08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3506 í B-deild Alþingistíðinda. (3013)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hér hafa orðið miklar umr. um svokallað gat á fjárlagadæminu fyrir árið 1984, glufu, sem sumir kalla jafnvel stórgat eða stóra gatið, en aðrir gera lítið úr. Ég vil þó minna á að það, sem hér er á dagskrá, er skýrsla fjmrh. um ríkisfjármálin fyrir 1983 og því er ekki óeðlilegt að ég víki fyrst að útkomunni á því ári.

Eins og fram kemur í skýrslu hæstv. fjmrh. var greiðsluafkoman á árinu 1983 á þann veg að gjöldin voru um 16.3 þús. milljónir en tekjurnar 15.t. Hallinn, sem virðist hafa orðið á greiðslujöfnuði fjárlaga á árinu 1983, nemur tæpum 1200 millj. kr. Í þessu sambandi er rétt að benda á að vafalaust mun rekstrarafkoma ríkissjóðs reynast töluvert miklu hagstæðari en þessar tölur bera með sér. Undanfarin ár hefur rekstrarafkoma ríkissjóðs verið talsvert hagstæðari en greiðsluafkoman. Og þó að það sé út af fyrir sig ekkert lögmál að svo þurfi að vera hygg ég að svo verði einnig að þessu sinni og gæti fært fyrir því ýmis rök.

En hver er ástæðan fyrir því að greiðsluafkoman var neikvæð um tæpar 1200 millj. kr.? Ég tel það rangt að aðalástæðan fyrir því sé samdráttur í tekjum ríkisins vegna minnkandi innflutnings eins og mjög hefur verið rætt um af mörgum. Í fjárlögum fyrir árið 1983 var reiknað með verulegum samdrætti í tekjum vegna minnkandi innflutnings og vegna rýrnandi lífskjara, vegna minnkandi neyslu og minnkandi veltu. Ég held að ekkert hafi á vantað að reynt væri að áætla um verulegan samdrátt í tekjum ríkisins vegna samdráttar í þjóðartekjum við fjárlagagerð fyrir árið 1983. En hitt má vera rétt að samdrátturinn hafi orðið ívið meiri en menn reiknuðu með og að tekjurnar hafi orðið ívið minni en ráð var fyrir gert í fjárlögum. En það er samt ekki aðatskýringin á þessum mikla halla sem var á árinu 1983. Það er að vísu ein skýring en tiltölulega smávaxin miðað við aðrar, tiltölulega lítill hluti af heildarhallanum.

Sagt hefur verið að hallinn á árinu 1983 hafi stafað af því að á því ári hafi orðið verulega miklu meiri verðbólga en reiknað var með í fjárlögum, reiknitalan hafi reynst röng, hún hafi verið tiltölulega lág eða um 42% en verðbólgan hafi orðið miklu meiri. Ég mótmæli þessu. Ég mótmæli því ekki að reiknitalan var fremur lág miðað við það sem varð í reynd. En ég mótmæli því að þetta sé einhver skýring á halla á árinu 1983.

Ég hygg að ef eitthvað er sé reglan sú að verði verðbólga meiri en áætlað er í fjárlögum verkar það frekar til niðurskurðar á útgjöldum á þann hátt að ýmis útgjöld fjárlaganna eru föst, t. d. öll framkvæmdafjárlögin. Þar er ekki bætt við nema í hreinum undantekningartilvikum. En ef veltan reynist 30% meiri eða 20% meiri en áætlað var vaxa tekjurnar í réttu hlutfalli við þá tölu. Vegna þess að tekjur ríkissjóðs eru að mestu leyti, eins og menn þekkja, veltutekjur er það reglan að þetta stenst svona nokkurn veginn á með útgjöld og tekjur í vaxandi verðbólgu, launin hækka ef um vísitölubindingu er að ræða en tekjurnar hækka þar á móti. Þær tölur, sem eru fastar og bundnar, ákveðnar krónutölur í fjárlögum, standa í stað. Þar verður verutegur niðurskurður í reynd.

