12.03.1984
Neðri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3639 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

155. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að ég var farinn að taka fyrir þáttinn hvert við stefndum. Mér þykir rétt í því sambandi að víkja hér örlítið að mannfjölda á Íslandi og atvinnuskiptingu þess mannfjölda sem er í landinu.

Árið 1982 voru Íslendingar 235 501. Það er talið að árið 1987 verði þeir orðnir 247 352, og 1992 verði þeir orðnir 257 727, 1997 265 357 og árið 2002 verði íbúar á Íslandi 273 827. Þetta er út af fyrir sig ekki mjög mikil breyting. Það er talið að þarna muni fjölga um tæp 40 þúsund. En það er athyglisvert að skoða hina sömu spá um Reykjavík, án þess að þar sé gert ráð fyrir neinum flutningum frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, og miða aðeins við það svæði sem ég kalla hitaveitusvæði Reykjavíkur. Þar er að vísu Bessastaðahreppur undanskilinn og í almennri spá um stór-Reykjavík er t. d. Mosfellssveitin yfirleitt höfð með og einnig íbúafjöldi á Kjalarnesi en það geri ég ekki hér. Það er gert ráð fyrir að fjölgunin verði sú á þessu svæði: Árið 1982 voru íbúar 121 742, árið 1987 verði þeir orðnir 127 703 og árið 1992 verði íbúarnir orðnir 132 556, árið 1997 verði þeir 135 643 og árið 2002 verði þeir 138 841.

Þetta mundi vera spá um að hér héldust svipuð hlutföll og er í dag á milli svæða. Það er aftur á móti ekkert sem bendir til þess að svo verði ef stefnan er óbreytt gagnvart stjórnskipulagi landsins.

Ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp atvinnuskiptinguna árið 1982, þ. e. við hvað Íslendingar starfa, og bera svo saman annars vegar höfuðborgarsvæðið og hins vegarlandsbyggðina.

Atvinnuskiptingin er þessi: Í landbúnaði eru 8.3% þjóðarinnar, við fiskveiðar 4.8, við fiskvinnslu 8.7, við iðnað 14.5, við veitukerfi 1%, við byggingar 10%, við verslun 13.4%, við samgöngur 7.2, banka og fleira 5.8 og þjónustu 26.4%.

Ég ætla þá að lesa næst hvernig skiptingin er á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu er nú landbúnaðurinn lítill, 0.7%. Það er rétt að fram komi varðandi þessar tölur og höfuðborgarsvæðið að tekin er með Mosfellssveitin, Bessastaðahreppur og einnig byggðin undir Esjunni, þar sem þéttbýlismyndun er tengd þessu svæði. — En landbúnaðurinn var sem sagt 0.7%, fiskveiðar 1.8%, fiskvinnsla 2.9%, iðnaður 16.7%, veitur 0.9, byggingar 9.7, verslun 17.2, samgöngur 9%, bankar 8.5 og þjónusta 32.6%. — Ef við leggjum saman þann mannafla sem er í verslun, samgöngum, bönkum og þjónustu starfa hér í Reykjavík við þessar greinar 67.3% vinnufærra manna.

Tökum aftur á móti hvernig þetta skiptist á landsbyggðinni: Í landbúnaði eru 16.8%, í fiskveiðum 8, í fiskvinnslu 15.1, í iðnaði 12.1, í veitum 1%, í byggingariðnaði 10.4 og í verslun 9.1, í samgöngum 5.2, í bönkum 2.8 og í þjónustu 19.5 eða samtals 36.6%.

Það er athyglisverð staðreynd að allt tal um að mannafli á Íslandi muni fyrst og fremst bætast við í iðnaði fær ekki staðist. Ég vil í því sambandi minna á að árið 1950 vann 21.3% af Íslendingum við iðnað, en samkv. sömu skilgreiningu í dag yfir landið allt ekki nema 14.5%. Þar er að vísu byggingariðnaðurinn fyrir utan í báðum tilfellum.

