08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3522 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Í sjónvarpsfréttum í gær var gefið merkilegt yfirlit yfir ræðutíma þm. og mikið hneykslast á því að stjórnarandstaðan talaði sýnu meira en stjórnarliðar. Þetta var afskaplega áhugavert en ég held að ég verði að stinga þeirri hugmynd að sjónvarpinu að gera úttekt á því hvorir segja meira ósatt, stjórnarliðar eða stjórnarandstaða, því að ýmislegt sem hér hefur verið borið fram er fjarri öllum sanni og fyrir þann sem fjarverandi hefur verið lítur þetta út eins og hrein revía.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem stjórnarandstaðan hefur þegar sagt en aðeins bæta við örfáum atriðum sem ekki hafa verið nefnd. Það kemur mér á óvart að enginn skuli minnast á að þegar til svokallaðra aðgerða ríkisstj. var gripið og áætlanir voru lagðar fram var miðað við að þjóðartekjur rýrnuðu verulega. Það var spáð aflaleysi sem hefur síðan komið í ljós að er ekki nærri því eins alvarlegt og ætlað hafði verið. Það munar um minna en 420 þús. tonn af loðnu. Hér hefur ekki legið fyrir hver raunveruleg þjóðartekjurýrnun verður ef svo vindur fram sem nú horfir í aflamálum þjóðarinnar.

Forsendan fyrir þessum aðgerðum er því að verulegu leyti brostin. Hvað hefur þá í raun og veru skeð? Allt í einu er okkur tjáð að halli sem átti að vera um 6 milljónir er orðinn að tveimur milljörðum. Með leyfi forseta ætla ég að lesa ummæli hv. þm. Lárusar Jónssonar í umr. um fjárlög 27. okt. í vetur sem ég leyfði mér raunar þá að gera athugasemd við. Hann segir:

„Það á að taka 2200 millj. kr. minna í sköttum af þjóðarframleiðslunni á næsta ári en gert var á árinu 1982 ef miðað er við verðlag fjárlagafrv. Það samsvarar hvorki meira né minna en verðmæti 15 skuttogara. Þetta minna á að taka af fólkinu á næsta ári en gert var áður.“

Það eru sennilega þessir tveir milljarðar sem nú er verið að vandræðast með.

Ég held að það liggi ljóst fyrir að það sem hefur gerst er að það er búið að flytja til fjármagnið í þjóðfélaginu. Það er búið að færa það frá launafólkinu yfir til þeirra sem höfðu fjármagnið áður, þeirra sem hið raunverulega fjármagn hafa. Allar þessar aðgerðir í efnahagsmálum sem gumað hefur verið af liggja í því einu að skerða kjör launafólks í landinu. Ég veit ekki hvernig á að bregðast við vinnubrögðum eins og þessum.

Hér liggja enn á borðum okkar frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt einstaklinga og félaga. Eru þessi frv. enn þá góð og gild? Stendur til að afgreiða þau eða á að breyta þeim? Öll forsenda fyrir þessum efnahagsaðgerðum virðist löngu brostin og við hljótum að krefjast þess að fá að vita hvort ætlast er til að þessi mál verði afgreidd. Hér er ekki einu sinni farið að afgreiða lánsfjárlög. Þetta virðist allt saman svífa í lausu lofti.

Tilkynnt er að um þrjár leiðir sé að ræða. Það sé skattheimta — þá sýnist mér nú úr sögunni að tveimur milljörðum sé skilað aftur í vasa launþeganna heldur eigi jafnvel að taka þá af þeim til viðbótar — eða innlendar lántökur eða erlent lánsfé. Menn voru ófeimnir við að taka á þessu ári 100 millj. kr. erlent lán til að byggja flugstöð á Keflavíkurflugvelli.

Fjmrh. hefur marglýst því yfir að hann sé sammála því, sem bæði ég og aðrir hafa haldið fram, að við eigum að hætta að láta Seðlabankann leika sér með 5% af arði sínum, hann eigi að renna beint í ríkissjóð. Ef skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hefur aukist um 1100 milljónir ætti fjmrh., sem er svo hjartanlega sammála þessari skoðun bara að sækja þær. Það er töluvert upp í gatið t. d., svo að hæstv. ráðh. sé bent á hugmyndir.

Ég ætla ekki að gera að umræðuefni ástandið í málefnum öryrkja og ellilífeyrisþega. Það hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þegar gert. Það liggur ljóst fyrir að sá hópur í þjóðfélaginu verður verst úti með þessum aðgerðum.