Þannig að sú skýring, að halli hafi orðið á fjárlögum á árinu 1983 vegna þess að reiknitalan hafi reynst röng, vegna þess að verðbólgan hafi reynst meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, er ekki rétt. Vissulega má deila um það hvort slík þróun geti einhverju raskað til eða frá, ég vil ekki útiloka að í sumum tilvikum valdi hún einhverjum lítils háttar halla og í öðrum tilvikum gæti hún svo aftur á móti valdið afgangi. En það er ekkert sem breytir einu eða neinu svo máli skiptir.

Hver er þá skýringin á því að útgjöld ríkissjóðs fóru svo verulega fram úr áætlun miðað við tekjurnar að af var verulegur greiðsluhalli? Ég kem að því hér á eftir. En auðvelt er að færa rök að því að ástæðan er fyrst og fremst ákvarðanir nýrrar ríkisstj. þegar hún tekur við á miðju ári 1983. Staðreyndin er sú að við stjórnarskiptin var ekki lakari staða hjá ríkissjóði en verið hafði mjög oft á undangengnum árum. Ég benti á það í grein, sem ég skrifaði um helgina 25. júní bæði í Morgunblaðið og Þjóðviljann, að halli á ríkissjóði á fyrstu fimm mánuðum ársins 1983 var um 11.4%, en það er nákvæmlega það sama og verið hafði að meðaltali á árunum 1975–1979. Það var vissulega heldur óhagstæðari staða en verið hafði á árunum 1980, 1981 og 1982. Og mér dettur ekki í hug að halda að stefnt hafi í jafnhagstæða útkomu á árinu 1983 og verið hafði á árunum 1980, 1981 og 1982 því að öll þessi ár var verulegur afgangur. En ég hygg hins vegar að það hefði mátt ná jafnvægi, þ. e. láta afkomuna standa nokkurn veginn á sléttu ef rétt hefði verið á málum haldið á síðari hluta ársins 1983.

Það sem hins vegar veldur greiðsluhallanum er að þegar þessi stjórn tekur við virðist vísvitandi vera stefnt að því að halli verði á afkomu ársins 1983. Gerðar eru verulegar breytingar á sköttum, skattalækkanir framkvæmdar, m. a. afnumin skattur á skemmtiferðir til útlanda. Telja má að þessar skatta- og tollabreytingar hafi valdið minnkuðum tekjum ríkissjóðs upp á 400–500 millj. kr. þegar allt er talið. Ríkisstj. ætlaði sér reyndar að afla tekna á móti þessu eða skera eitthvað niður og ég veit að hæstv. fjmrh. hafði slíkt í huga þegar þessi ákvörðun var tekin eins og skýrt kemur fram í brbl. sem gefin voru út í júnímánuði. Það átti að spara fyrir þessari upphæð nokkurn veginn. Þá hefði þetta gengið upp og verið í lagi. En þær 300 millj. kr., sem ríkisstj. ákvað að reyna að spara þarna á móti í júnímánuði, urðu aldrei neinn sparnaður. Þar af leiðandi kom stórfellt gat á fjárlagadæmið fyrir árið 1983 sem þessu nam.

