08.03.1984
Sameinað þing: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3532 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

233. mál, útflutningur iðnaðarvara

Flm. (Bragi Michaelsson):

Herra forseti. Á þskj. 408 hef ég ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e., Halldóri Blöndal, flutt svohljóðandi þáltill., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna með hvaða hætti megi auka útflutning á íslenskum iðnaðarvörum sem nú eru að litlu leyti fluttar á erlenda markaði, svo sem húsgögnum, innréttingum, sælgæti og öðrum er ætla má að eigi nokkra möguleika í útflutningi.“

Í grg. segir m. a.: „Í þáltill. þessari er gert ráð fyrir að ríkisstj. verði falið að kanna leiðir til að auka útflutning á iðnaðarvörum. Margar orsakir liggja til þess að brýn nauðsyn er nú á því að auka slíkan útflutning og renna þannig fleiri stoðum undir gjaldeyrisöflun okkar. Á allra næstu árum mun fólki á vinnumarkaði hér á landi fjölga allmikið. Eins og málum er nú komið hér innanlands eru líkur á aukinni sölu iðnaðarvara umfram fólksfjölgun hverfandi, en ætla má að verulegir möguleikar séu fyrir hendi á útflutningi.

Allt frá þeim tíma er Íslendingar gerðu samninga um fríverslun hefur íslenskur iðnaður verið að þróa framleiðslu sína og gera hana samkeppnishæfa. Nú eru hér komnar á markað vörur sem eru vel samkeppnishæfar, bæði á markaði hérlendis og til útflutnings. Framleiðendur í iðnaði hafa gert tilraunir með útflutning, en með misjöfnum árangri. Framleiðsla húsgagna hér á landi hefur á síðari árum tekið miklum framförum og eru framleiðendur nú að hefja útflutning til Bandaríkjanna. Ullarvörur hafa um alllangt skeið verið fluttar út með góðum árangri og verið eftirsóttar og fleiri dæmi mætti nefna er benda til þess að við Íslendingar ættum að geta komið framleiðsluvörum okkar í auknum mæli á erlenda markaði og bætt hér lífskjör sem rýrnað hafa með minnkandi sjávarafla.“

Skv. upplýsingum frá Landssambandi iðnaðarmanna voru hér á landi starfandi í greininni er flokkast undir annan iðnað 15.5% 1960. Á sama tíma voru 10.1% starfandi í fiskiðnaði, 8.2% við fiskveiðar, 16% í landbúnaði, 10.7% í byggingarstarfsemi og 39.5% í þjónustugreinum. Á árinu 1981 var þessi skipting þannig, að 16.6% störfuðu við annan iðnað, 9.1% í fiskiðnaði, 5% við fiskveiðar, 7.4% við landbúnað, 52.1% í þjónustugreinum og 9.8% í byggingarstarfsemi. Eins og fram kemur hér að ofan hefur aukning orðið mest í þjónustugreinum og ljóst er að það verður að hægja á í þjónustugreinunum þar sem þjóðarbúið þolir ekki lengur að aukning verði með þeim hraða í þeim greinum.

Í grg. er mælst til þess að stjórnvöld efni til kynningar á íslenskum iðnaðarvörum á erlendum mörkuðum í samvinnu við Útflutningsmiðstöð iðnaðarins og Félag íslenskra iðnrekenda. Slíkar kynningar hafa einmitt átt sér stað oft og víða síðan Útflutningsmiðstöð iðnaðarins var sett á stofn skv. lögum nr. 14 frá 1971. Má þar til nefna Scandinavia Today í Bandaríkjunum á s. l. ári. Þessi starfsemi hefur náð til þeirra iðnaðarvara sem möguleiki hefur verið talinn á að hefja útflutning á og hefur nú borið verulegan árangur.

Hin gífurlega aukning á útflutningi ullarvara er gott dæmi um það hvað hefur tekist að gera á erlendum mörkuðum og hefur Útflutningsmiðstöðin átt þátt í þeirri þróun. Hún hefur einnig unnið að því að greiða fyrir sölu á öðrum iðnaðarvörum sem talinn er möguleiki á að framleiða til útflutnings. Árangur af þeirri starfsemi hefur að sjálfsögðu verið nokkuð mismunandi, en vörutegundum hefur fjölgað og gætir nú nokkru meiri bjartsýni um iðnaðarvöruútflutning eftir að tekist hefur að koma efnahagsmálum okkar hér innanlands í sæmilegt horf.

Annað þýðingarmikið mál er varðar útflutning er hönnun þeirra iðnaðarvara sem á boðstólum eru til útflutnings. Í ullariðnaði hefur íslenskum hönnuðum tekist að koma á markaðinn vörum sem eru eftirsóttar sem góð vara. Nýlega hefur Íslendingur fengið verðlaun erlendis fyrir hönnun á stól sem þykir eftirtektarverður hvað hönnun varðar. Á þessu sviði verðum við að leggja enn meiri áherslu á hagkvæmni.