Það blasir þess vegna við að sú mannfjöldaaukning sem fer í gegnum menntakerfi landsins mun skila sér fyrst og fremst í störfum í þjónustu. Við höfum heyrt að það sé vilji fyrir því í stjórnarskrárnefnd að taka upp meira sjálfstæði fyrir sveitarfélögin, veita þeim meiri rétt til ákvarðanatöku, auka verkefni þeirra o. s. frv. en sannleikurinn er sá, að þó að við mundum auka verkefni sveitarfélaganna í þeirri mynd sem þau hafa í dag mundi það ekki skila neinu í þeirri þróun að skapa þann starfsgrundvöll úti á landi fyrir þjónustustörf sem tryggði að sá hópur Íslendinga sem færi til mennta af þessum svæðum skilaði sér aftur til þeirra í störfum. Það blasir við að slíkt gerist ekki. Við erum búnir að útbúa okkur miðstýrt kerfi sem tryggir að velflestir æskumenn dreifbýlisins, sem fara til mennta, munu leita sér að störfum við sitt hæfi og íslenska þjóðfélagið útbýr slík störf fyrst og fremst á þessu svæði. Eins og ég sagði áðan erum við komnir með 67% vinnufærra manna í þjónustustörf á stór-Reykjavíkursvæðinu.

Ég hygg að hver og einn sem hugleiðir þetta geri sér grein fyrir að fyrir dreifbýlinu er að fara nákvæmlega eins og fyrir eigendum í hlutafélagi þar sem margir aðilar áttu félagið einu sinni. Það er liðin tíð. Einn aðili er að fá meirihlutavald sem þýðir að hann mun einn drottna og segja fyrir um hvernig hann ætlar að stjórna hlutafélaginu í framtíðinni. Alveg eins blasir við að Sunnlendingafjórðungur einn ræður öllu um hvernig staðið verður að málum í framtíðinni. Þetta er endanlegt valdaafsal til eins fjórðungs frá hinum.

Þá hlýtur fyrsta spurningin að vera hvort þetta verði til að hraða þeirri þróun, sem verið hefur, að við byggjum upp þjónustuna á ákveðnum stað eða hvort við gerum ráð fyrir að draga muni úr því. Ég er sannfærður um að fyrst um sinn verður þetta til að ýta undir að við byggjum upp þjónustuna hér eingöngu.

Ég hygg aftur á móti að þegar efnahagsleg hliðarverkun fer að verða meira ríkjandi og menn fara að spyrja sig í meiri alvöru að því hvort það verði til farsældar fyrir höfuðborgarsvæðið ef við höldum áfram að veikja hin svæðin, þá muni menn e. t. v. fara að leita eftir einhverjum sérfræðingum erlendis frá til að segja fyrir um hvers vegna þetta sé orðið svona.

Það blasir þess vegna við, að mínu viti, að mannfjöldaspá sem gerir ekki ráð fyrir flutningum á milli svæða, ef þetta verður að veruleika, er í öllum aðalatriðum röng.

Nú er það annað, sem allir vita sem hafa fylgst með þróun mannflutninga á Íslandi, að alveg eins og Eyjafjarðarsvæðið sækir til Akureyrar, ef maður flytur frá þorpum við Eyjafjörð eru mestar líkur á að hann fari til Akureyrar, alveg eins hefur þetta verið á hinum ýmsu stöðum á Íslandi. Úr uppsveitum Árnessýslu hafa menn sótt niður til Selfoss til dæmis, menn við Skarðsheiðina hafa flutt að Akranesi og líka hingað suður og úr Mýrasýslu hafa menn flutt í Borgarnes. Næsti flutningaþáttur er aftur á móti sá, að menn flytja frá miðstöðvum sem þessum til Reykjavíkur. Spurningin er aðeins þessi og því skyldu menn gera sér grein fyrir: Hvaðan hafa fólksflutningar til útlanda átt sér stað á undanförnum áratugum? Það er talið að yfir 90% af því fólki sem flutt hefur frá Íslandi til útlanda hafi flutt af stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta þýðir að ef við höldum áfram að þróa þetta þjóðfélag upp í borgríkismynd, eins og verið er að gera, erum við jafnframt að veikja sjálfstæði þess að auka hættuna á því að menn muni í stórum stíl, ef erfiðleikar koma yfir þjóðfélagið, hreinlega flytja af Reykjavíkursvæðinu og út.

