerfi á og áætla til þess 60 millj. kr. En það reyndist bara ekki vera nóg þegar farið var ofan í þetta dæmi. Þá var talið að til þessa þyrfti 210 millj. kr. en ekki 60. Þarna er sem sagt vanáætlun um 150 millj. (GHelg: Má spyrja í hverju þessi kostnaður liggur?) Hann liggur fyrst og fremst í rekstri þessara embætta og löggæslu í landinu.

Þarna er ekki um að ræða eitt eða annað sem er óheiðarlegt eða þar fram eftir götunum, menn mega ekki skilja orð mín þannig. Hér er einfaldlega um það að ræða að ekki er sami háttur á stjórn ríkisfjármálanna í þessu eins og á öðrum sviðum. Aðrar stofnanir fá greiddar frá ríkinu þær fjárveitingar sem það kostar að reka viðkomandi stofnun. Ef þær eru að einhverju leyti með innheimt fé er það talið fram sem sértekjur þeirra o. s. frv. en þessar stofnanir hafa, embætti sýslumanna og bæjarfógeta algjöra sérstöðu að því leyti að þær innheimta stórfé, eins og menn vita, af tekjum ríkissjóðs.

Ef við drögum það saman, sem ég hef sagt hér um það hvað hafi verið uppi á yfirborðinu og hvað ekki þegar fjárlagaafgreiðslan fór fram af þessu margfræga gati, þá hef ég sagt hér að skýrt hefur verið frá liðum sem eru í þessu upp á 650–700 millj. kr. og fjárlagaafgreiðslan hafi sumpart byggst á því. Sérstök vandamál komu upp sem ekki lágu fyrir, þessir tveir liðir sem ég hef hér talað um áðan, sjúkratryggingarnar og embætti sýslumanna og bæjarfógeta, þar er um að ræða liði upp á 500 millj. kr. Um það vil ég segja að ég fullyrði að þessar upplýsingar lágu ekki frammi við fjárlagaafgreiðsluna.

Annað sem hér hefur komið upp á er eins ástatt um. Það eru ýmist ákvarðanir ríkisstj. eða ýmsir liðir sem ekki var vitað um við fjárlagaafgreiðsluna. Þar er t. d. um það að ræða að verðjöfnunarsjóður, loðnudeild verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er látinn taka lán árið 1981, á því metaflaári, til að ná saman fiskverði. Þetta lán þarf að borga eins og önnur lán. Það fellur í gjalddaga á þessu ári og það er tekið á ábyrgð ríkissjóðs. Það er reiknað með því í þessu dæmi. Þó að alls ekkert sé víst að þetta komi á ríkissjóð er reiknað með því í þessu gati. Þetta er fjárhæð upp á 129 millj. kr.

Það verður að segjast alveg eins og er að þessi tilhneiging til að leita slíkra bráðabirgðaúrlausna, láta ríkissjóð hlaupa óbeint undir bagga þegar þessar bráðabirgðalausnir eru til umræðu og ákvörðunar, en ganga ekki hreint til verks og segja bara strax: Þetta verður skrifað á ríkissjóð, hefur áreiðanlega orðið til þess að upplýsingar um að þetta lán félli allt saman í gjalddaga á þessu ári, mundi sennilega falla á ríkissjóð, lágu bara alls ekki fyrir við fjárlagaafgreiðsluna. Ég gæti nefnt fleiri slík dæmi sem hefur verið gert ráð fyrir í þessum vanda sem við öll erum að ræða nú.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri. En ég vil þó aðeins ræða í örstuttu máli hvernig ástatt var í ríkisfjármálunum þegar núv. ríkisstj. tók við ef það kynni að varpa nokkru ljósi á að ekki er einfalt mál að gera sér grein fyrir þeirri flækju sem búið var að koma þeim málum í. Ég vitna hér í minnispunkta sem ég skráði niður á fundi með valinkunnum embættismönnum 23. maí 1983. Þar kom fram að að öllu óbreyttu, skattstofnum og útgjaldaáformum, yrði 1300 millj. kr. halli á ríkissjóði á árinu 1983. Þar kom fram að skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann höfðu aukist frá áramótum um 1100 millj. kr. En menn höfðu áhyggjur af eftirtöldum lausum endum í ríkisfjármálunum:

1) 230 millj. kr. vegna vegagerðar. Þar af 120 millj. kr. vegna bifreiðaskatts sem ekki var lagður á, auk þess sem bensíngjald fyrir kosningar var ekki hækkað eins og ráð var gert fyrir í vegáætlun.

