13.03.1984
Efri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3658 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Frsm. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá formanni og frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur nefndin rætt málið á allmörgum fundum en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Minni hl. hefur því skilað séráliti á þskj. 433. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundum nefndarinnar hefur komið fram að sá vísitölugrunnur sem nú er í gildi gefur ekki rétta mynd af meðalneyslu landsmanna í dag og að sá vísitölugrunnur sem frv. kveður á um að tekinn verði upp sé að öllum líkindum réttari að þessu leyti. Einnig er ljóst að mikilvægt er að leiðrétta núgildandi vísitölu framfærslukostnaðar sökum áhrifa hennar á lánskjaravísitölu og þá einkum með tilliti til greiðsluerfiðleika vegna húsnæðiskostnaðar á tímum minnkandi kaupmáttar launa.

En þótt leiða megi líkur að því að „nýi“ vísitölugrunnurinn sé nær því að mæla meðalneyslu landsmanna eins og hún er nú, þá er alls óvíst hversu réttur þessi grundvöllur er, enda er hann byggður á sex ára gamalli neyslukönnun.

Minni hl. n. telur því nauðsynlegt að hafist verði handa nú þegar við gerð nýrrar neyslukönnunar, sem lögð verði til grundvallar nýrri framfærsluvísitölu, eins fljótt og auðið er. Þótt ekki séu greiddar verðbætur á laun er vísitala framfærslukostnaðar mælikvarði á kaupmátt launa og skiptir það miklu fyrir launafólk í landinu að hún sé jafnan sem réttust. Í framhaldi af því leggur minni hl. n. áherslu á að Kauplagsnefnd kanni það eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti hvort ástæða sé til að endurskoða grundvöll framfærsluvísitölu, þannig að tryggt sé að sú vísitala sem í gildi er hverju sinni fái staðist.“

Frsm. meiri hl. kom inn á það hér áðan að eðlilegt væri að Kauplagsnefnd tæki ákvarðanir af þessu tagi. Ég tel það hins vegar mjög eðlilegt að þingið gefi út sínar viljayfirlýsingar um þetta og setji það í lög.

Hvað kostnaðinn varðar þá er ég ekki viss um að þetta atriði komi til með að auka kostnað neitt verulega því að þetta leiðir af sér að neyslukannanir verða nokkurn veginn samfelldar. Það má því hafa stöðuga vinnu í gangi. Það er alltaf kostnaður við að koma af stað nýrri vinnu, þannig að vel má vera að það sé einfaldlega kostnaðarhagræðing að þessu atriði.

„Jafnframt telur minni hl. n. mjög mikilvægt að gerð neyslukannana sé hagað á þann veg að jafnan megi fá fram til upplýsinga hvernig neyslu þess fjórðungs fjölskyldna í landinu, sem minnst hefur úr að spila, er háttað. Hér er um að ræða að hafa úrtak neyslukannana nógu stórt til að sundurgreina megi auðveldlega og þannig að marktækt sé hvernig neyslu lágtekjuhópa er háttað hverju sinni, en um það er nú litlar upplýsingar að hafa.“

Hér er einfaldlega um það að ræða að nýta sem best þá miklu vinnu sem í neyslukönnun felst. Og þar sem komið hefur í ljós hvað eftir annað hér á þinginu að engin skilgreining er til á því hvað sé láglaunahópur og að mikið skortir á að mönnum sé almennt ljóst hvernig kjörum hinna lægst launuðu er raunverulega háttað, þá tel ég brýnt að nota alla þá upplýsingaöflun, sem um er að ræða af hálfu stjórnvalda hvort sem er, til að varpa ljósi á þessi atriði.

Minni hl. n. leggur því til að frv. verði samþykkt með brtt. sem hann flytur á sérstöku þskj. Á þskj. 434 er að finna brtt. minni hl. Sú fyrsta hljóðar upp á það að í 3. gr. frv. komi „á þriggja ára fresti“ í staðinn fyrir „á fimm ára fresti“. Önnur brtt. hljóðar upp á að á eftir 3. gr. komi ný grein sem verði 4. gr. og hljóði svo:

„Kauplagsnefnd skal haga gerð neyslukannana á þann veg að sundurgreina megi þannig að marktækt sé hvernig meðalneyslu þess fjórðungs landsmanna, sem lægstar tekjurnar hefur, er háttað hverju sinni. Kauplagsnefnd skal gera ríkisstj. grein fyrir niðurstöðunum.“

Og 3. brtt. er svohljóðandi: „Á eftir 5. gr. komi svofellt ákvæði til bráðabirgða:

Kauplagsnefnd skal nú þegar hefja undirbúning að gerð neyslukönnunar sem lögð verði til grundvallar nýrri vísitölu framfærslukostnaðar.“

Með þessum breytingum leggur minni hl. n. til að frv. verði samþykkt.