Ég hef horft á örfáar tilraunir sem átt hafa sér stað úti á landi til að draga úr því að allt fari í gegnum Reykjavik. Það er t. d. athyglisvert að sjá það samstarf sem Færeyingar og Austfirðingar eiga um beinar siglingar til Austfjarða. En það er jafnathyglisvert að til þess að þær eigi sér stað þarf að sigla undir færeyskum fána og hafa rekstrarfé erlendis frá. Íslenskir bankar eru yfir höfuð ekki til viðtals um að standa þannig að málum að gengið sé fram hjá höfuðborginni. Og hver voru viðbrögðin hér heima gagnvart þessum siglingum? Jú, það var ákveðið að hrinda á stað samkeppni frá Reykjavík, sem aftur á móti rúllaði vegna þess að menn gerðu sér ekki grein fyrir því að útgerðin byggðist fyrst og fremst á því að flytja útlendinga til landsins. En það er ekkert sem segir að í beinu framhaldi af slíkum flutningum væri ekki hægt að lengja þær skipaferðir til Akureyrar, til Ísafjarðar og þaðan til Grænlands og tengja þannig beina flutningaleið meðfram norðurströnd Íslands allt til Grænlands.

Ég hygg að hver og einn sem vill skoða þessi mál út frá því sjónarmiði að það eigi að halda áfram að jafna kostnað í þessu landi geri sér grein fyrir að landsbyggðin getur aldrei unað því til lengdar að vöruverð úti á landi sé hærra en í Reykjavík. Það gengur einfaldlega ekki upp að verkamaðurinn sem þar vinni fái minna fyrir sín laun en sá sem býr annars staðar. Það hlýtur að leiða til búferlaflutnings. Ef ástæðurnar fyrir því að þannig er að málum staðið eru fyrst og fremst skipulagslegs eðlis, en ekki byggðar á neinu öðru, þá hlýtur það kerfi fyrr eða síðar að springa. Það fær ekki staðist að hægt sé að viðhalda því.

Ég er jafnsannfærður um hitt, að það fer ekki fram nú nein umræða af viti um stjórnarskrárbreytingar í þessu landi. Það er engin umræða af viti til. Það er engin hugsun á bak við hvernig er skynsamlegast að standa að þeirri stjórnarskrá sem menn eru að tala um að koma hér á. Það er eins og stór hópur Íslendinga geri sér enga grein fyrir því hver er munurinn á borgríki og lýðveldi. Osló er þó ekki nema 20% af Noregi. Það er svo langt í land að þeir geti drottnað yfir landinu öllu. Hér horfa menn kalt á að nýlendustefnan heldur áfram og það er drottnað yfir landinu öllu frá ákveðnu svæði, en að nokkrum detti í hug að þetta sé bein afleiðing af stjórnarfarslegum aðgerðum, eins og því að byggja svo upp þjónustu hér á þessu svæði að 67% af verkfærum mönnum séu komnir í þjónustustörf á stór-Reykjavíkursvæðinu, það er eins og það sé enginn skilningur á því og að slíkt steypi endanlega kerfinu.