Ef vegáætlun hefði verið samræmd þeim tekjum sem ætlaðar voru til vegagerðar þannig að tekjur og gjöld hefðu staðist á og ekki hefði verið tekið nýtt erlent lán til þess að jafna hallann eins og gert var — annaðhvort með niðurskurði framkvæmda eða með tekjuöflun eins og fyrrv. stjórn hafði í huga — þá hefði hallinn á árinu 1983 minnkað um einar 150 millj. kr. Ef niðurgreiðslur á árinu 1983 hefðu verið í samræmi við fjárlög ellegar að tekna hefði verið aflað til að standa undir auknum niðurgreiðslum, eins og t. d. var gert 1981 þegar niðurgreiðslur voru auknar um 3000 milljónir og aflað var fjár til þeirrar aukningar á niðurgreiðslum bæði með niðurskurði útgjalda og með tekjuöflun, þá hefði ekki orðið gat hjá ríkissjóði á s. l. ári upp á 200 millj. kr. Hér er ég bara búinn að nefna tiltölulega fáa tekju- eða útgjaldapósta en bara þessir póstar, sem ég hef nefnt, valda halla hjá ríkissjóði upp á einar 800 millj. kr. á s. l. ári. Og sjá þá allir að greiðsluhalli, sem í reynd varð 1163 millj. kr., skýrist að verulegu leyti af ákvörðunum af þessu tagi. Ég minni á það sem ég sagði áðan að sennilega verður rekstrarafkoman á árinu 1983 töluvert miklu betri en greiðsluafkoman og má því vel vera að þegar búið er að draga þessar 800 millj. frá standi ríkissjóður nokkurn veginn á sléttu á árinu 1983 þegar öll kurl eru komin til grafar.

Í sambandi við rekstrarjöfnuðinn vil ég nefna eitt dæmi sem skýrir það hvers vegna rekstrarjöfnuðurinn getur orðið hagstæðari en greiðsluafkoman. Rétt fyrir s. l. áramót ákvað hæstv. fjmrh. að greiða fyrirfram af útflutningsuppbótum fyrir árið 1984 upphæð sem nam 50 millj. kr. Hann greiddi þessa upphæð fyrir áramót þó að tekjurnar og þó að fjárlagaliðurinn væri á fjárlögum ársins 1984.

Vissulega hefur oft áður komið fyrir að greitt væri fyrir fram upp í útflutningsuppbætur þótt það hafi kannske nokkuð ráðist af því hvernig staða ríkissjóðs hefur verið á hverjum tíma. Ég reyndi gjarnan að ganga til móts við bændasamtökin í þessum efnum að einhverju leyti á hverju ári en það var þó venjulegast um að ræða upphæð sem aðeins var brot af þessari upphæð.

Hérna er hins vegar um að ræða yfirgnæfandi langstærstu upphæð af þessu tagi sem greidd hefur verið fyrir fram í útflutningsuppbætur. En það sjá allir að ef 50 millj. kr. eru með þessum hætti færðar frá árinu 1984 yfir á árið 1983 valda þær því að greiðsluhallinn verður 50 millj. kr. meiri á árinu 1983 og svo aftur 50 millj. kr. minni á árinu þar á eftir en þetta mun að sjálfsögðu koma fram með eðlilegum hætti í rekstrarreikningi. Í rekstrarreikningi ríkissjóðs munu þessar 50 millj. kr. ekki verða færðar sem útgjöld ársins 1983 heldur sem útgjöld ársins 1984 og þar af leiðandi verður rekstrarútkoman á árinu 1983 þessum 50 millj. kr. hagstæðari heldur en greiðsluafkoman.

Ég hygg að ef margar slíkar stórar tilfærslur hafa átt sér stað frá árinu 1984 yfir á árið 1983, þ. e. fram fyrir sig yfir áramótin, hljóti ríkisreikningurinn að vera verulega miklu hagstæðari en greiðsluafkoman. En það eru margar aðrar ástæður sem valda því að rekstrarafkoman er oft og tíðum hagstæðari og m. a. sú að verið er að greiða niður skuldir sem myndast hafa hjá einstökum stofnunum, eins og t. d. hefur átt sér stað á undanförnum árum gagnvart Tryggingastofnun ríkisins. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það mál stendur nú en allt mun þetta að sjálfsögðu koma í ljós þegar ríkisreikningurinn verður gerður upp. Hann verður væntanlega birtur áður en Alþingi lýkur störfum í vor svo við þurfum ekki að ræða það mál frekar að sinni.

Ég sný mér þá að stóra gatinu margfræga, þessum 1850 millj. kr. sem nú eru sagðar á vanta til að ríkissjóður komi út með greiðslujafnvægi á árinu 1984. Sagt hefur verið að þessi tíðindi komi ekki neinum á óvart og ég tek undir það. Þetta er ekkert annað en það sem fullyrt var af stjórnarandstæðingum við afgreiðslu fjárlaga í haust. En ég vil hins vegar benda á að þessi upphæð er vafalaust verulega vantalin ef eitthvað er.

