12.03.1984
Neðri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3644 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

155. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er alveg með eindæmum hvað þeim hv. formönnum hinna gömlu stjórnmálaflokka á Alþingi virðist vera brátt í brók með að knýja þetta mál í gegnum þingið. Það er engu líkara en þessir oddvitar hinna pólitísku stefna í landinu, fjórir að tölu, telji þetta það mál sem mestu skiptir fyrir framtíð lands og þjóðar á næstunni og líklega í náinni framtíð, með slíku offorsi er á þetta keyrt án þess að líta til annarra átta. Miklu nær væri þessum oddvitum hinna pólitísku stefna og fulltrúum fólksins í landinu að líta í aðrar áttir, þær áttir þar sem meira misrétti ríkir og fremur eru framin mannréttindabrot en í því máli sem það frv., sem hér er nú til umr., varðar.

Það er ekkert nýtt að umr. eigi sér stað um ójöfnuð, mannréttindaskort og annað eftir því í þjóðfélaginu. Slíkar umr. hafa átt sér stað alllengi en hafa þó upp á síðkastið tekið fremur á sig þá einkennilegu mynd að fulltrúar stór-Reykjavíkursvæðisins telja sig nú hvað mest skorta mannréttindi miðað við aðra þjóðfélagsþegna í landinu. Svo er komið að það svæði, sem um langan aldur hefur í raun og veru lifað á landsbyggðinni og þeim auð sem þaðan kemur til uppbyggingar í þjóðfélaginu, telur sig nú þurfa að fá enn meira til sín.

Það frv. sem hér er til umr. er að mínu viti aðeins tvíþætt. Annars vegar snýst það um fjölgun þm., svo nauðsynlegt sem almenningur í landinu kann nú að telja það að fjölga á Alþingi frá því sem er, og hins vegar að færa aukið vald frá dreifbýlinu til þéttbýlisins á suðvesturhorni landsins, svo vel sem það hefur nú gefist þjóðarheildinni í gegnum árin að hugsa einvörðungu um að byggja upp suðvesturhornið á landinu. Það eru þessir tveir meginþættir sem þetta frv. snýst um. Líklega hvarflar það að æðimörgum í þessu landi —líklega flestum ef ekki öllum öðrum en formönnum stjórnmálaflokkanna — að eitthvað brýnna viðfangsefni sé við að eiga og úr að leysa en að fjölga þm. frá því sem er og að draga meira vald utan af landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið en þegar er. En engu að síður einblína þessir fjórmenningar að því er virðist einvörðungu á þetta, að þetta sé sú líftaug sem fyrst og fremst og öllu öðru fremur komi til með að bjarga heill íslensku þjóðarinnar í náinni framtíð. Sé hægt að knýja þessa breytingu gegnum Alþingi, þá sé öllu borgið. Svo huggulegt sem það er eða hitt þó heldur.

Ég er undrandi á því að þetta skuli líklega vera eina sameiginlega hugðarefni fjórmenninganna sem formanna hinna gömlu stjórnmálaflokka í landinu, að knýja þessa breytingu fram á Alþingi. Í ljósi þeirrar skoðunar er það líklega rétt, sem sagt var síðast þegar þetta mál var á dagskrá á Alþingi, að þetta væri merkilegt frv. Merkilegt fyrir þá sök að í eina skiptið a. m. k. um nokkuð langan aldur eru oddvitar hinna pólitísku flokka sammála í einu og öllu um þetta mái. Það er hið merkilega pólitískt séð við þetta mál.

