08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3519 í B-deild Alþingistíðinda. (3015)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá skýrslu, sem hann hefur gefið Alþingi, um stöðu ríkisfjármála. Sú stefnubreyting, sem í því felst að gera Alþingi með þessum hætti grein fyrir stöðunni í stað þess að sett séu upp ráðherrafjárlög með gífurlegum aukafjárveitingum við hlið þeirra fjárlaga sem Alþingi samþykkir, er til fyrirmyndar og hlýtur að verða til eftirbreytni. Þær upplýsingar, sem fram hafa komið um stöðu ríkissjóðs, staðfesta þó ótvírætt, þrátt fyrir yfirlýsingar fjmrh. og fleiri stjórnarliða, að þau fjárlög, sem afgreidd voru hér fyrir jól, voru óraunhæf og þar hefur engin breyting á orðið. Það verður að vænta þess að þessar upplýsingar og sú staða, sem kemur upp aðeins örfáum vikum eftir að Alþingi afgreiðir fjárlög þar sem tvo milljarði eða meira vanti inn í fjárlagadæmið, hljóti að verða til þess að stjórnvöld reyni að gera þau fjárlög, sem afgreidd eru, raunhæfari og tekið sé tillit til staðreynda sem raunverulega liggja fyrir, eins og að verulegu leyti var í þessu tilfelli, þegar Alþingi afgreiddi fjárlögin fyrir jól. Í því sem tíundað hefur verið og fram hefur komið um ástæðu fyrir því gati á fjárlögum, sem hér er til umr., er raunar lítið nýtt sem ekki mátti sjá fyrir þegar fjárlög voru afgreidd.

Hæstv. fjmrh., sagði á Alþingi 19. des. eftirfarandi, með leyfi forseta: „Enn fremur hef ég þann ásetning að ef þær efnahagsforsendur, sem fjárlög fyrir árið 1984 eru byggðar á, breytast verulega mun ég leita eftir samþykki Alþingis fyrir breytingum sem þá verða nauðsynlegar á ríkisfjármálum, en ekki láta þær birtast í aukafjárveitingum sem Alþingi hefur ekki áhrif á. En eitt er ljóst og nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir að sú fjárlagagerð, sem verið hefur allt árið í fjmrn. með samþykkt aukafjárveitinga er lokið.“

Þessum ummælum hæstv. ráðh. fagna ég auðvitað, að aukafjárveitingum sé lokið og tekið sé á þessum málum með þeim hætti að gera Alþingi grein fyrir stöðu ríkisfjármála. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvað felst í þessum orðum hans, að hann muni leita eftir samþykki Alþingis fyrir breytingum sem nauðsynlegar kunna að verða á ríkisfjármálum. Þýðir þetta að hann ætli að taka upp fjárlögin að nýju á hv. Alþingi nú? Ég held að nauðsynlegt sé að fá svör við þeirri spurningu.

Nú er ekki um að ræða að við stöndum frammi fyrir því að efnahagsforsendur hafi breyst frá því að fjárlögin voru afgreidd, sem orsakað gæti yfir 2 milljarða í halla.

Þessar tölur eru miklu fremur staðfesting á því að sú efnahagsstefna, sem ríkisstj. lagði upp með á sínum valdaferli, var röng. Efnahagsstefnan var röng vegna þess að hún byggði svo til eingöngu á því að launafólk færði fórnir en ekki var tekið á öllum þáttum efnahagslífsins og beitt fyllsta aðhaldi á þeim sviðum og með þeim hagstjórnartækjum sem ríkisstj. hefur sjálf tök á í sínum ríkisbúskap.

Það hefur ekki verið beitt nægjanlegu aðhaldi í ríkisbúskapnum sjálfum, erlendum lántökum eða fjárfestingum eða gerðar nauðsynlegar kerfisbreytingar til að koma festu á ríkisfjármálin og efnahagsmálin í heild. Það var einmitt það sem við Alþýðuflokksmenn óttuðumst og sögðum að væri rangt, að beita einhliða aðgerðum og samdrætti er eingöngu beindist að launafólki. Ég óttast því að það ríkisfjármáladæmi, sem við nú fjöllum um, sé ekki einungis staðfestin á því að rangt hafi verið staðið að í efnahagsmálum. Ég óttast að við kunnum að standa frammi fyrir miklum samdrætti og vaxandi atvinnuleysi sem að verulegum hluta má rekja til þess að rangt hefur verið að staðið. Þetta ríkisfjármáladæmi staðfestir að svo sé, að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er röng.

