12.03.1984
Neðri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3654 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

155. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna ummæla 3. þm. Vestf. Ég eyddi engu púðri á 3. þm. Reykn., ekki neinu. Ég taldi það ekki þess virði að eyða púðrinu. Mér fannst aftur á móti athyglisvert að hv. 3. þm. Vestf. taldi ástæðu til að skjóta dálítið á 2. þm. Vestf. Það er rétt metið hjá hv. 3. þm. Vestf. að vissulega var þar um spurningu að ræða gagnvart þeirri þróun sem hér fór fram.

Hitt er athyglisvert, að menn virðast vera svo bláeygir enn í þessum sal að þeir trúi því að formönnum stjórnmálaflokkanna sé einhver alvara með því að þeir ætli að leggja fram tillögur til að jafna lífskjör í landinu. Menn trúa því að þeim sé einhver alvara með þær hugmyndir. Það er eins og menn trúi því að það skorti fyrst og fremst tíma til þess að þeir setjist nú niður og hugsi sín mál. Það stendur ekki til að leggja fram neinar tillögur sem marktækar eru á því sviði, það blasir við. Það var eitt af því sem þeir urðu sammála um að taka út úr textanum, ef menn bera saman hvernig hann var í fyrra og hvernig hann er núna. Það er framþróun á samvinnunni. Þetta er alvaran sem blasir við.

En hinu má aftur á móti formaður Sjálfstfl. gera sér grein fyrir, að hann er ekki með þessu að byggja upp sterkan Sjálfstfl. fyrir framtíðina. Ég veit satt best að segja ekki hvort hinir gömlu foringjar flokksins hefðu talið það trúverðugt til að styrkja sjálfstæði þessarar þjóðar að vinna svo að þessum málum að það væri fyrirsjáanlegt að fjölgun þingflokkanna er fyrst og fremst það sem blasir við sem staðreynd félagsfræðilega. Og ef hv. 1. þm. Suðurl., Þorsteinn Pálsson, telur að sú fjölgun komi aðeins á vinstri kanti íslenskra stjórnmála er það mikil bjartsýni. Sögulega séð hefur slíkt hvergi gerst á Vesturlöndum þar sem slíkt kerfi hefur verið tekið upp.

Það er líka hægt að deila innan Sjálfstfl. ef kerfið er þannig upp sett að það bjóði upp á möguleika til þess að örfáir aðilar hafi jafnmikið vald og heill hópur. Og barnaskapurinn að telja að þeir séu að vinna í þágu framtíðarinnar með þessu er alveg ömurlegur. Það er ákaflega sjaldgæft að menn setjist niður eftir að þeir hafa sett fram einhverja stefnu og endurskoði sína afstöðu og breyti henni — endurskoði hana á þann veg að þeir taki skynsamlega ákvörðun eftir að hafa verið búnir að taka vitlausa ákvörðun.

Skapmiklir menn gera þetta þó stundum. Mér verður hugsað til þess þegar 1. þm. Vestf., sem er með skapstærstu mönnum þingsins, stjórnaði einu sinni fiskveiðum hér við land og gaf fyrirmæli um að það mætti fara á síldveiðar og salta um borð. Með þessu móti taldi hann að hann kæmist fram hjá því vandaverki að úthluta til allt of margra því veiðimagni sem þurfti að skipta. Jú, undir harðri stjórn og skörungsskap voru útgerðarmenn skikkaðir til að útbúa sína báta með aðstöðu fyrir tunnur um borð, það vantaði ekki, og þeir fóru á miðin og fengu í einu kasti það mikið af síld að það entist hásetunum til að salta í hálfan mánuð. Og hún flaut dauð um allan sjó út af Reykjanesi, þessi síld. Þeir komust að því, skipstjórarnir, að afköstin yrðu meiri hjá hásetunum ef þeir færu upp að landi og hefðu bátana bundna við bryggju og söltuðu þar, enda var ekkert í reglugerð ráðh. sem bannaði að það væri saltað þar sem sléttari væri sjór. Og bundnir við bryggjuna unnu þeir við að salta síldina, en stúlkurnar, sem áður höfðu unnið þetta verk í landi og kunnu það nokkuð sómasamlega, stóðu á bryggjustöplunum og höfðu gaman af. En það endaði með því að menn létu ekki hlæja að sér lengur. Þeir söfnuðu liði, héldu á fund ráðh. og tjáðu honum að annaðhvort mundi hann afnema þessa vitleysu eða þeir gerðu hann landsfrægan fyrir tiltækið. Hann tók þá skynsamlegu ákvörðun eftir að hafa hugsað sig um, og varð maður að meiri, að hann afnam vitleysuna. Og síldarstúlkur héldu áfram að salta síld en sjómenn að sjá um veiðina.

Ég á ekki von á að formenn stjórnmálaflokkanna setjist nú niður og hugsi. Það væri undarlegt tiltæki ef þeir tækju upp á því. Þó gæti hugsast að það rynnu á þá tvær grímur ef, þeir gerðu sér grein fyrir að fyrirsjáanlegur fjöldi þingflokka eftir að þetta kerfi er komið á er lágmark átta — þeir gætu orðið fleiri — og það er hugsanlegt að þeir færu að spyrja sjálfa sig að því hvort auðvelt væri að mynda ríkisstjórn í þessu landi ef við höldum áfram á þeirri braut. — En ég vil undirstrika að ég geri ekki ráð fyrir að þeir taki upp á því að hugleiða þessi mát, því að hér virðist ákvörðunin tekin eftir reglunni sem Staðarhóls-Páll hafði forðum, þegar hann sigldi góðu skipi:

Ýtar sigla austur um sjó

öldu jónum káta.

Skipið er nýtt en skerið er hró

og skal því undan láta.