Það er rétt sem hv. 5. þm. Vestf. sagði hér í umr. fyrr: Það voru hrikaleg mistök hjá formanni Framsfl. þegar hann lét leiða sig út í þetta. Og hann bætti við efnislega: En meiri menn honum hafa fallið á slíku. — Það er rétt. Þetta eru varnaðarorð hv. 5. þm. Vestf., hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, til 2. þm. Vestf., samflokksmannsins; hæstv. forsrh., formanns Framsfl., að hann hafi ekki gætt nógu vel að sér, hér hafi hann stigið reglulegt feilspor, hliðarspor, sem seint kunni að verða bætt fyrir þó að á engan hátt skuli fullyrt hvort eða með hvaða hætti hlutirnir kunni að æxlast í þessum efnum þegar fram liða stundir.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði að Framsfl. hefði lagt á það höfuðáherslu að aðskilja ekki kosningalagaþáttinn og stjórnarskrármálið, það ætti að vera sem heild. Á það hefði Framsfl. lagt áherslu að báðir þessir þættir yrðu afgreiddir samhliða hér á Alþingi. Þetta var líka eindreginn vilji Alþýðuflokksins sem var margítrekaður. Alþfl. taldi að þessa tvo þætti ætti ekki að skilja að. Þessi mál, bæði tvö, ætti að afgreiða samhliða á Alþingi. Líklega hefur enginn búist við því að Alþfl. gæti fengið því ráðið þó hann berðist einarðlega fyrir þeirri skoðun en Framsfl. hefði getað fengið því ráðið hefði formanni flokksins ekki orðið fótaskortur á í dansinum við hina þrjá formennina sem að þessu máti standa. Hann er ekki vissari í taktinum en það, formaður Framsfl., að engu er líkara en að aðrir aðilar geti ruglað hann í ríminu, þvælt hann út af sporinu og leitt hann í þær ógöngur sem hv. 5. þm. Vestf. lýsti hér svo rækilega fyrir nokkrum dögum. Ég sé að hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl. nýkjörinn, brosir í kampinn yfir þessum óförum formanns Framsfl. að láta leiða sig í slíkar ógöngur.

Ég þarf ekki að taka það fram, þó að það sé raunar sjálfsagt og ekkert sé ég eftir mér í því, að ég var andvígur þessu máli þegar það var til umr. á síðasta Alþingi. Ég er ekki endilega andvígur því í sjálfu sér að leiðrétta það misvægi sem menn eru um að tala að því er varðar atkvæðavægið. Ég tel hins vegar að í þjóðfélaginu séu svo mörg og miklu brýnni verkefni sem leiðrétta þurfi en þetta — ég tala nú ekki um þetta eitt og sér — að engin rök séu til fyrir því að taka þetta mál út úr og leggja til og afgreiða það með þeim hætti sem hér hefur verið gert og nú er lagt til.

Ef menn líta til annarra átta er ég þeirrar skoðunar að hvað snertir pólitísk áhrif almennt hafi kjósendur á því svæði sem við hér erum á síst minni áhrif en það fólk, sem býr úti á landsbyggðinni. Allt stjórnsýslukerfið, hverju nafni sem nefnast kann, er smurt — og það vel smurt — og gengur fyrst og fremst fyrir það svæði sem hér er um að ræða. Almenningur úti á landi getur miklu síður hagnýtt sér eða komið á framfæri óskum sínum og þörfum til leiðréttingar sinna mála í gegnum það stjórnsýslukerfi sem hér er smurt af hinni pólitísku forustu allra flokka og gengur fyrir suðvesturhorn landsins. Þess vegna var enn síður þörf á því að rífa þetta mál eitt og sér út úr og afgreiða það.

Það er rétt sem hv. 5. þm. Vestf. sagði líka áðan að verið er að auka á miðstýringuna frá suðvesturhorni landsins með þessu. Enn var á hana bætt í lok síðasta árs til óhagræðis fyrir landsbyggðina. Ég tala nú ekki um sjávarplássin með kvótaskiptingunni. Þar er sannkölluð miðstýring á ferðinni. Ekki stóð á hv. 5. þm. Vestf. að standa að því að auka miðstýringuna með því að samþykkja kvótaskiptinguna á Alþingi. Það mál ásamt þeirri þróun, sem átt hefur sér stað með gífurlegum fólksflutningum utan af landi hingað á þéttbýlissvæðin vegna þess misréttis og óréttlætis sem landsbyggðarfólk er beitt, verður líklega til þess að við upplifum mestu fólksflutninga sem um getur í sögu lands og þjóðar ef fram heldur sem horfir vegna þessa máls.