Sú einhliða leiftursókn, sem framkvæmd hefur verið til að slá niður verðbólguna, tel ég að sé dæmd til að mistakast. Það hefur, með einhliða aðgerðum sem fela í sér gífurlegar kjaraskerðingar, verið farið of geyst áfram. Sú leiftursókn, sem framkvæmd hefur verið og þessi ríkisstjórn hefur staðið að, mun slá til baka. Leiftursóknin getur hitt okkur fyrir aftur í formi samdráttar, atvinnuleysis og skerðingar á félagslegri þjónustu.

Í endurskoðaðri áætlun kemur fram að innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs er lækkuð úr 800 í 400–500 millj. kr. Þessu mátti reikna með. Á það hefur stjórnarandstaðan margbent að þegar kaupmáttur fólksins er skertur svo verulega sem raun ber vitni sé þess ekki að vænta að fólk geti sparað og keypt t. d. skuldabréf af ríkissjóði.

Í þessari umr. hefur einnig verið bent á gat á húsnæðismálakerfinu og að sú upphæð sem þar um ræðir og þar vantar sé ekki í því fjárlagadæmi sem við fjöllum um hér. Ég gerði grein fyrir því, þegar húsnæðisfrumvarpið var hér til umr. fyrir jól, að það stæði fjárhagslega á brauðfótum, ekki væri hægt að standa við skuldbindingar til húsbyggjenda, gífurlegar fjárhæðir vantaði í húsnæðiskerfið og þeir tekjupóstar, sem reiknað væri með í húsnæðismálin, væri mjög ótryggir. Ég tel að þetta hafi allt sannast.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um húsnæðismálin, það hefur verið gert hér. Ég vil þó beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. í þessu sambandi. Í Dagblaðinu í dag segir hæstv. félmrh. að einungis sé óvissa með fjármögnun úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta kallar auðvitað á spurningar. Telur hæstv. félmrh. virkilega að áætlanir um 45 millj. kr. í skyldusparnað standist? Telur hann að það sem gert er ráð fyrir að komi úr lífeyrissjóðunum, 525 millj. í Byggingarsjóð ríkisins, 165 millj. í Byggingarsjóð verkamanna, að þær áætlanir standist?

Ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna hefur einungis hækkað um 6–7% á milli ára þannig að ég tel að einungis sé hægt að reikna um 400–500 millj. í mesta lagi úr 1ífeyriskerfinu. Hér hefur verið talað um fjárhæðir allt frá 600 upp í 900 millj. kr. sem vanti í húsnæðismálakerfið. Við erum með hér til umfjöllunar á hv. Alþingi bæði húsnæðismálafrv. og lánsfjárlögin þar sem fjárhagshlið húsnæðiskerfisins kemur óhjákvæmilega mikið við sögu. Ég held að nú sé tækifæri að spyrja hæstv. ráðh. um þessi mál vegna þess að þegar við fjöllum um ríkisfjármátin má auðvitað ekki skilja húsnæðismálin eftir. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh.: Hvað er hæft í því, sem talað er um, að það vanti upp undir 900 millj. sem um hefur verið talað í húsnæðiskerfið? Að mínu viti er það of há tala, ég gæti trúað að það vantaði þarna 600–700 millj. En nauðsynlegt er að fá það rétta og sanna fram í þessum umr.

Talað er um að jafnvel þó að Byggingarsjóður verkamanna fengi alla þá peninga, sem gert er ráð fyrir á næsta ári í lánsfjárlögum og fjárlögum, verði að ýta fram á næsta ár 1/4 af þeim skuldbindingum sem þegar hafa verið gerðar og þó ekki gert ráð fyrir nýjum framkvæmdum. Hjá Byggingarsjóði ríkisins verði einnig um samdrátt að ræða í nýbyggingum frá síðasta ári þó staðið verði við það fjármagn sem ráð er fyrir gert. Því óska ég eftir svörum frá hæstv. félmrh. um þetta mál og ég óska eftir því við hæstv. forseta að þessari umr. ljúki ekki fyrr en við höfum fengið svör frá hæstv. félmrh. um þessi mál.