Að mínu viti er aðeins eitt svar við þeirri þróun sem átt hefur sér stað, ef menn vilja skapa jafnvægi í byggðinni í landinu. Það svar væri að breyta lýðveldinu Íslandi í sambandslýðveldi hinna fornu fjórðunga og höfuðborgarsvæðisins. Það mundi þýða að til grundvallar væru lögð fimm jafnhá lýðveldi innan sambandslýðveldisins sem bæru ábyrgð á öllum málum innan síns svæðis. Það væri valddreifing valdsins um land allt. Með þeirri aðgerð væri sjálfsagt að hvert svæði hinna fornu fjórðunga gæti gert það upp við sig hér og nú hvort það vildi vera með eða hvort það vildi segja sig úr lögum við hina hluta landsins. Það væri sjálfsagt ef höfuðborgarsvæðið vilt, ef það vill ekki una því að slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp, að það fengi þá að stofna sitt borgríki hér. Það væri spurning um mannréttindi. En það er aftur á móti jafnvitlaust og fráleitt að gera ráð fyrir að það sé sanngjarnt að veita þeim það meirihlutavald sem menn eru að tala um til að drottna yfir landinu öllu. Og þá er von að menn spyrji: Fyrst það er svona fast sótt eftir því að fá þetta meirihlutavald, til hvers ætla þeir að nota það, ef þeir fá það? Hvaða hugsun liggur á bak við það að Sunnlendingafjórðungur skuli hafa meirihlutavald á Alþingi Íslendinga? Er það bara upp á punt, er það til að stytta ferðatímann til þings? Hvaða hugsun er á bak við þetta?

Ég er sannfærður um að betur færi ef sú stefna yrði ofan á að setjast nú niður og hugleiða í alvöru að við erum að fjalla um stjórnskipulag í þessu landi, ekki mannréttindi. Þau eru ekki á dagskrá undir þessum lið. Þau geta menn kynnt sér með því að lesa mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og fylgst með því hvernig hann er túlkaður í lýðræðislöndunum í kringum okkur. Ef menn aftur á móti vilja setjast niður og hugleiða hvernig við getum tryggt sem mestar efnahagslegar framfarir í þessu landi og sem breiðasta uppbyggingu þess, þá hljótum við að staldra við núna og skoða hvort er skynsamlegra að breyta þessu lýðveldi í borgríki, eins og menn eru að tala um, eða breyta því í sambandslýðveldi. Og ég þarf ekki að skoða minn hug í þeim efnum. Ég er sannfærður um að ef því væri breytt í sambandslýðveldi mundi það þýða gífurlega uppbyggingu alls staðar á Íslandi. Það mundi þýða að í framtíðinni mundu flutningar fólks frá Reykjavík til útlanda stórlega minnka eða leggjast niður. Það eru efnahagslegar forsendur sem munu ráða því í framtíðinni hvort menn búa í þessu landi eða vilja flytja annað. Það er spurningin um hvaða laun verða greidd í landinu. Hver trúir því að það verði til að hækka launagreiðslur í þessu landi að standa þannig að málum að hrúga allri þjónustunni saman á einn blett?

Ég ætla hér að víkja örlítið að skiptingu hennar á stór-Reykjavíkursvæðinu: Opinber þjónusta 20.1%, opinber stjórnsýsla 5.7%. Við erum komnir í 25.8% í stjórnsýslu og opinberri þjónustu á þessu svæði. Er nokkur heilbrigð skynsemi á bak við svona skipulag? Hvernig haldið þið að færi fyrir risaveldunum t. d., Bandaríkjunum eða Rússlandi, ef þau tækju nú upp á því að miðstýra jafnmikið og hér virðist gert? Hvernig færi ef þeir tækju sig til og söfnuðu íbúunum saman í eina stórborg í hvoru ríkinu fyrir sig þar sem byggju um 50% af þjóðinni? Ætli það yrði til að auka hagvöxt í Bandaríkjunum ef sú stefna yrði ofan á? Ég segi nei. Ætli það yrði til að auka hagvöxt í Rússlandi ef sú stefna yrði ofan á? Ég segi nei.