Nú liggur fyrir að í fjölda sjávarplássa víðs vegar kringum landið, sem byggja að svo til öllu leyti sína atvinnu og afkomu á fiskveiðum og fiskvinnslu, kemur til með að ríkja allsherjaratvinnuleysi vegna kvótaskiptingarinnar um eða upp úr miðju þessu ári. Hvað hyggjast miðstýringarmenn þá taka til bragðs? Hvað skal þá gera? Hver á þá að framfleyta eða framfæra það fólk vítt og breitt í kringum landsbyggðina sem hefur skapað þann auð sem Ísland byggir á, hefur byggt á og mun byggja á svo fremi sem miðstýringarmennirnir ekki grípa þannig inn í að meina fólki að bjarga bæði sjálfu sér og þjóðarheildinni?

Hér í Reykjavík er nú hver sendinefndin á fætur annarri frá þessum sjávarplássum vegna þess geigvænlega útlits sem er á þessum stöðum vegna kvótaskiptingarinnar. Þetta kannast hv. 5. þm. Vestf. við. Ein slík nefnd hefur fundað með okkur þm. Vestf. Hún er vestan af fjörðum, frá Patreksfirði, þar sem menn sjá nú fram á að ef ekkert verður breytt út frá því sem búið er að leggja línur í sambandi við fiskveiðar og fiskvinnslu verði ördeyða, algjört atvinnuleysi, um eða fyrir mitt ár. Hvert er svar miðstýringarmanna við þessu? Hvað skal gera? Við því hafa a. m. k. allt til þessa lítil svör fengist.

Nei, það var og er annað brýnna í þessu þjóðfélagi en að fjölga þm. og draga meira vald frá dreifbýli hingað á höfuðborgarsvæðið eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm.? (Gripið fram í.) Hv. þm. á við það að þm. af þessu svæði sinni ekki þingskyldum. Það er ekki mitt mál. Sé það rétt mat hjá henni er enn síður ástæða til að fjölga þeim og ég tek undir það. Frekar mætti það vera á hinn veginn að fækka þeim. Það er verst að ekki er nema einn hv. flm. þessa frv. hér í salnum. Hina þrjá vantar.

Með því frv., sem hér var til umr. á síðasta þingi og samþykkt um fjölgun þm., um að draga meiri völd frá dreifbýlinu til þéttbýlisins, fylgdi yfirlýsing formanna stjórnmálaflokkanna þess efnis að jafnframt munu þingflokkarnir, með leyfi forseta, „beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst“. Ekki er að sjá að formenn stjórnmálaflokkanna hv. hafi komið auga á neitt atriði sem gæti fallið undir þessa yfirlýsingu þeirra úr grg. á síðasta Alþingi. A. m. k. er ekki að sjá nein merki þess að neinnar leiðréttingar sé að vænta á öðrum vettvangi en þeim sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Hér hafa því a. m. k. enn sem komið er verið gefnar falskar vonir, yfirlýsingar sem ekki verður séð að formenn stjórnmálaflokkanna hafi ætlað sér að standa við í einu eða neinu formi. Þetta er ekki spurning um ríkisstjórn eða þingmeirihluta hverju sinni. Þetta eru loforð þeirra einstaklinga í persónugervingu formanna stjórnmálaflokkanna, sem gefa þessa yfirlýsingu í nafni þeirra, að slíkt skuli gert. Og meðan ekki er staðið við yfirlýsingu af því tagi og fleiri mál koma hér inn á borð þm. til leiðréttingar þeim ójöfnuði, sem fólk víðs vegar í kringum landið býr við, mannréttindaskorti á mörgum sviðum, því fleira fellur undir mannréttindi en kosningarréttur, meðan ekkert bólar á að staðið sé við neitt af þessari yfirlýsingu sé ég ekki, herra forseti, neitt réttlæti í því að láta undan þrýstingi formannanna í þessu máli með því að knýja þetta mál áfram til n. eða afgreiðslu. Ég vil því beina því eindregið til hæstv. forseta að meðan ekkert bólar á að standa eigi við gefna yfirlýsingu formanna stjórnmálaflokkanna um leiðréttingu á öðrum sviðum verði þetta mál stöðvað. Það er engin ástæða til að taka það út úr eitt og sér, ef ekki á að standa við þær yfirlýsingar sem búið er að gefa fólki vonir um, og raunar vissu í mörgum tilfellum, að eigi að framkvæma. Ég lýsi því hér með eftir tillögum fjórmenninganna um það með hvaða hætti og í hvaða tilfellum eigi að leiðrétta það misrétti sem víða viðgengst í þjóðfélaginu og getur fallið undir það að beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna, þar sem mismunar vegna búsetu gætir helst. Fyrr en slíkar tillögur koma á borð þm. sé ég enga ástæðu til að láta þetta mál halda áfram í gegnum þingið. Eða eru oddvitar hinna pólitísku stefna í landinu virkilega að bíða eftir því að alger upplausn eigi sér stað úti á landsbyggðinni, fólksflótti frá framleiðslustöðunum til bankakerfisins og þjónustuaðilanna hér í Reykjavík, vegna þess að menn ætla að svíkja það sem þeir lofuðu fyrir kosningar? Ég geri a. m. k. ráð fyrir því að hv. þm. í heild talað sé ljóst að slíkur flótti er þegar brostinn á vegna þess gífurlega mismunar og óréttlætis sem landsbyggðarfólk er beitt af stjórnvöldum í landinu. Það er ekki bara á einu sviði eða tveimur. Það er á fjöldamörgum sviðum sem landsbyggðarfólk, fólk til sjávar og sveita vítt og breitt utan suðvesturhornsins á landinu, er beitt slíkri áþján í ójöfnuði og mannréttindaskorti. A. m. k. þeim, sem sæti eiga á Alþingi, ætti að vera orðið ljóst hversu atvarlegt mál hér er á ferðinni. En eigi að síður bólar ekki á neinu í þá átt að hér eigi að bregðast við, laga og bæta annað en það sem lagt er til í þessu frv.