Hér er mikið búið að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá einurð að koma hér og segja okkur að allt sé komið í vaskinn hjá honum. Hann sagði raunar við fjárlagaumræðuna að hann mundi koma með þessi fjárlög inn aftur að þrem mánuðum liðnum. Fyrir því var aðeins ein ástæða. Hann vissi að þau stóðust ekki. Hins vegar hef ég grun um að hann hefði beðið nokkuð með það og látið þetta liggja í þagnargildi hefðu ekki allt aðrir menn blandast í málið. Þar á ég við forustumenn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Það kom svolítið babb í bátinn þegar þeir neituðu að semja. Og þegar einhverjir skíðaskálasamningar fóru af stað gerðist stórum erfiðara að þegja um stóra gatið í fjárlögunum.

Ég skal stikla á stóru, herra forseti. Hér var sagt, mig minnir að það hafi verið hv. þm. Lárus Jónsson, að ætlunin hafi verið að færa kostnað ríkisins yfir á sveitarfélögin. Þetta er auðvitað út í hött. Hvað ætluðu menn að gera? Breyta lögum um tekjustofna sveitarfélaga og afla sveitarfélögunum, sem þegar eru á hvínandi hausnum, nýrra tekjustofna? Þetta er auðvitað marklaust hjal sem ekki er hlustandi á. Hvað ætluðu þeir að gera? Hvernig ætluðu þeir að afla sveitarfélögunum tekna?

Hæstv. heilbrrh., sem héðan er nú horfinn á braut, stynur mikið yfir sjúkrahúsakerfi sínu. Það vill svo til að fyrrv. heilbrrh. setti á laggirnar nefnd sem vann í heilt ár að tillögum um úrbætur, til sparnaðar m. a., í sjúkrahúsakerfinu. Einn af ágætum nm. í þeirri nefnd situr hér í hliðarherbergi sem sérfræðingur hæstv. fjmrh. Hann hafði fastmótaðar hugmyndir um hvernig þar mætti bæta úr. En þegar nefndin gekk á fund hæstv. heilbrrh. og skilaði af sér nefndarstörfum með langri og ítarlegri skýrslu tók hæstv. ráðh. okkur heldur fálega, gaf lítið út á þessa vinnu, sagðist hafa heyrt þetta allt saman áður. Skömmu síðar lásum við forsíðufregn í Dagblaðinu um að störf þessarar nefndar væru öldungis ónýt og ekkert nýtilegt í hennar tillögum. Það var hins vegar ekki alveg rétt. Það var ýmislegt merkilegt lagt til í þessari nefnd. T. d. hlýtur það að vera til nokkurs sparnaðar að leggja niður sjúkrasamlög sem við erum öll sammála um að hafi verið hægt að gera. En það er náttúrlega ekki von að vel gangi ef hæstv. ráðherrar ríkisstj. taka ekki meira mark á sérfræðingum sínum en svo að einn ráðh. hefur sem aðstoðarmann mann sem annar ráðh. tekur ekki minnsta mark á og segir að hafi ekki gert nokkurt gagn í þessu starfi.

Ég vík þá máli mínu til hæstv. félmrh. Hér var rætt við hann um húsnæðismál og um þau mætti margt segja en ég sleppi því. Ég ætla aðeins að minna hann á eitt sem hann hefur margsinnis sagt og beitti bæði í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar og æ síðan, svaraði m. a. Svavari Gestssyni mjög ákveðið um það efni. Hann sagði: Ég mun leggja fram frv. um fæðingarorlof fyrir allar konur. Ég vil heyra hæstv. félmrh. segja þetta einu sinni enn. Ætlar hann að gera það? Hann sagði vestur á landi í kosningabaráttunni í vor að það hefðu verið þau Guðrún Helgadóttir og Svavar Gestsson sem hindruðu að frv. hans um fæðingarorlof fyrir allar konur væri samþykkt. Ég skal taka það fram að ég er ósammála hæstv. félmrh. um frv., ég vil ekki fæðingarorlof á þessu stigi málsins fyrir allar konur. Það er ekki þess vegna sem ég er að spyrja. Ég bara spyr: Hvað meina menn með því sem þeir eru að segja? Ég vil heyra hæstv. félmrh. enn og aftur segja þetta vegna þess að hann hefur margsinnis lýst því yfir að þetta sé það sem hann muni beita sér fyrir.

Ég held að hæstv. ríkisstj. sé komin í algjöra blindgötu með flest sín mál. Og ég held að það sé fyrst og fremst vegna þess að enginn ráðh. þjóðarinnar þorir að taka virkilega á málum. Það eru nógir peningar til á Íslandi, það vitum við öll. Það þarf bara að ná í þá. Þeir eru nefnilega flestir þar sem þeir eiga ekki að vera. Við vitum öll að t. d. hjá vátryggingarfélögunum liggur feikilegt fé sem er hægðarleikur að nýta. Það er hægðarleikur ef menn snúa sér að því að gera einhvern skurk í markaðsmálum þjóðarinnar sem eru unnin með eintómum þumalfingrum.

