13.03.1984
Efri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3656 í B-deild Alþingistíðinda. (3059)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. Ed. hefur rætt mál þetta á allmörgum fundum og skoðað það ítarlega, hygg ég að ég megi segja. Leitað var umsagnar frá allmörgum aðilum. M. a. sat Klemens Tryggvason hagstofustjóri fund með n. fyrir nokkrum dögum og veitti mjög ítarlegar og margháttaðar upplýsingar. Sama má segja um forstjóra Þjóðhagsstofnunar og starfsmenn hans, forseta Alþýðusambands Íslands og fulltrúa Vinnuveitendasambandsins. Tvær skriflegar umsagnir bárust og eru þær birtar með nál. meiri hl. Ég held að ég megi segja að nm. allir hafi verið sammála um það, enda kemur það fram í nál. minni hl., að hinn nýi vísitölugrunnur mundi réttari en sá gamli. Hitt er svo alveg rétt, sem líka kemur fram í þeirra nál., að hversu réttur þessi grundvöllur sé er kannske ekki auðvelt að dæma um svo óyggjandi sé, enda hlýtur það alltaf að verða svo í sveiflukenndu þjóðfélagi eins og á Íslandi að vísitölugrunnur hlýtur að skekkjast eftir því hvernig árferði er og hagur fólks og atvinnufyrirtækja, og neysluvenjur kunna stundum að breytast jafnvel frá ári til árs. Við þekkjum það. Sum árin eru flutt inn ógrynni af bifreiðum, önnur ekki o. s. frv. Það verður auðvitað aldrei neitt ótvírætt sem fyrir kann að liggja í þessu.

En menn eru sammála um að þessi nýi grunnur sé til bóta. Þess er einnig að gæta að lánskjaravísitala verður nokkru hóflegri eftir samþykkt þessa frv. en vera mundi án þess að það næði fram að ganga fyrir 20. þ. m. Hygg ég því að allir nm. séu sammála um að reyna að greiða fyrir framgangi málsins þannig að það fari út úr n. nú á tiltölulega stuttum fundi. Skal ég ekki verða til að tefja umr. hér, heldur þvert á móti þakka samstarfsmönnum í n. fyrir gott samstarf og afstöðu til málsins.

Það er ekkert óeðlilegt að stjórnarandstaðan beri fram brtt, við svona viðamikið mál. Þær eru í þrennu lagi og gera tillögumenn að sjálfsögðu grein fyrir þeim hér á eftir. En til að spara tíma vil ég láta mína skoðun koma strax í ljós: Að því er fyrstu brtt. varðar er það álitamál hvort endurskoða á þennan grunn á þriggja ára fresti eða fimm ára. Það er auðvitað nokkur kostnaður við slíka könnun. Hagstofustjóri mun hafa sagt að þessi könnun hefði kostað um 1.5 millj. kr. á sínum tíma, ef ég man rétt. Það er kannske ekki mikil upphæð í öllu flóðinu. Engu að síður er þar um kostnað að ræða. Og svo er hitt, sem ég áðan drap á, að sveiflurnar eru svo tíðar og stundum svo stórar að það er ekkert víst að grunnurinn yrði miklu eðlilegri þó að fresturinn yrði styttur. Ég vil þess vegna leggja það á vald Kauplagsnefndar að taka til þess úrslitaafstöðu eins og raunar er gert ráð fyrir í frv.

Um 2. brtt. er það að segja að lagt hefur verið til að meðalneysla þess landsfjórðungs sem lægstar tekjur hafi verði reiknuð sérstaklega. Nú kann að vera gott að hafa það til hliðsjónar, en það er ekki einu sinni svo að það séu alltaf kannske hæstar tekjur og lægstar í einhverjum ákveðnum fjórðungi, það getur verið miklu meiri munur innan fjórðungsins sjálfs. Við getum tekið fjórðung eins og suðurland. Þar eru tvær öflugar verstöðvar en hins vegar er þar landbúnaður og ýmiss konar iðnaðarþjónusta o. s. frv. Eitt árið kann sjávarútvegur að ganga illa — (EG: Þm. hefur misskilið till. Það er ekki landsfjórðungur, heldur fjórðungur landsmanna.) Ég bið afsökunar og þakka fyrir ábendinguna. Ég hafði ekki heyrt efni till. áður og sá hana ekki fyrr en fyrir einni mínútu. En það var ekki sök tillögumanna. Þá tek ég þetta aftur og segi að það geti verið ágætt að hafa slíka meðalneyslukönnun. En ég held að það sé algjörlega ástæðulaust að fara að lögbinda það því að Kauplagsnefnd tekur um það ákvörðun hvernig hún hagar sínum vinnubrögðum og hún er ábyggilega til þess hæfari á hverjum tíma að gera það en við getum ákveðið í eitt skipti fyrir öll í dag.

En allt eru þetta minni háttar tillögur. Ég styð þær ekki og legg til að þær verði felldar og frv. samþykkt óbreytt. En ég endurtek það að í n. ríkti mjög gott samstarf og ég þakka nm. fyrir það og vona að málið fáist afgreitt í þessari hv. deild nú í dag.