Ég tók eftir því að hv. þm. Kjartan Jóhannsson, formaður Alþfl., sagði við umr. síðast þegar þetta mál var á dagskrá: „Við Alþýðuflokksmenn teljum þetta áfanga í réttindabaráttunni.“ Auðvitað er hægt að orða þetta svona. En ég sem Alþýðuflokks- og jafnaðarmaður tel þetta engan áfanga í því að leiðrétta nema því aðeins að þau mál, sem miklu brýnna eru og heitar brenna í ójöfnuði, séu líka tekin með.

Hv. þm., formaður Alþfl., sagði líka: „Það á að leiðrétta misréttið hvar sem það er.“ — Það er rétt og undir það tek ég. En mér finnst á skorta að efndir fylgi orðum í þessu efni bæði hjá hv. þm., formanni Alþfl., og hjá þeim fjórmenningum öllum sem beita sér fyrir þessu máli, knýja það hér í gegn en ætla ekkert að gera annað. Hins vegar fannst mér slæmt sem formaður Alþfl. sagði í kjölfar þessara orða. Hann sagði a. m. k. efnislega rétt, ef ekki orðrétt: Það eru engin rök að leiðrétta ekki misvægi atkvæða þó að misrétti sé annars staðar. — Það hryggir mig að slíkt skuli koma úr munni jafnaðarmanns, formanns Alþfl., merkisbera jafnaðarstefnunnar í landinu. Þetta gat komið úr munni hinna þriggja og ég held að ég hefði ekkert talið óeðlilegt við það, en þetta átti ekki að geta komið úr munni formanns Alþfl.

Eitt meginsjónarmiðið í jafnaðarstefnunni er að leiðrétta málin, en fyrst og fremst þau sem eru mest á skjön og bitna með hvað mestum þunga og óréttlæti á fólki, láta hin atriðin sem eru smærri, bitna á færri og hafa ekki eins mikil áhrif til ójöfnuðar, frekar bíða. Í ljósi þessa sjónarmiðs jafnaðarstefnunnar hefði átt að snúa sér frekar að öðrum þáttum til leiðréttingar í þjóðfélaginu sem eru þess eðlis að verið er að þrúga hundruð þúsundir fólks í landinu með alls konar óréttlæti, mannréttindaskorti, áþján, á hinum ýmsu sviðum. Hvað mundu t. d. hv. þm. Reykvíkinga segja, hvar í flokki sem þeir eru — mér sýnist að í þessu máli skipti engu máli hvar í flokki menn eru, þetta er eina óréttlætið sem þessir einstaklingar sjá í þjóðfélaginu að leiðrétta þurfi — ef börn þeirra fengju skólavist í 4–6 vikur á skólaárinu eins og hundruð barna úti um allt land, til sveita, í hinum smærri sjávarplássum verða við að búa? Ætli þessi hv. þm. rykju ekki upp til handa og fóta og teldu þetta mannréttindaskort þessum þegnum til handa? Ég hygg að svo yrði og ég væri þeim sammála. En það er ekki að sjá að gilda eigi sama um aðra þegna þessa þjóðfélags sem búsettir eru annars staðar og hafa í gegnum árin og aldirnar orðið til þess að lyfta Grettistaki, þeirri byltingu í íslensku þjóðfélagi sem orðið hefur, með því að setja sig niður á þessum framleiðslustöðum á landinu en ekki í þjónustugreinunum einvörðungu.

