12.03.1984
Efri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3637 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

201. mál, vörumerki

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Virðulegi forseti. Í frv. þessu felst sú breyting að niður er felld heimild til málskots til ráðh. í ágreiningsmálum sem varða vörumerki. Í stað þess er sett á stofn svokölluð áfrýjunarnefnd sem á að úrskurða í málum þessum. Ástæðan er talin sú að vörumerkjamál séu nú í höndum starfsmanns rn. og því sé ráðh. ekki eðlilegt áfrýjunarstig. Sé því meira réttaröryggi fólgið í því að skjóta megi málinu til sérstakrar áfrýjunarnefndar. Nokkur kostnaður mun leiða af þessari nýju skipan en þó ekki verulegur. Fram kemur í athugasemdum að það eru ekki nema eitt eða tvö mál á ári hverju sem vísað er til ráðh. Að vísu má gera ráð fyrir því að þeim fjölgi eitthvað þegar hin nýja skipan er tekin upp.

Í vörumerkjalögunum segir í 2. mgr. 12. gr.: „Skráninguna annast vörumerkjaskrárritari er ráðh. skipar.“ Trúlega hefur verið gert ráð fyrir því að vörumerkjaskrárritari væri sjálfstæður og óháður en ekki starfsmaður rn. En framkvæmdin hefur orðið á annan veg svo sem greint var og lýst er í athugasemdum.

Allshn. telur að eins og framkvæmd þessara mála er nú háttað horfi sú skipan sem frv. gerir ráð fyrir til aukins réttaröryggis í þessum mátum og leggur því til að frv. verði samþykkt.