12.03.1984
Neðri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3650 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

155. mál, kosningar til Alþingis

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það frv. til kosningalaga sem hér er til umr. á sér langa og að mörgu leyti sérstæða sögu. l. flm., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, mælti fyrir því með fáeinum orðum á næturfundi nú fyrir jólin. Í ræðu hans er ekki að neinu ráði fjallað um frv. svo að af henni er ekki mikið hægt að fræðast um hvað flm. eru að fara. Forsrh. gerði nokkra grein fyrir málinu hér í fyrri viku. En svo vel ber í veiði að á þinginu í fyrra voru drög að þessu frv. prentuð sem fskj. með frv. til stjórnskipunarlaga og 1. flm. stjórnskipunarlagafrv., hv. þm. Geir Hallgrímsson, flutti þá ítarlega framsöguræðu. Í henni rakti hann nokkuð hvað fyrir flm. og höfundi vakir, þó ekki væri minnst þar á meginatriði, svo sem hver hinn undanskildi tilgangur frv.-flutningsins er og hver eru líkleg áhrif þessarar lagasetningar á stjórnmálaþróun og hver yrðu áhrif á framtíðarviðgang þessa þjóðfélags, ef kosningalög verða sett skv. frv. þessu.

Aðdragandi þessa frv.-flutnings er orðinn næsta langur. Síðasta kosningalagabreyting 1959 var gerð til þess að gera Sjálfstfl. kleift að stjórna landinu með hvaða einum flokki sem væri. Það varð ekki gert nema bylta þáverandi kjördæmaskipun og það gerðu þeir með stuðningi Alþb. og Alþfl. Það valdamunstur sem þá var myndað entist allt til 1971, að viðreisnarstjórnin hrökklaðist frá völdum, enda var þá Alþfl. orðinn lítils megnugur og lentu viðreisnarflokkarnir úti í kuldanum. Fljótlega hófu þeir sönginn þar um óþolandi misvægi atkvæða og að íbúar í dreifbýli hefðu margfaldan atkvæðarétt. Ekki varð þessum talsmönnum mannréttinda tíðrætt um aðstöðumun dreifbýlisbúa á öðrum sviðum né heldur mismunandi starfssviðs dreifbýlisþm. og þm. hér í Reykjavík og á Reykjanesi. Þeir létu þess ekki getið í ræðum sínum að venjulega hafa tveir af hverjum þrem alþm. verið búsettir í Reykjavík og á Reykjanesi og hefðu að sjálfsögðu aldrei liðið að nágrannar þeirra eða heimabyggðir væru órétti beittar. Herópið um misvægi atkvæða varð því tilhæfulaust, enda var það ekki sprottið af lýðræðisást heldur voru þeir sem fyrir því stóðu einkum með í huga að styrkja pólitíska stöðu sína.

Búsetuþróun í landinu getur að sjálfsögðu haft í för með sér breytingar á kosningalögum og stjórnarskrá og auðvitað hefur hér átt sér stað nokkur búseturöskun. Þess vegna lýsti Framsfl. sig loks reiðubúinn til þess að taka þátt í umr. um breytingu á stjórnarskrá og kosningalögum. Gekk okkur það til að reyna að ná fram sanngjarnri leiðréttingu sem miðaði þó að sem jafnastri lífsaðstöðu þegnanna í landinu.

Í framhaldi af þeirri viðleitni tel ég að unnt sé að samþykkja þá breytingu á stjórnarskránni sem nú er til meðferðar í þinginu, þar sem gert er ráð fyrir að núverandi kjördæmaskipan haldist, kosningarréttur verði færður úr 20 í 18 ár og heimilað að þm. fjölgi nokkuð á helstu þéttbýlissvæðunum. Þetta tel ég að unnt sé að samþykkja og þess vegna stend ég að stjórnarskrárbreytingunni, þótt mér sé hins vegar mikill efi í huga, að eðlilegt sé að taka þetta eina atriði út úr heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem komin er á lokastig. Ég er hins vegar ekki samþykkur þeirri útfærslu í kosningalögum sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. Kosningalagafrv., ef að lögum yrði, miðar ekki að jöfnun lífsaðstöðu þegnanna í landinu. Reyndar má fullyrða að við gerð þessa frv. hafi fólkið í landinu gleymst. Þetta er frv. fyrir flokkana í landinu, sem skyndilega eru orðnir aðalatriðið, ekki kjósendur, ekki fólkið. Til þess að tryggja ákveðnum flokkum bætta áhrifastöðu á Alþingi, og raunar einnig einstökum flokksfélögum, hefur höfundum frv. komið saman um að leggja niður þá eðlilegu reiknireglu við úthlutun þingsæta í kjördæmum sem við höfum búið við, „reglu hæsta meðaltals“, sem kennd er við d'Hondt, og hafa komið sér niður á fádæma vitlausa og meingallaða reiknireglu, þar sem skipting þingsæta innan hvers kjördæmis er í mörgum tilfellum í engu samræmi við vilja fólksins í viðkomandi kjördæmi.