Í fyrsta lagi er ljóst að engar ákvarðanir hafa verið teknar um það enn hvernig náð verður 5% sparnaði á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs hjá sérhverri stofnun ríkisins. Það er vandi að ná fram slíkum sparnaði og við eigum alveg eftir að sjá hvort sá sparnaður verður að veruleika. Sama gildir um 2.5% sparnað í launaútgjöldum ríkisins. Ég veit ekki til að neinar ákvarðanir hafi verið teknar um það hvernig þessum sparnaði verði náð. Ef það tekst ekki, ef blessaðir hæstv. ráðherrarnir okkar renna á rassinn með þann sparnað eins og þeir virðast ætla að renna á rassinn með sparnaðinn í tryggingakerfinu, þá eru þarna býsna stór göt sem eftir er að fylla í og hafa þá ekki verið fram talin í skýrslu fjmrh. til hæstv. Alþingis nú í dag. Sama gildir um félagsmálapakkann margfræga sem er upp á 330 millj. kr. Hann er ekki með í þessu dæmi og enn virðist standa í hæstv. ráðherrum að gera einhverja grein fyrir því hvernig á að borga þann pakka. Á að gera það með minnkandi niðurgreiðslum og þar með hækkandi vöruverði? Á að gera það með útflutningsuppbótum, sem virðist þó vera þegar mjög verulega vantaldar, eða með einhverjum öðrum niðurskurði. Ekkert liggur fyrir um hvað gert verður og þó eru margar vikur liðnar síðan þetta mál bar hér fyrst á góma án þess að nokkur svör hafi fengist. Skyldi ekki vera þarna enn eitt gatið á ferðinni sem á eftir að fylla í?

Hv. þm. Eiður Guðnason gerði vanda Byggingarsjóðs ríkisins að umtalsefni áðan. Ég tek undir það sem hann sagði að þar er um gífurlegar fjárhæðir að ræða, Félmrh. hefur lýst því yfir að hann muni sjá til þess að staðið verði við öll stóru loforðin í sambandi við Byggingarsjóð ríkisins og ég fagna því auðvitað alveg sérstaklega að hæstv. félmrh. skuli gefa þá yfirlýsingu. Þá er bara spurningin er hæstv. fjmrh. reiðubúinn til að borga brúsann? Hvar ætlar hann að taka þessar 700, 800 eða 900 millj. sem þar kann að vanta á? Ekki liggur ljóst fyrir í dag hver upphæðin er, það fer mjög eftir þróun mála á næstunni. En þarna getur greinilega verið um mjög háa fjárhæð að ræða, einhvers staðar á bilinu milli 700 og 900 millj. kr.

Í umr. um þetta margfræga gat virðast ýmsir ekki hafa gert sér grein fyrir því að það snýst ekki um það að tekjur ríkisins hafi verið vanreiknaðar. Ég heyrði t. d. að fréttamaður útvarpsins gerði því skóna í kvöldfréttum í gærkvöldi að líklega væri þetta að einhverju leyti vegna þess að tekjurnar hefðu verið vantaldar. Hæstv. forsrh. hefur minnst á það opinberlega að þetta stafi sennilega af því að tekjuhliðin sé ekki í nógu góðu lagi. Ég vek á því athygli að við erum alls ekki að ræða um neitt tekjugat. Við erum að ræða um útgjaldavanda, útgjaldagat. Við eigum alveg eftir að ræða um hugsanlegan tekjuvanda. Það er sá partur af dæminu sem á kannske eftir að koma á daginn síðar að valdi verulegu gati í fjárlagadæmi ríkissjóðs. Ég minni á að sú fyrirhugaða skattalækkun til fyrirtækja, sem ríkisstj. hefur boðað en enn ekki fengið afgreidda á Alþingi, er alls ekki inni í fjárlagadæminu þannig að þar er enn eitt gatið sem á eftir að gera ráð fyrir í tekjudæminu.