Hægt er að telja hér upp ótal þætti þar sem landsbyggðarfólk til sjávar og sveita er beitt slíku ofríki og óréttlæti að engu tali tekur og raunar furðulegt að það fólk sem hér á hlut að máli skuli ekki fyrir löngu síðan hafa bylt því stjórnarfari sem hefur lagt þennan klafa á þessa einstaklinga í gegnum árin. Sem betur fer eru Íslendingar ekki byltingarsinnaðir. En það kann að koma að því, verði áfram haldið á sömu braut og gert hefur verið, að menn sjái þann einn kost færan að knýja bæði fjórmenningana sem að þessu frv. standa, formenn stjórnmálaflokkanna, svo og aðra sem hafa byggt upp óréttlætið í þjóðfélaginu, viðhaldið því og ætla sér að halda því áfram, með illu ef ekki góðu til að hverfa af þeirri braut sem stefnt hefur verið á.

Ég sé að hv. þm. Friðrik Sophusson, fulltrúi Reykvíkinga og varaformaður Sjálfstfl., tekur þetta sem eitthvert gamanmál. (FrS: Ég var að brosa til þín.) En þetta er ekki gamanmál í augum þess fólks sem við þetta býr enda hefur sá hv. þm. ekki séð sér fært að hafa búsetu á þeim svæðum sem verst eru leikin. Það er þægilegra hér við bæjardyrnar. Þægindin eru meiri, lífskjörin eru betri. (Gripið fram í.) Það er rétt, hv. þm. sækir vissulega tímabundið úr ári hverju gott hugarfar, að ég vona, í þann stað sem hann er við vinnu á Vestfjörðum part úr hverju sumri. En það virðist ekki duga til þess að þessi hv. þm. geri sér grein fyrir þeim vanda sem við er að glíma hjá því fólki sem þarna býr.

Ég hef sagt áður og segi enn: Hvað skyldu þessir blessaðir menn segja, fjórmenningarnir, svo og aðrir sem aftan í þeim hanga í þessu máli, ef þeir þyrftu mánaðarlega að borga rúmlega helming af sínum tekjum til að hita íbúðarhúsnæðið sem þeir búa í? Hvað skyldu þeir segja? Skyldi það opna augu þessara manna fyrir því óréttlæti sem þar er um að ræða? Ég er mjög efins í því að það dygði. Skyldi það duga til að leiðréttingar fengjust á fleiri sviðum á því óréttlæti sem við verðum að búa við úti á landi ef þessir sömu einstaklingar, sem flytja þetta frv., vilja ráða ferðinni? Skyldi það duga ef þeir ættu að búa við svipuð samgönguskilyrði og við landsbyggðarfólk búum við árið um kring? Ég er efins í því að það dygði. Ég ætla ekki þessum hv. þm. að þeir viti ekki hvað um er að ræða. Ætli það dygði til ef til viðbótar þessu tvennu kæmi mismunurinn á menntunarmöguleikum úti á landsbyggðinni miðað við það sem þeir og þeirra búa við hér á þessu svæði? Ætli þeir mundu láta sér lynda að vera afkróaðir, einangraðir í 6–9 mánuði á ári hér á Reykjavíkurgötum, komast ekki út fyrir það eins og fjöldinn allur af fólki úti á landsbyggðinni hefur látið sér lynda? Ætli það dygði til að þeir þyrftu að búa við svipaða félagslega þjónustu á svo til öllum sviðum og fólk úti á landsbyggðinni býr við?

