08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3526 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að votta hv. 10. landsk. þm. innilega samúð mína fyrir að hún skuli þurfa að starfa með svona andlausum samþm., 59 að tölu, eins og kom fram í máli hennar áðan. Ég vona að það komi betri tíð svo að henni líði betur hér í ræðustól eftirleiðis.

Mér þótti rétt að koma aðeins inn í þessar umr. vegna fsp. sem hér hafa komið fram í sambandi við húsnæðismál þó að ég hafi hins vegar ekki ætlað að taka þátt í umr. um fjárlögin á þessu stigi máls.

Hv. 5. landsk. þm. gerði að umtalsefni fréttir eða fréttatilkynningu og samtöl sem komu í Ríkisútvarpinu í gær. Ég ræð auðvitað ekki uppsetningu frétta og að sjálfsögðu er hv. þm. nær þeim vettvangi en ég og kunnugri fyrirkomulagi á fréttastofu útvarps, en látum það vera. Ég get að sjálfsögðu staðfest það sem eftir mér var þar haft og mun halda mig við þá skoðun sem þar kom fram í sambandi við húsnæðismál.

Tilefni þessarar fréttar var að eitt dagblaðið hér, Þjóðviljinn, fullyrti á forsíðu í gær að það vantaði 900 millj. í húsnæðismálin og þar væri eitt stóra gatið til viðbótar. Það er ekkert nýtt að þetta blað sé með viss gífuryrði í sambandi við húsnæðismál eða lausn þeirra. Þetta blað fullyrti á s. l. hausti að ríkisstj. ætlaði alls ekki að standa við loforð sín um viðbótarlán til að létta vanda húsbyggjenda og húskaupenda í landinu. Blaðið sagði að engir peningar væru til og fyrirsagnirnar voru hvað eftir annað: Svik, svik o. s. frv.

Ég vil þó endurtaka það hér, sem raunar hefur komið fram áður, að það voru 4700 lántakendur sem fengu þetta 50% viðbótarlán skv. loforði ríkisstj. Þessar upphæðir voru greiddar út til fólks í des. s. l. og jan. og námu samtals tæpum 290 millj. kr. Ég er ekki í neinum vafa um að þetta hjálpaði mörgum og hefur komið að miklum notum við að leysa það mikla vandamál sem margt þetta fólk átti við að stríða og á við að stríða.

Jafnframt vil ég geta þess í leiðinni, af því að þessi mál ber á góma, að ríkisstj. gerði samkomulag við bankakerfið í landinu um að veita sérstök skuldbreytingalán eða skuldbreytingafyrirgreiðslu til húsbyggjenda. Árangur af þessu var sá að milli 140 og 150 millj. kr. var varið í þessi skuldbreytingalán sem þýddi það að skammtímalánum var breytt í lán til allt að átta ára.

Ríkisstj. ákvað í sept. s. l. að öll húsnæðislán skyldu hækka um 50% frá og með 1. jan. 1984. Jafnframt yrðu ný lán til þeirra, sem eru að byggja í fyrsta sinn greidd í tveim hlutum í stað þess að það hefur verið gert í þrennu og fernu lagi skv. gildandi lögum. Þessi ákvörðun var fyrst og fremst gerð til þess að koma til móts við unga fólkið í landinu sem á vissulega við mjög mikil vandamál að stríða. Uppsetning fjárlaga fyrir árið 1984 og frv. til lánsfjárlaga var miðuð við þessa ákvörðun ríkisstj. Ég tel rétt að lesa hér úr athugasemdum með fjárlögum, sem birtust í fjárlagafrv. á bls. 178, en þar segir svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. hefur samþykkt að öll lán hjá Byggingarsjóði ríkisins verði hækkuð um 50% um n. k. áramót, lánstíminn lengdur og lánin afborgunarlaus fyrstu árin. Þetta eykur fjárþörf til Húsnæðismálastofnunar ríkisins verulega, en hér er um að ræða málaflokk, sem verið hefur í algjörri sjálfheldu, sem mikils er um vert að brjótast út úr, sérstaklega fyrir ungt fólk sem er að hefja lífsstarfið. Með þessum aðgerðum er einnig að því stefnt að jafna aðstoð ríkisins við þá sem byggja eigið húsnæði og þeirra sem fá svonefnt félagslegt húsnæði í verkamannabústöðum.“