Viðbrögð stuðningsmanna ríkisstj. hafa verið ákaflega sérkennileg eftir að þessi stóru götu komu í ljós. Ég held að það sé vægt til orða tekið að nefna það moldviðri sem reynt hefur verið að þyrla upp, ekki síst af formanni fjvn., hv. þm. Lárusi Jónssyni, og mörgum fleiri stuðningsmönnum ríkisstj. Menn flytja hér langt mál um aukafjárveitingar á undanförnum árum, rangar verðlagsforsendur, rangar reiknitölur og halda því fram að þar sé um einhverjar hliðstæður að ræða. Eitthvað sem hægt sé að bera saman og sé sama eðlis. Slíkar fullyrðingar eru einungis settar fram til þess að rugla dómgreind fólks. Varla er hægt að hugsa sér skelfilegri og fátæklegri viðbrögð ábyrgra stjórnvalda við aðsteðjandi vanda en að reyna að rugla fólk með þeim hætti að telja að hér sé um einhverjar hliðstæður að ræða.

Hæstv. fjmrh. féll í þá gryfju í umr. áðan að taka þannig til orða að fyrirrennarar hans hefðu tíðkað það að sópa vandanum undir teppið og svo hefði bara vandinn komið í ljós í árslok og Alþingi staðið frammi fyrir gerðum hlut, eins og hann komst að orði. Ég vil mótmæla þessu algjörlega — eða hvernig halda menn að unnt hefði verið að fá út jákvæða afkomu á árunum 1980, 1981 og 1982 með verulegum afgangi öll árin í árslok ef einhverjum stórfelldum vanda hefði verið sópað undir teppið og hann hefði fyrst verið að koma í ljós í árslok? Ekki var um að ræða nein hliðstæð vandamál af þessu tagi, að í ljós kæmi skömmu eftir að fjárl. hefðu verið gerð að verulegar upphæðir vantaði á að útgjöld væru rétt áætluð. Að svo miklu leyti sem gat verið um slíkar skekkjur að ræða var að sjálfsögðu reynt að tryggja með ákveðnum fjárveitingum í fjárlögum að þar væri varasjóður sem kæmi upp á móti hugsanlegum skekkjum af þessu tagi.

Allt tal um aukafjárveitingar í þessu sambandi er líka gersamlega út í hött. Það segir sig sjálft að enginn fjmrh. kemst hjá því að gefa út svo og svo mikið af aukafjárveitingum. Ég veit t. d. að hæstv. fjmrh. verður svo sannarlega að gefa út býsna margar aukafjárveitingar til að leiðrétta og lagfæra þar sem nú virðist skakkt í fjárlagadæminu. Hann verður að leiðrétta það allt með aukafjárveitingum. Almennt er útilokað að stjórna þessu landi öðruvísi en að fjmrh. og ríkisstj. hafi heimild og aðstöðu til að gefa út aukafjárveitingar vegna þess að það er svo einfalt sem nokkuð getur verið að meðan einhver verðbólga er í þjóðfélaginu — og ég tala nú ekki um ef hún er af stærðargráðunni frá 10% og upp í 60–70% — er engin leið að vita þegar fjárlög eru áætluð við hvaða tölur nákvæmlega á að miða. Verðbólga verður alltaf nokkrum prósentum meiri eða minni en fjári. höfðu nákvæmlega gert ráð fyrir og það verður að leiðrétta dæmið með aukafjárveitingum.

Ég hef margupplýst það hér á Alþingi að ef litið er á fjárlög fyrir árin 1970–1983 hefur frávik ríkisreiknings frá fjárlögum verið öll árin einhvers staðar á bilinu milli 10 og 20%, aldrei undir 10% en víst aldrei mikið yfir 20%. Þetta er ekkert annað en það sem menn verða að horfast í augu við vegna þess að í verðbólguþjóðfélagi verður aldrei áætlað svo nákvæmlega.

