12.03.1984
Efri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3633 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

240. mál, ábyrgð á láni fyrir Arnarflug

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég á reyndar sæti í þeirri nefnd sem um þetta mál fjallar, en vildi beina þeirri beiðni strax til hæstv. fjmrh., vegna þess að mér finnst alveg sjálfsagt að skoða þetta mál ítarlega, hvort hann geti ekki strax orðið a. m. k. nm. fjh.- og viðskn. innan handar með að útvega þeim rekstraráætlanir Arnarflugs fyrir 1984–85, þannig að maður megi kynna sér þetta mál með sem beinustum hætti og gera þar með upp við sig hvort ríkisábyrgð er gerleg. Það má allavega ætla það, án þess að hafa þá yfirsýn sem ég er hérna að biðja um, að eiginfjárstaða fyrirtækisins sé með þeim hætti að ekki sé hægt að taka veð í eignum þess fyrir þessari upphæð og því sé þessi beiðni trúlega til komin. Verður þá að skoða mjög náið hvort rekstraráætlunin gefur tilefni til að ætla að félagið klári sig fram úr þessum vanda á næstu tveim árum. En sé það svo finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að veita þessa heimild.