Ég efast um að þó að allt þetta kæmi til dygði það til að breyta hugarfari stjórnvalda til þessara mála til hins betra frá því sem nú er. Líklega væri aðeins eitt sem dygði. Það væri nokkurs konar herskylda á þetta lið allt saman upp til hópa í þeim dúr að skylda þá til að búa á þeim svæðum, sem þeir hafa dæmt til þess að verða útundan svo árum og áratugum skiptir, í nokkur ár samfleytt þannig að þeir fyndu fyrir því af eigin raun hvað hér er um að tala hjá því fólki sem við þetta býr. Líklega væri það það eina sem dygði ef á annað borð er hægt að breyta hugarfari þessara einstaklinga frá því sem það er og hefur verið.

Ég skal ekki, herra forseti, að þessu sinni hafa þessi orð öllu fleiri. Hægt væri að halda margra klukkutíma langar ræður um það óréttlæti, það misrétti, sem viðgengst allt of víða í þjóðfélaginu milli þeirra sem búa á því svæði sem stór-Reykjavíkursvæði kallast og hinna sem byggja hinar dreifðu byggðir í landinu. Þættir þess óréttlætis sem þar er um að ræða eru nánast óteljandi. Hafi nokkurn tíma verið á því þörf að stjórnvöld gerðu sér grein fyrir því hversu geigvænlegt vandamál hér er um að ræða, áþján á íbúa landsbyggðarinnar, klafa sem þeim hefur verið gert að búa við af stjórnvöldum, hefur aldrei verið meiri þörf en nú. Því að haldi áfram sem horfir í þessum málum öllum er ekki langt í það að alger fólksflótti bresti á frá plássunum til sjávar og sveita, sem sjá um framleiðsluþætti þjóðfélagsins, á það svæði sem við hér erum á og sinnir fyrst og fremst þjónustu og úrspili úr þeim gögnum og gæðum sem fólk úti á landi leggur þeim í hendur.

Það yrði fljótt að minnka í buddunni hjá Reykvíkingum og öðrum sem búa við þetta landshorn ef svo yrði að sorfið landsbyggðarfólki að það sæi sér þann einn kost að flýja vegna rangrar stefnu stjórnvalda um langt árabil, ójöfnuð á svo til öllum sviðum sem það verður við að búa. Þeir yrðu þá ekki margir eða lengi á launum í Háskólanum ef þetta fólk flyttist utan af landsbyggðinni til þessa svæðis hér. Það stækkaði þá gatið í fjárlagagerðinni til þess að greiða prófessorum svo og ýmsum öðrum álíka laun til að sjá um þá þætti sem þeir nú sjá um. Það mundi víða minnka og fljótt ef með þessu stjórnarfari verður haldið svo á málum að landsbyggðarfólk sjái þann kost einan að yfirgefa heimasvæðið vegna rangrar stjórnarstefnu, vegna óréttlætis, skammsýni stjórnvalda og flykkist hingað á suðvesturhornið. Ég held að þm. almennt ættu að gera sér grein fyrir því hversu geigvænlega stórt þetta vandamál er.

Ég ítreka að lokum, herra forseti, að ég legg áherslu á að staðið verði við þær yfirlýsingar sem formenn stjórnmálaflokkanna gáfu í grg. með hinu fyrra frv. um leiðréttingar á fleiri sviðum. Fyrr en þær eru komnar hingað á borð þm. er engin ástæða til að láta þetta mál halda áfram í gegnum þingið. Gera verður þá kröfu til þessara fjórmenninga að þeir standi við gefin fyrirheit. Við tökum ekki orðin gild lengur. Við höfum margoft heyrt fjálglegar yfirlýsingar manna um að nú skuli leiðrétt það ranglæti sem viðgengst. Nú er komið að því að standa við það. Ég krefst þess, herra forseti, að þetta mál verði nú stöðvað og það ekki látið halda áfram lengra fyrr en við fáum á borðið leiðréttingar og úrbætur á öðrum sviðum.