Því hefur verið haldið fram hér í dag að hæstv. fjmrh. komi tómhentur til þings að því leyti að hann hafi engar tillögur eða úrlausnir fram að færa varðandi það ríkisfjármálagat sem við fjöllum hér um. Hæstv. fjmrh. hefur vissulega gert Alþingi grein fyrir vandanum hér í dag en auðvitað hlýtur það einnig að vera skylda hæstv. fjmrh. að gera Alþingi grein fyrir lausnum sem hann hefur í því máli. Þegar því er haldið fram í dag að hann komi tómhentur til þings í þessu efni er það rétt að því leyti að hann hefur ekki gert Alþingi grein fyrir neinum tillögum. En ef marka má það sem fram hefur komið í dagblöðum, m. a. í Tímanum í dag, þá eru tíundaðar ýmsar lausnir sem fjmrh. virðist hafa á þessu máli. Ég tel óþarfa að rekja þær frekar, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gerði það hér áðan.

En þá vaknar spurningin: Hvers vegna gerir hæstv. fjmrh. hv. Alþingi ekki grein fyrir þessum tillögum? Er um að ræða að það sé rétt að stjórnarliðar og hans samráðherrar telji hans tillögur óraunhæfar, eins og fram kemur í frétt í Tímanum? Er ágreiningur í ríkisstj. um þessar leiðir sem fjmrh. hefur og þær lausnir sem hann virðist hafa við þeim vanda svo sem fram kemur í Tímanum í dag? Ég trúi því að fjmrh. vilji ekki sitja undir því að hann hafi engar lausnir fram að færa í þessu máli. Þess vegna væri mjög æskilegt og eðlilegt að hann gerði þinginu grein fyrir því hvort að rétt sé haft eftir í blöðunum að hann hafi lausnir á þessu fjárlagadæmi sem við fjöllum um hér í dag.

Í nýgerðum kjarasamningum var samið um að kjarabætur kæmu til þeirra lægst launuðu gegnum atmannatryggingakerfið og var áætlað að þær kostuðu ríkissjóð um 325 millj. kr. Ekki er enn séð fyrir hvaðan þeir peningar verða teknir. Fram kemur í þeim úrlausnum sem dagblaðið Tíminn segir að hæstv. fjmrh. hafi að ganga þurfi á eftir þessum 300 millj. kr. sparnaði í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Ég fæ ekki séð að það verði gert hjá atmannatryggingum nema það komi niður á bótagreiðslum almannatryggingaþega. Auðvitað er útilokað að standa að slíku. Bætur almannatrygginga eru naumt skammtaðar og þar verður ekki sparað eða beitt aðhaldi í ríkiskerfinu með þeim hætti að mínu viti.

Að lokum, herra forseti. Um það er einnig rætt í tilvitnaðri dagblaðsgrein í Tímanum að ein af hugmyndum hæstv. fjmrh. sé að leggja á almannatryggingagjald nefskatt til þess að ná til baka eða fá í fjárlagagatið 200–300 millj. Ég trúi því ekki að hæstv. fjmrh. ætti að beita sér fyrir skattheimtu með þeim hætti. Hann hefur sjálfur marglýst því yfir að hann standi ekki að aukinni skattheimtu. Við fjárlagaafgreiðslu sagði hæstv. fjmrh. orðrétt, með leyfi forseta:

„En eins og ég gat um hér að framan tel ég að ekki sé hægt að ganga lengra í skattheimtu til ríkisins miðað við það ástand sem ríkir í efnahagsmálum okkar.“

Því vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvort skattheimta á almenning komi til greina að hans mati til að mæta þessu gati í ríkisfjármáladæminu. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðh. hafi skipt um skoðun og muni leggja aukna skatta á landsmenn til að mæta þeim vanda sem við blasir, t. d. með því almenna tryggingagjaldi sem rætt hefur verið um í dagblöðunum.