En það er atriði sem ekki skiptir öllu máli þótt ekki takist að áætla reiknitölu fjárlaga nákvæmlega rétta, því að eins og ég hef þegar gert grein fyrir hækka tekjurnar í nokkurn veginn réttu hlutfalli við útgjöldin þegar um verðbólguþróun er að ræða og því myndast ekkert gat af þeirri ástæðu. Gat er fyrirbæri sem er allt annars eðlis og það er einungis verið að villa um fyrir fólki þegar verið að líkja þessu tvennu saman.

Ég vil láta það koma hér fram að ég tel að ástand ríkisfjármála á árinu 1983 hljóti vissulega að teljast nokkuð sérstaks eðlis. Hæstv. fjmrh. hafði nokkra afsökun fyrir því hvernig fór á árinu 1983 vegna þess að til viðbótar því erfiða árferði og þeirri naumu útkomu ríkissjóðs, sem hlaut að verða á því ári vegna verulegs samdráttar, var hann að setjast í nýja ríkisstj. sem ákvað að breyta fjárlagadæminu í verulegum atriðum en treysti sér ekki þegar svo langt var liðið á árið að afla nýrra tekna á móti eða skera niður útgjöld. Svo einfalt er það. Ríkisstj. taldi sig verða að gera ýmsar ráðstafanir, sem bæði höfðu tekjulækkun í för með sér og útgjaldaaukningu, í sinni herferð gegn verðbólgu og treysti sér ekki til að jafna dæmið með öðrum ráðstöfunum þegar svo langt var liðið á fjárlagaárið. Þess vegna ákvað hún beinlínis í upphafi ferils síns að reka ríkissjóð með tilteknum halla á fjárlagaárinu.

Um árið 1984 gegnir allt öðru máli. Þá átti að vera mögulegt að ná jafnvægi með nýjum fjárlögum. Þá var líka stefnt að því að ná jafnvægi og þá voru gefnar út yfirlýsingar, ekki ein og ekki tvær heldur ótal margar af talsmönnum ríkisstjórnarinnar, að nú hefðu verið sett saman raunhæfustu og nákvæmustu fjárlög sem sögur færu af og nú mundi allt ganga upp eins og vera bæri.

En því miður ætlar reyndin að vera eitthvað önnur. Það er ekki vegna þess að reiknitalan standist ekki. Vissulega mun hún ekki standast í ár frekar en önnur ár. Reiknitala fjárlaga er mjög lág að þessu sinni og ég trúi ekki að nokkrum alþm. detti í hug að halda að hún standist nákvæmlega. Hún verður vitlaus í þetta sinn eins og alltaf áður.

Ramminn er þegar sprunginn. Það er alþekkt staðreynd og raunar ekkert nýtt. Hann hefur alltaf sprungið á hverju einasta ári. Ég hef satt að segja verið þeirrar skoðunar öll þau ár sem ég hafði með þessi mál að gera að óskynsamlegt væri að ákveða reiknitölu fjárlaga nákvæmlega hina sömu og menn reiknuðu með að yrði verðbólguprósenta ársins. Ég hef talið það óskynsamlegt. Ég hef viljað hafa borð fyrir báru með því að hafa reiknitöluna ævinlega nokkrum prósentum lægri en gera mætti ráð fyrir að yrði verðbólguprósenta ársins. Hvers vegna? Vegna þess að það gerir ekkert til þó að þarna verði einhver munur á. Ef verðbólgan verður meiri en ætlað var koma bara tekjur á móti sem fylla í gatið.

Hitt er aftur á móti mjög alvarlegur hlutur ef menn skyldu nú misreikna sig á þann veg að þeir ætluðu að hitta nákvæmlega á verðbólguprósentuna og svo yrði verðbólgan minni en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Þá verður halli, þá er voði á ferðum. Því er það satt best að segja afar óhyggilegt að reyna í verðbólguþjóðfélagi að stilla inn á nákvæmlega þá verðbólguprósentu sem fram undan er. Hver ríkisstj. verður helst að ætla reiknitölu fjárlaga nokkrum prósentum undir því sem líklegt er að verði til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig, til þess að hafa örugglega borð fyrir báru.