Eins og hv. alþm. vita var í fjárlagafrv., samþykktum fjárlögum, í lánsfjáráætlun og í lánsfjárfrv., sem nú liggur til afgreiðslu á Alþingi, gert ráð fyrir að Byggingarsjóður ríkisins hefði yfir að ráða um 1200 millj. kr. og Byggingarsjóður verkamanna um 442 millj. kr. Áætlanir húsnæðismálastjórnar hljóta að sjálfsögðu að taka mið af þessum fjárhæðum og verða endanlega tilbúnar til afgreiðslu þegar lánsfjárlög hafa verið samþykkt á hv. Alþingi.

Mér þykir rétt að fara örfáum orðum um þessa lánsfjáráætlun vegna þeirra ummæta sem hér hafa komið fram um að þessar tölur væru óraunhæfar og mundu ekki standast. Mér þykir þetta harður dómur í raun og veru um afgreiðslu Alþingis á svo veigamiklu máli. Alþingi hefur samþykkt fjárlög og lánsfjáráætlun á undanförnum árum og a. m. k. í sambandi við húsnæðismálakerfið hefur Húsnæðisstofnun miðað sínar áætlanir við þessar samþykktir og í flestum tilfellum hefur það staðist, sbr. t. d. árið 1983.

Af því að fram komu beinar spurningar frá hv. 5. landsk. þm. um þetta mál vil ég aðeins koma inn á þessa þætti að nokkru. Ég vil byrja á lífeyrissjóðum, framlagi lífeyrissjóðanna. Gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðir leggi Byggingarsjóði ríkisins til 525 millj. kr. og Byggingarsjóði verkamanna um 165 millj. kr. Þetta eru stórar upphæðir miðað við það sem hefur verið undanfarin ár og þess vegna var eðlilegt að bæði hæstv. fjmrh. og félmrh. vildu kanna gaumgæfilega hvort þessar upphæðir gætu kallast raunhæfar. Þess vegna voru fulltrúar lífeyrissjóðanna boðaðir til funda bæði í desember og aftur í janúar til þess að kanna nákvæmlega hvernig menn vildu standa að þessari fjáröflun. Miðað við þær niðurstöður, sem fengust út úr þessum fundarhöldum í lok janúar, vorum við, bæði hæstv. fjmrh. og félmrh., sannfærðir um það af fulltrúum lífeyrissjóðanna að staðið yrði við þessa fjárhæð.

Ég vil geta þess til fróðleiks hvernig viðbrögðin hafa breyst hjá þessum aðilum miðað við það sem af er þessu ári borið saman við sama tímabil á árinu 1983. Í janúar og febrúar 1983 greiddu lífeyrissjóðir til þessara byggingarsjóða 36 millj. kr. En núna í janúar og febrúar 1984 var greiðslan frá þessum sömu lífeyrissjóðum tæpar 100 millj. kr. Þetta bendir ótvírætt til þess að þessir aðilar ætli að standa við það loforð sem þeir hafa gefið og ég hef enga ástæðu til að draga í efa að svo verði.

Í sambandi við upphæðina úr Atvinnuleysistryggingasjóði get ég viðurkennt að óvissa er vissulega mikil í sambandi við þá fjárhæð vegna þess að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur tekið gífurlega miklar byrðar á sig í sambandi við það atvinnuleysi sem hér hefur ríkt. Ég vil geta þess af gefnu tilefni að ég hef tekið það fram bæði í sambandi við uppsetningu á lánsfjáráætlun og á frv. til lánsfjárlaga að ég liti svo á að ef Alþingi samþykkti lánsfjáráætlun með þessari upphæð inni væri ríkissjóður ábyrgur fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður gæti staðið við þessar skuldbindingar. Það er óbreytt skoðun hjá mér og ég hef gert grein fyrir henni bæði í ríkisstj. og eins í yfirheyrslu hjá fjh.- og viðskn. Nd.