Þá þarf að skipuleggja betur sölukerfi á iðnaðarvörum okkar og ráða í þjónustu okkar sérhæfða sölumenn til að starfa erlendis. Það er þó ekki svo að íslensk stjórnvöld hafi ekki unnið þessum málum brautargengi. Þýðingarmestir fyrir útflutning iðnaðarvara eru án efa samningar um fríverslun við EFTA og Efnahagsbandalagið, sem hafa tryggt tollfrjálsan innflutning á íslenskum iðnaðarvörum í 16 Evrópulöndum.

Í viðskiptaviðræðum við erlend ríki hafa stjórnvöld kynnt vörur sem Íslendingar geta framleitt. Má í því sambandi minna á að utanríkisþjónustan hefur reynt að vinna að þessum málum og sinnt tilmælum sem sendiráðum berast frá íslenskum iðnfyrirtækjum. En þótt hið opinbera sé reiðubúið til að veita ýmiss konar aðstoð er þó mest undir framleiðendum sjálfum komið, bæði hvað snertir framleiðslu og markaðsstarfsemi. Nýjasta dæmið í viðleitni stjórnvalda við að efla útflutning er það samkomulag, sem náðst hefur á vegum ráðherranefndar Norðurlandaráðs að frumkvæði viðskrh. í Norðurlandaráði, að kosta markaðsátak í sölu íslenskra framleiðsluvara til Norðurlandanna. Í þessu skyni á að verja á næstu 15 árum 1 millj. norskra kr. eða 3.8 millj. ísi. kr. Helmingurinn af kostnaðinum verður greiddur af fjármunum Norðurlandaráðs, en hinn helmingurinn af okkur og hefur Norræni iðnþróunarsjóðurinn þegar samþykkt að leggja fram 300 millj. n. kr. í þessu skyni. Ég vænti þess eindregið að íslenskur iðnaður notfæri sér þetta tækifæri og það beri verulegan árangur í aukinni sölu á framleiðsluvörum okkar til Norðurlanda og komi á nánara samstarfi milli íslenskra fyrirtækja og fyrirtækja á hinum Norðurlöndunum.

Hér innanlands hefur verið unnið að því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem á undanförnum árum hafa komið ranglátt niður á íslenskum iðnaði, svo sem með leiðréttingu á tollum. Stöðug gengisskráning og minni verðbólga hefur virkað sem hvati fyrir íslenskan iðnað.

Samt sem áður verða hv. alþm. að hafa í huga að við verðum sífellt að vera vakandi gagnvart nýjum tækifærum til að bæta hag okkar.

Í fskj. sem fylgir með þessari till. er vikið að vörusýningu í Bella Center í Kaupmannahöfn í maí árið 1983. Þar tókst íslensku fyrirtæki að gera samning um sölu á húsgögnum til Bandaríkjanna. Það er í fyrsta skipti sem tekist hefur síðan farið var að selja húsgögn skipulega á erlendum vörusýningum. Áætluð sala gæti numið um 2 millj. Bandaríkjadala hjá þessu eina fyrirtæki.

Herra forseti. Með þessum orðum mínum hef ég viljað benda á að nokkuð hefur verið unnið að þeim málum sem þáltill. fjallar um. En þó eru ónýttir margvíslegir möguleikar til að auka á fjölbreytni í útflutningi á íslenskum iðnaðarvörum, ekki síst í Bandaríkjunum og Kanada.

Í lögum nr. 86 frá 31. des. 1981, um iðnráðgjafa, er gert ráð fyrir að samtök sveitarfélaga í landshlutum eða iðnþróunarfélög geti ráðið iðnráðgjafa til starfa á sínum vegum og er heimilt að greiða úr ríkissjóði framlag vegna starfa þeirra svo og kostnað við samræmingu. Samtök sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að sækjast eftir að fá slíkan iðnráðgjafa. Enn hefur ekki fengist fjárveiting fyrir ráðningu hans. Það er skoðun mín að iðnráðgjafi geti skilað góðum árangri hvað varðar þetta mál og starfað í nánu samstarfi við atvinnumálanefnd Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en eins og kunnugt er er höfuðborgarsvæðið stærsta samfellda atvinnusvæðið hér á landi og hefur því mesta möguleika á að efla útflutning á iðnaðarvörum.

Vissulega er alltaf álitamál hversu miklu fé eigi að verja til markaðsöflunar erlendis. Með hliðsjón af því hversu einhæfir atvinnuvegir okkar eru er ég þeirrar skoðunar að ekki sé nóg að gert í þeim efnum og að það fé sem til markaðsmála erlendis er varið skili sér margfalt aftur í þjóðarbúið og treysti þannig grundvöll íslensks atvinnulífs. Með það í huga ætla ég að treysta því að hið háa Alþingi taki þáltill. þessa til vinsamlegrar athugunar og að henni verði fylgt eftir með auknu fjármagni á fjárlögum næsta árs í því skyni að afla nýrra og aukinna markaða fyrir iðnaðarvörur okkar erlendis.

Að lokum legg ég til, herra forseti, að till. verði vísað til atvmn.