12.03.1984
Efri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3634 í B-deild Alþingistíðinda. (3031)

219. mál, bókasafnsfræðingar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um bókasafnsfræðinga, sem er 219. mál þessa þings. Þetta er eitt af þeim málum sem fjalla um lögverndun starfsheitis eða öllu heldur heitis sem felur á bak við sig tiltekna menntun. Það hafa risið nokkrar deilur eða ágreiningur um það hvað stendur á bak við starfsheitið bókasafnsfræðingur og frv. þetta er flutt til þess að taka af tvímæli um það. Það er í fyrsta lagi að menntmrh. þarf að gefa út leyfi til þess að maður geti kallað sig bókasafnsfræðing. Ekki er um það að ræða að þetta frv. fjalli um starfsréttindi heldur einungis réttindi til þess að nota þetta starfsheiti. Aftur á móti geta önnur lög fjallað um réttindi sem bundin eru þessu starfsheiti.

Greint er frá þeim skilyrðum sem sett eru skv. þessu frv. í 2. gr. þess til þess að menn megi kallast bókasafnsfræðingar. Þau eru í fyrsta lagi að maður hafi lokið BA-prófi frá Háskóla Íslands með bókasafnsfræði sem aðalgrein, en það eru a. m. k. 60 einingar skv. núgildandi reglugerð Háskóla Íslands eða 3 stig skv. eldri reglugerð. Í öðru lagi þeir sem tekið hafa lokapróf frá háskóla og a. m. k. 60 einingar í bókasafnsfræði við Háskóla Íslands. Í þriðja lagi þeir sem lokið hafa hliðstæðu prófi erlendis, sé námið viðurkennt sem slíkt af yfirvöldum þess lands þar sem námið er stundað. Í fjórða lagi þeir sem hafa lokapróf frá háskóla og framhaldspróf í bókasafnsfræði til viðbótar. Áður en leyfið er veitt skv. 3. og 4. lið, þ. e. þeim sem hafa lokið prófi erlendis eða hafa lokið háskólaprófi og eru með framhaldsgráðu, skal leita umsagnar Félags bókasafnsfræðinga og fastra kennara í bókasafnsfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands.

Að öðru leyti er þetta frv. sams konar og svo mörg frumvörp sem flutt hafa verið um réttindi til þess að bera tiltekið starfsheiti sem tákni tiltekna menntun. Um það fjallar þetta frv. og annað ekki.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að óska þess að frv. verði vísað til 2. umr. og legg til að því verði vísað til menntmn.