Auðvitað hlýtur hvert einasta ríki sem byggir á sögulegum grunni og í sögulegu samhengi að gera sér grein fyrir því að þessi stefna leiðir af sér glötun. Hvað gerðist um leið og byggðastefnan hætti að hafa yfirhöndina um 1980? Það var hagvöxtur í þessu landi upp á 4.7% frá 1970 til 1980. Það var aðeins í Japan sem var meiri hagvöxtur. En hvað hefur gerst eftir að flóttinn brast á frá dreifbýlinu? Hagvöxturinn hraðminnkar, vegna þess að við byggjum ekki hagvöxtinn á því að safna fólkinu saman á þann veg að við séum komin með 67% í þjónustu á stór-Reykjavíkursvæðinu.

Mér er ljóst að menn vilja yfir höfuð ekki setjast niður og hugleiða þessi mál. Menn vilja bara sitja yfir tertunni og skipta henni á milli sín, eins og formenn stjórnmálaflokkanna gerðu. Menn vilja ekki setjast niður og hugleiða grunnatriði þessara mála. Menn eru algjörlega fastir í þeim hlægilegu forsendum að það eigi að ganga út frá því að það séu fjórir flokkar á Ístandi og það eigi að skipuleggja svo þessi mál að þeir fái allir jafnt út. Það er mikið að ekki er bundið í stjórnarskránni að flokkarnir skuli vera fjórir í framtíðinni svo að forsendurnar raskist nú ekki. Og hvernig skyldi þá kerfið koma út þegar flokkarnir eru orðnir sex?

Ég hygg að það væri hollt fyrir þá, sem hafa feilstigið sig í þessari umr. á þann veg að þeir telja að hér sé verið að fjalla um mannréttindi, að setjast niður og hugleiða hvernig staðið er að þessum mátum í lýðræðislöndum Vesturlanda. Hvað ætli yrði sagt í Bandaríkjunum ef menn tækju sig til og brytu niður fylkjakerfið og tækju upp miðstýringu af þessu tagi?

Mig undrar það oft, þegar umr. hafa gengið á Alþingi Íslendinga um smápeninga eins og farið hafa í gegnum Byggðasjóð til uppbyggingar úti á landi og umr. um neikvæða vexti í landinu, að þá skuli alveg hafa gleymst sú rosalega eignatilfærsla sem átt hefur sér stað í þessu landi með því að skrá gengi krónunnar stjörnuvitlaust í fleiri áratugi og láta menn hafa matador-peninga niðri í Seðlabanka í staðinn fyrir alvöru fé sem atvinnuvegirnir utan af landi öfluðu. Hvað ætli það séu miklar tilfærslur sem þannig hafa átt sér stað? Kannske veit hv. þm. Guðmundur Garðarsson eitthvað um þessa hluti. Það er í það minnsta mjög trúlegt, miðað við það starf sem hann hefur lengst af gegnt, að hann geri sér grein fyrir því hvaða fjármunatilfærslur hafa átt sér stað. Hvað er langt í að það verði farið að selja þennan gjaldeyri á frjálsum markaði? Hvar eru hugmyndir einkaframtaksins um réttlæti í þessum efnum? Má búast við að það komi tillögur um að seldur verði gjaldeyrir á Íslandi á frjálsum markaði eða á að halda eignaupptökunni áfram ef gengið verður vitlaust skráð? Hvar er virðingin fyrir stjórnarskránni og því að það megi ekki taka af mönnum eignir manna nema fullar bætur komi fyrir? Sannleikurinn er sá, að við höfum hagað okkur kjánalega hvað það snertir að skipuleggja svo uppbygginguna í landinu að hún skilaði sem mestum hagvexti fyrir Íslendinga. Og ég er ekki búinn að sjá að það sé betri kostur fyrir Reykjavík að vera eina borg landsins en hinn kosturinn að vera höfuðborg þessa lands. Mér sýnist sá kostur mun glæsilegri að hún sé höfuðborg landsins. Ég sé ekki neitt stórt eða mikilfenglegt við það að hún verði borgríki norður í höfum.