2) 50 millj. kr. til þess að halda óbreyttu niðurgreiðslustigi á rafmagni til húshitunar.

3) 216 millj. kr. fjárvötnun vegna niðurgreiðslna á landbúnaðarvörum.

4) 67 millj. kr. lyfjaskuld ríkisspítala við Lyfjaverslun ríkisins.

5) 136 millj. kr. sem áætlað var að afla af innlendu lánsfé til A-hluta en væntanlega muni ekki nást.

6) Afkoma ýmissa ríkisfyrirtækja var svo slæm að þau skulduðu ríkissjóði vegna launagreiðslna 30–50 millj. kr.

7) Ríkissjóður hafði tekið lán vegna Olíusjóðs fiskiskipa sem áætluð voru um 300 millj. kr. en upp í það var sjóðurinn talinn eiga 100 millj. kr. Nú er mér tjáð að að einhverju leyti hafi þessi skuld greiðst af útflutningsgjöldum en á ríkissjóð hafi fallið 42 millj. kr. vegna Olíusjóðs fiskiskipa.

Vaxtabyrði ríkissjóðs, sem var aðeins 80 millj. í fjárlögum, var áætluð á þessum tímapunkti 280 millj. Þá hafði verið nýlega gefin út reglugerð um greiðslu á tannviðgerðakostnaði, sem sumir töldu að kosta mundi ríkissjóð hundruð milljónir króna, en ráðh. taldi að kostaði 20 millj. Þessi reglugerð var afnumin síðar.

Þetta eru nokkrir punktar um þá flækju sem fyrir lá. Auk þessara punkta hefði átt að vera einhver minnispunktur um þetta lán loðnudeildar verðjöfnunarsjóðsins o. s. frv. en það var ekki einu sinni uppi á yfirborðinu þá. Svo vel var þetta falið að menn tíunduðu þetta ekki á þessum tíma.

Embættismennirnir sögðu þá aðspurðir að þeir væru dauðhræddir um að þetta væri vanáætlun, „undiraldan væri svo mikil í kerfinu“, hef ég skrifað hér í gæsalöppum. Þeir bentu á að á árinu 1982 hefðu verið veittar aukafjárveitingar yfir 1000 millj. kr. á sama tíma sem hefði verið reynt að skera niður 100 millj. kr. og því voru þeir ekki bjartsýnir á að það tækist að leysa þennan vanda, sem þeir töldu blasa við, með niðurskurði.

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. En ég vil þó vitna í atriði sem ég lagði mjög þunga áherslu á við fjárlagaafgreiðsluna og sem varpar ljósi á það vandamál sem við stöndum frammi fyrir og mér finnst að menn ræði af helst til of lítilli alvöru. Ég ræddi þar um erfiðleika sem steðjuðu að okkur í þessu þjóðfélagi — ég benti hér á ummæli hæstv. fyrrv. fjmrh. um kreppulægðina 1982 sem hann taldi hafa dunið yfir okkur — en ég sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Auðvitað setja þessir gríðarlegu erfiðleikar og alvarlegu horfur mark sitt á þá fjárlagaafgreiðslu sem Alþingi er nú að leggja síðustu hönd á. Ég ræddi um það við 2. umr. að ef við tækjum jafnmikil erlend lán á næsta ári og jafnstóra hluta af þjóðartekjum í skatta eins og gert var árið 1982 hefðum við 5–6 milljörðum kr. meira fé til ráðstöfunar skv. fjárlögum og lánsfjárlögum heldur en nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga. Hér er ég að tala um fast verðlag, það verðlag sem við reiknum með í þessari fjárlagaafgreiðslu.“

Ég held að ekki verði lögð á það nógu þung áhersla að það sem í raun er að gerast í okkar ríkisfjármálum er einfaldlega það að þegar menn hætta umframeyðslu og ætla sér að láta minnkandi þjóðartekjur nægja hljóta tekjur ríkissjóðs að fara gífurlega lækkandi. M. a. er hér við þennan vanda að stríða auk þess sem teknar hafa verið ákvarðanir um verulegar skattalækkanir. Ekki þarf því að koma neinum á óvart að ef menn eru ekki á þeim buxunum að draga úr ríkisbákninu hlýtur að fara svo að áfram verði halli á ríkissjóði, öðruvísi getur það ekki farið.