Skyldusparnaðurinn er vissulega fjárhæð sem getur tekið breytingum. Það er dálítið furðulegt til þess að vita að veltan á skyldusparnaði verður sennilega á þessu ári 600–650 millj. kr. En miðað við s. l. ár fer þessi upphæð inn og út með tiltölulega reglulegum hætti. Ég tel að þarna þurfi að gera vissar breytingar. Í nýju frv. til l. um húsnæðismál er gerð nokkur tilraun til að stöðva þetta fjármagn eða réttara sagt að hamla því að það sé tekið eins ört út og gert er í dag. Vel má vera að sú upphæð, sem hér er sett upp, standist ekki en ég tel ekki ástæðu til að draga í efa að hún geti staðist, að þarna verði um að ræða 45 millj. sem raunverulega koma þessu kerfi okkar að notum. Ég tel enga ástæðu til að vefengja að svo geti orðið.

Um aðra fjáröflun tel ég ekki ástæðu til að fjalla hér. Ég vil þó geta þess að skv. ákvörðun ríkisstj. hafa viðskrh. og félmrh. fengið það hlutverk að ná samningum við bankakerfið í landinu, Seðlabankann og viðskiptabankana, um að bankarnir taki að sér að fjármagna framkvæmdalán í sambandi við byggingarmálin, þ. e. til framkvæmdaaðila í byggingariðnaðinum. Gert er ráð fyrir að þetta sé á bilinu 120–140 millj. kr. Við höfum átt viðræður við fulltrúa bankanna um þetta atriði og ég tel ekki ástæðu til að ætla annað en að nokkur árangur verði af þessum viðræðum. Þegar hefur komið fram að árangur er farinn að skila sér til a. m. k. tveggja aðila í þessari grein. En þessum viðræðum verður haldið áfram og við gerum ráð fyrir því að reyna að ná föstum samningum um þetta atriði. Það er mikilvægt og er nýtt í húsnæðiskerfinu ef það tekst. Ég vonast til að svo verði.

Ég sé ekki ástæðu til að fara á þessu stigi að ræða þetta nánar. Ég geri ráð fyrir því að ég komi inn á þessi mál n. k. þriðjudag í sambandi við fsp. um þetta. Þá mun ég ræða þetta á ítarlegri hátt en hér hefur verið gert. Ég vil þó segja að ég vænti þess að hið nýja frv. um húsnæðismál fái framgang á þessu þingi. Það inniheldur vissa stefnubreytingu í sambandi við þessi mál og ekki hvað síst miklu meiri festu í fjármögnun húsnæðismálakerfisins ef það nær fram að ganga. Ég vænti þess að um það verði samkomulag hér á hv. Alþingi.

Freistandi hefði verið að ræða þetta meira en ég sé að tíminn er að hlaupa frá okkur. Ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Ég vil þó aðeins segja við hv. 10. landsk. þm. af því að hún beindi til mín fleiri atriðum: Að sjálfsögðu er mér ljóst að undir félmrn. heyra ýmis mál á fétagslega sviðinu og ég mun leggja mig fram um að leysa ýmis þau mál. En ég vil segja það í sambandi við fæðingarorlofið, af því að hún gerði það sérstaklega að umræðuefni hér, að e. t. v. hefur hún ekki tekið eftir því að þetta er eitt af þeim málum sem ríkisstj. setti á sína stefnuskrá, að endurskoða lögin um fæðingarorlof. Eins og ég gaf yfirlýsingu um hér á s. l. hausti lagði ég fram sérstakt frv. samhljóða því sem ég hafði barist fyrir gegn andstöðu hennar, hv 10. landsk þm., árangurslaust að koma í gegn hér á Alþingi. Ég lagði það frv. fram í ríkisstj. og hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur þetta mál nú til meðferðar í þeirri endurskoðun sem stendur yfir á lögum um fæðingarorlof. Ég vænti þess fastlega að sú stefna, sem ég hef í þessu máli, verði sigursæl þrátt fyrir andstöðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur.

Ég held, herra forseti, að ég tefji þessar umr. ekki frekar. En ég vil endurtaka að ég hef þá skoðun að ef fjárlög og lánsfjárlög verða samþykkt með þeim fjármunum sem þar eru til teknir til húsnæðismála verði hægt að standa í meginatriðum við það sem ríkisstj. hefur lofað í sambandi við húsnæðismálin. Með samþykkt nýs frv. á Alþingi um húsnæðismál munum við taka enn þá sterkari tökum framtíðarstefnu í húsnæðismálum, bæði á félagslegu sviði og eins fyrir einstaka húsbyggjendur.