Það þarf líka að stöðva það æði sem á sér stað í húsnæðismálum. Það væri verðugt verkefni fyrir hæstv. félmrh. að reyna að standa við það sem hann hefur lofað í félagslegu íbúðarkerfi. Menn þurfa ekki annað en líta á síður Morgunblaðsins til að sjá að nú er efnahagsástand þjóðarinnar þannig, að því fólki hefnist nú fyrir sem trúði á steinsteypu í eina tíð og taldi ráðlegra að fjárfesta í henni en að setja peningana sína í annað og byggði sér allt of stórt húsnæði og óhentugt í alla staði. Nú eru þessi hús til sölu í tuga- og hundraðatali og enginn getur keypt. Innan tíðar stendur þetta húsnæði autt eða það hríðlækkar í verði. Það þarf nefnilega að stjórna þessum málum í svona litlu landi. Það er ekki hægt að láta hverja einustu fjölskyldu í landinu valsa með milljónir sem hún er á pappírnum sögð eiga en á auðvitað ekkert í því að allt húsnæði í landinu er byggt fyrir almannafé að sjálfsögðu. Þess vegna er það rétt að við Alþb.-menn höfum alltaf sagt: Það þarf að byggja þetta á því félagslega íbúðarkerfi sem við höfum barist fyrir. Það er ekki hægt að reka þetta öðruvísi. Satt að segja efast ég um að hægt sé að reka þjóðfélag eins og það sem við lifum í án þess að við séum í eilífum efnahagskröggum. Það þarf nefnilega að taka á þessum hlutum. Það þýðir ekkert að halda sífellt áfram þessu kerfiskarlaþvargi eins og hér hefur átt sér stað í dag. Það vantar allar nýjar hugmyndir í íslenska pólitík. Það dettur engum neitt í hug. Sannleikurinn er sá að kerfið er farið að stjórna stjórnmálamönnunum en stjórnmálamennirnir ekki kerfinu. Og á meðan svo er skiptir sáralitlu máli þegar allt kemur til alls hver er við völd.

Það er e. t. v. svolítil huggun að það eru ekki íslenskir stjórnmálamenn einir sem standa gjörsamlega ráðþrota frammi fyrir því að stjórna þjóðfélögum sínum. Á Norðurlandaráðsþingi nýafstöðnu þar sem við, hinir kjörnu fulltrúar, vorum að fást við tillögur um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum var lögð á borð okkar tilkynning frá forsrh. Norðurlandanna, þar með talinn náttúrlega okkar eiginn forsrh., hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson. Og hvað skyldi hafa staðið í þessari fréttatilkynningu? Jú, forsrh. Norðurlandanna fagna því að forstjóri Volvo, nafngreindur þar, hefur boðist til að velja hóp forustumanna í efnahagslífinu til að hjálpa norrænum stjórnmálamönnum að leysa efnahagsvandann. Hann má sjálfur nokkurn veginn ráða því hverjir veljast í þennan hóp. Undir þetta skrifar og fagnar hæstv. forsrh. Íslands, Steingrímur Hermannsson. Það er verst að hann skuli ekki vera hér til að segja okkur af hverju hann er svona fagnandi yfir þessum hópi. (Gripið fram í: Þetta er nú ekki mjög nákvæm frásögn.) Þetta er nákvæm frásögn. Ég er með hana hér, ég skal lesa hana upphátt ef menn óska. (Gripið fram í.) Maður hlýtur að spyrja: Hvaða ástæðu hefur hann til þess að vera að þiggja þess háttar aðstoð einkafyrirtækja og stórkapítalismans á Norðurlöndum við úrlausn efnahagsmála fyrir alþýðu manna á Norðurlöndum? Það má kannske segja að það sé sama hvaðan gott kemur, en ég er ekki viss um að sjónarmið þessara ágætu manna komi alþýðu manna sérstaklega mikið við og kynni raunar að vera annað sem þeim gengur til.

Ég held, hv. þm., að við eigum að horfast í augu við að þetta er steingeld pólitík sem hér er rekin. Hér hefur ekki komið fram í dag ein einasta ný hugmynd til að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar. Menn taka aftur það sem þeir sögðu í október. Vikum saman var hótað að fara að taka gjald af sjúklingum og reyna að fá peninga í kassann á þann hátt. Það sá hver heilvita maður að þetta var fáránlegt. Nú hafa þeir gefist upp við það. Ég sé ekki annað en menn séu að snúa frá öllu sem þeir sögðu og standa uppi og segja: Þingið verður bara að leysa þetta. Tveggja milljarða gjöfin, sem hv. þm. Lárus Jónsson sagði að ætti að skila aftur í vasa íslenskrar alþýðu er nú allt í einu búin að fá öfugt formerki. Það þarf að taka tveim milljörðum meira af alþýðunni en haldið var fram 27. okt. Ég vil vekja athygli á þessu.