Kjósendur í hverju einstöku kjördæmi eiga að ráða sínum þm. að mínum dómi. Það tel ég að sé lýðræði, en ekki að láta kjósendur í einhverju allt öðru kjördæmi ákveða þm. í kjördæmi víðs fjarri. Það er hægt að rekja mörg dæmi þess úr fyrirfarandi kosningum að menn með miklu hærri atkvæðatölu hefðu verið felldir fyrir mönnum með miklu lægri atkvæðatölu hefðu þessar tillögur verið orðnar að lögum. Þetta er óviðunandi og ólýðræðislegt fyrirkomulag og því verður að breyta.

Þá er þess að geta að þær reiknireglur sem Þorkell Helgason á Reiknistofnun Háskólans kom sér niður á eru mjög flóknar. Óvissa um það hverjir kjörnir hafi verið alþm. verður mun meiri en áður þar til talningu er að fullu lokið. Kosningaspár allar verða því óöruggari og hætta á mistökum eykst. Þetta eru reglur fyrir flokkana en ekki fólkið. Að vísu má segja að Framsfl. sé þar undanskilinn þar sem þingstyrkur hans kemur til með að minnka að öðru óbreyttu. Ég er ekki að biðja um einhver forréttindi Framsfl. til handa. Ég tel eðlilegt að þegar við fáum fjórðung atkvæða í landinu fáum við um fjórðung þingsæta. Ég geri heldur ekki kröfur til einhverra ósanngjarnra forréttinda handa dreifbýliskjördæmunum. En ég geri þá kröfu að fólkið í hverju einstöku kjördæmi fái að ráða því hverjir eru fulltrúar þess á Alþingi. Við bindum í stjórnarskrá að hvert kjördæmi hafi í það minnsta fimm þm. og Norðurl. e. og Suðurland sex hvort kjördæmi og þessa fulltrúa á fólkið í hverju einstöku kjördæmi að velja með lýðræðislegum hætti, en ekki kjósendur í allt öðrum kjördæmum að ákveða það eftir á hverjir hafa verið kjörnir.

Kjósendur á Reykjanesi eiga að ákveða þm. Reykjaness en ekki ákveða þm. Vestfirðinga. Það eiga Vestfirðingar sjálfir að gera. Uppbótarþingmönnum á síðan að úthluta til jöfnunar milli flokka að kosningum loknum. Reikniregla sem við höfum búið við og kennd er við d'Hondt er auðvitað miklu eðlilegri en þessi óskapnaður. Því til sönnunar má benda á að hún verður áfram notuð við kosningar til sveitarstjórna, enda mundi Sjálfstfl. t. d. enga möguleika hafa til þess að ná meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur ef svona óskapnaður yrði tekinn upp.

Þá er að geta um enn eitt markmið, sem átti að hafa að leiðarljósi við breytingar á kosningalögum, þ. e. að auka áhrif kjósenda á val frambjóðenda til þingsetu. Þessu markmiði hefur ekki heldur verið náð með því frv. sem hér er til umr. Ákvörðun um röðun frambjóðenda á lista er vandasöm o engin einhlít aðferð hefur verið fundin upp til þess. Ég tel sjálfsagt að einungis kjósendur hvers lista eigi að ráða röðun á listanum. Ég tel einnig æskilegt að sem flestir flokksmenn taki þátt í þeirri röðun. Þá vaknar sú spurning hvernig unnt sé að samræma báðar þessar leiðir.

Við höfum búið við tiltölulega trausta stjórnmálaflokka og þeir hafa verið kjölfesta í stjórnskipulagi okkar. Flokkarnir hafa verið skipuleg samtök manna sem hafa skipað sér saman um sameiginlegar hugsjónir og lífsviðhorf. En sú skipan hefur því miður riðlast í seinni tíð með alls konar laustengdum samtökum. Ég hallast helst að því að heppilegast væri að fara þá leið að flokkarnir bæru fram óraðaða framboðslista og kjósendum listans gæfist þá tækifæri til að raða á listann á kjördegi. Þessi leið hefur ýmsa ókosti, en ég er þó orðinn þeirrar skoðunar að hún sé vænlegust til að tryggja áhrif óbreyttra kjósenda. Opin prófkjör eða hálfopin eins og tíðkuð hafa verið nú um sinn, þar sem kjósendum gefst kostur á að raða upp á framboðslista annarra flokka, er afleitur kostur og ódrengilegur.

Eins og ég hef þegar tekið fram sé ég marga og stóra galla á þessu frv. til kosningalaga. Meiri hl. miðstjórnar Framsfl. samþykkti í fyrra að fallast á kosningalög sem gengju í þessa átt. Þrátt fyrir samþykkt miðstjórnar get ég ekki fengið mig til að fallast á kosningalög eins og þau yrðu skv. þessu frv. Þess vegna heiti ég á alla þm., sem hafa komið auga á hina alvarlegu annmarka frv., að sameinast um að reyna að knýja fram breytingar á frv. svo að við þurfum ekki í framtíðinni að búa við svo afleit kosningalög. Mér er það ekki sársaukalaust að verða viðskila við marga ágæta flokksbræður mína í þessu máli. En ég þykist þess fullviss að samþykkt frv. í þessu formi verði til þess að rýra mjög óeðlilega hlut dreifbýlisins og einnig stórlega hlut Framsfl. Hvorugt tel ég þjóðfélaginu til heilla.