Þetta hefur núverandi ríkisstj. vissulega gert því hún setti rammann svo þröngan að engum lifandi manni datt í hug að hann mundi standast. Ekki datt mér það eitt andartak í hug þegar ég sá reiknitöluna fyrir núgildandi fjárlög og mér dettur ekki í hug að halda að hæstv. fjmrh. hafi verið slíkt barn að ímynda sér að þessi rammi mundi í reynd standast fullkomlega.

Þetta er sem sagt ekki kjarni málsins, hvorki með útkomu fjárlagadæmisins á árinu 1983 né fyrir árið 1984. Allar vífilengjur og moldviðri, sem stjórnarsinnar reyna að þyrla upp um þessa hlið málsins, eru einungis settar fram til þess að villa mönnum sýn. Aðalatriðið er að það vantar fyrir útgjöldum án þess að reikna megi með neinum tekjum á móti. Slíkt gat er allt annars eðlis, eins og menn hljóta að sjá, og stefnir í stórfelldan halla á þessu ári.

Eiginlega má segja að sagan sé að endurtaka sig frá árinu 1974 þegar Sjálfstfl. tók seinast við ríkisfjármálum en einmitt á því ári, 1974, varð í fyrsta skipti á þeim árum verulegur halli á ríkissjóði og hann átti svo eftir að aukast mjög verulega á þeim árum sem í kjölfarið fylgdi.

Ég minnist þess að þegar verið var að ræða um fjárlagadæmið fyrir árið 1981 kom einn af talsmönnum Sjálfstfl. hér í ræðustól og sagði: Ja, það er nú ekki mikill vandi að halda jafnvægi í ríkisfjármálum ef menn fara að eins og fjmrh. fer að og þáv. ríkisstj. með því bara að skera niður lögbundin útgjöld og auka svo bara tekjurnar eftir því sem þörfin krefst. Þannig ná þeir jafnvægi. — Þetta var kjarni málsins. Þetta er eina leiðin til að ná jafnvægi. Það er að láta útgjöldin vera í samræmi við tekjurnar. Útgjöldin verða venjulega að minnka með niðurskurði og tekjurnar að aukast með skattlagningu af einhverju tagi. Önnur leið er ekki til.

Ég væri vissulega tilbúinn til að flytja hér langt mál um það hvernig mætti hugsanlega rétta af þennan halla. Ég tel að það séu margar leiðir til þess. Mætti nefna þar marga pósta. Fyrsta verkið ætti auðvitað að vera að hætta við að veita stóreignamönnum og hlutabréfaeigendum stórfelldar skattalækkanir eins og nú er áformað. Önnur leiðin væri sú að leggja sams konar skatta á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og gert hefur verið á undanförnum árum en lækka þá ekki. Þriðja úrræðið væri kannske að leggja skatt á skemmtiferðir til útlanda eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Fjórða úrræðið gæti verið að skera niður útgjöld til flugstöðvar upp á 100 millj. kr. Þannig mætti lengi telja. En auðvitað hefst aldrei að ná endum saman öðruvísi en að útgjöldin séu minnkuð og tekjurnar auknar.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér kemur á óvart að hæstv. fjmrh. eða hæstv. forsrh. skuli ekki ræða hér eitthvað um hugmyndir ríkisstj. um það hvernig brugðist verði við þessum vanda. Það er eins og komið sé atgjörlega að tómum kofanum hjá hæstv. ráðh. um lausn á þessu vandamáli. Það skyldi ekki eiga fyrir okkur að liggja að þetta mál verði óleyst áframhaldandi og að hér verði stefnt í einhvern mesta halla á ríkissjóði sem nokkur dæmi eru til fyrr og síðar. Við skulum sannarlega vona að svo fari ekki.