08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3529 í B-deild Alþingistíðinda. (3020)

378. mál, ríkisfjármál 1983

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Í upphafi máls míns langar mig aðeins til að benda á þá skringilegu staðreynd að um leið og við erum að ræða hér skýrslu hæstv. fjmrh. um götin í fjárlögunum leggur sá sami ráðh. fyrir okkur frv. til l. um heimild fyrir fjmrh. f. h. ríkissjóðs til þess að ábyrgjast lán fyrir Arnarflug hf. upp á 1.5 millj. Bandaríkjadala. Ekki virðist geigurinn vera mikill í mönnum að taka á sig digrar ábyrgðir af rekstri fyrirtækja sem ekki geta náð einu sinni inn fyrir þeim kostnaði sem af rekstrinum hlýst, þ. e. fyrirtækið er raunar á hausnum, enda engin furða því að allir þekkja hvernig til þessa fyrirtækis var stofnað þar sem því var bjargað úr einu skuldafeninu yfir í annað.

Flestir, sem hér sitja inni, þekkja myndskreytingar Walt Disneys við nokkur tónverk heimsbókmenntanna sem kallast Fantasía. Eitt af þeim verkum sem þar er myndskreytt heitir Lærisveinn galdramannsins. Allir þekkja örlög þessa litla lærisveins sem fór af stað í hlutverki galdramannsins og missti stjórn á verkefni sínu og varð reyndar bjargað á endanum af galdramanninum sjálfum. Munurinn á þessu litla verki og því sem hér er verið að tala um er sá að hér er ekki von á neinum galdramanni sem bjargar okkur á endanum. T. d. er borin von að hér komi nokkur galdramaður og selji u. þ. b. 15 togara til þess að fylla upp í það gat sem hér er verið að tala um. En það var upplýst áðan að þær upphæðir munu nánast á jöfnu.

Það sem við hefur blasað s. l. tíu ár virðist vera að til sé orðin þarna uppi í stjórnarráði ákveðin forskrift að stjórnun íslenska ríkisins sem menn ekki geta komist út úr. Þessi forskrift er tiltölulega einföld. Hún er í raun og veru skattlagning. Hún heitir reyndar mismunandi nöfnum. Það er gengisfelling, sem er náttúrlega skattlagning á þegna landsins. Hún heitir kjaraskerðing, sem er annað skref yfirleitt sem er líka skattlagning með einum hætti. Síðan koma félagsmálapakkar, þá er fært úr einum vasa skattþegans yfir í annan. Síðan kemur niðurskurður, sem er náttúrlega skattlagning að því leyti að tekjumöguleikar minnka. Og síðan kemur raunveruleg skattahækkun, það er ekki um neitt að ræða annað, þar er bein skattlagning á ferðinni. Það er trúlega sú lausn sem við eigum eftir að horfa upp á núna á næstunni. Þegar öll þessi ráð eru búin — þau eru ca. fimm — hefst hringavitleysan aftur með annarri gengisfellingu, kjaraskerðingu og félagsmálapökkum og svo áfram.

Sú staðreynd, sem hér liggur fyrir, er einfaldlega sú að núv. ríkisstj. er jafnmáttlaus og vanhæf til að stjórna og ríkisstj. fyrri ára. Hún á engin önnur úrræði heldur en ríkisstj. fyrri ára. Hún hefur gert sér sjálfri að vissu leyti erfiðara fyrir vegna þess að með kjaraskerðingunni lækkaði verðbólgan þannig að ágallar verksins verða augljósir. En ágallarnir og úrlausnirnar eru nákvæmlega þær sömu og verið hafa undanfarin tíu ár.

Ef við gefum okkur að ásetningur ríkisstj. sé yfirleitt góður hefur þeim öllum mistekist. Nú eru menn reyndar yfirleitt ekki sammála um að ásetningur ríkisstj. sé jafngóður. Þá skulum við aðeins gera ráð fyrir að þessi ríkisstj. hafi haft góðan ásetning, um það eru menn reyndar ekki heldur allir sammála. Hver er þá niðurstaðan? Jú, hún er einfaldlega áframhaldandi sú að þessi ríkisstj. ræður ekki við verkefni sitt frekar en fyrri ríkisstj.

Hvers vegna ræður þessi ríkisstj. ekki við verkefni sitt? Jú, hana skortir einfaldlega til þess umboð. Flokksræðið stendur lýðræðinu fyrir þrifum. Flokkar sem eru fastnjörvaðir við hagsmunasamtök með þeim hætti sem gerist í íslenskum stjórnmálum eru þess ekki megnugir að stjórna að eigin vilja. Flokkar sem eyða jafnmiklu af orku sinni í hagsmunapot, eins og gerist í íslenskum stjórnmálum, hafa einfaldlega ekki tíma til að stjórna. Flokkar þar sem einstakir þm. innan þinghússins hafa mismunandi gengi, þar sem reglan er nánast sú að þingmannafjöldi einstakra kjördæma er í öfugu hlutfalli við atkvæðafjölda sama kjördæmis, slíkir flokkar hafa engar ástæður til að hlíta lögmálum lýðræðisins. Þ. e. meirihlutavilji nær aldrei fram að koma í þessu stjórnkerfi sem við búum við. Lýðveldissinnar, lýðræðissinnar, jafnaðarmenn eru hér að viðhalda stjórnkerfi miðstýringar og valdbeitingar hinna fáu sem þar að auki ekki ráða við verkefni sitt. Þetta vald vilja þeir samt sem áður ekki láta af hendi til smærri eininga eða landshluta, sveitarfélaga eða samtaka þeirra því að valdið er þeim of kært.

Það sem hér er til umr. er ekki nýtt. Hér er einfaldlega um það að ræða að ríkisbáknið er orðið svo bólgið að fámennur valdahópur á þess ekki kost að hafa yfirsýn. Á því er ekki nema ein lausn, þetta vald verður að brjóta niður og dreifa þessu valdi til fleiri aðila. Fólkið verður að fá að stjórna sjálft.