13.03.1984
Efri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3659 í B-deild Alþingistíðinda. (3061)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það er óumdeilt að gamli vísitölugrundvöllurinn er orðinn úreltur og gefur ranga mynd af meðalneyslu fólks nú á tímum. Það er einnig óumdeilt að löngu er orðið tímabært að taka upp nýjan vísitölugrundvöll og reikna framfærsluvísitölu með þeim hætti sem betur samsvarar tekjuskiptingu í þjóðfélaginu en var þegar sá gamli var búinn til.

Hitt er annað mál, að frá því að þessi nýja neyslukönnun var gerð og frá því að uppi voru áform í tíð seinustu ríkisstj. um nýja framfærsluvísitölu og nýjan framfærsluvísitölugrunn hafa forsendur og aðstæður verulega breyst og þá fyrst og fremst með þeim hætti að kaupmáttur launa hefur fallið mjög verulega. Það er því ekki fjarri lagi, þó að gamli vísitölugrundvöllurinn sé harla úreltur hvað snertir meðalneyslu fólks miðað við þann nýja, að hann kunni að gefa fullt eins góða mynd af neyslu lágtekjufólks, þess fólks sem minnstar hefur tekjurnar.

Vissulega hefur sú breyting orðið að framfærsluvísitala er ekki notuð til grundvallar verðbótaútreikningi varðandi kaupgreiðslur. Eftir sem áður er framfærsluvísitala mjög mikilvægur mælikvarði á kaupmátt launa. Og það skiptir miklu máli við hvaða aðstæður og hvaða tími valinn er til þess að skipta um mælikvarða vísitölunnar. Það skiptir miklu máli að það gerist ekki svo snögglega og við þær aðstæður að verulega skekkt mynd fáist af verð- og kaupmáttarbreytingum á þeim tíma sem skipt er um grundvölt. En á þessu er einmitt veruleg hætta nú. Í fyrsta lagi vegna þess að nú, þegar verið er að lögfesta nýjan grundvöll framfærsluvísitölu þar sem matvörur og aðrar brýnustu lífsnauðsynjar vega miklu minna en áður, eru landbúnaðarvörur að hækka meira í verði en aðrar vörur. Þar að auki eru uppi áform um lækkun niðurgreiðslna á landbúnaðarvörur sem mundi hækka matvörur mjög verulega í verði. Það má því hiklaust segja að sá tími sem valinn er til að skipta um vísitölugrundvöll er afar óheppilegur að þessu leyti og óhjákvæmilegt að vara við því að sá tími sem valinn er valdi því að um verði að ræða ranga, falsaða mynd af þróun verðlags í landinu á þeim tíma þegar verið er að skipta um grundvöll.

Á hinn bóginn er því ekki að neita, að ef ekki væri tekinn upp nýr grundvöllur þá mundu lán fólks, sem margt hvert býr við mikla neyð þessa stundina vegna þess hversu lán hafa hækkað miklu meira en almennt kaupgjald í landinu, hækka meira eftir gamla grundvellinum en þeim nýja. Það væri því mikill bjarnargreiði við fólk, sem þannig er ástatt fyrir, að koma í veg fyrir að gerð yrði hér breyting á. Fyrir þessu mætti hins vegar sjá með því einfaldlega að setja lagaákvæði um það að lánskjaravísitala ætti ekki að hækka á næsta tímabili vegna hækkunar á framfærsluvísitölu meira en orðið er, með tilliti til þess hversu kaupgjald hefur hækkað lítið miðað við lánskjaravísitölu og lánskjör. Auðvitað er þetta ástand algerlega fráleitt og fordæmanlegt, að langur tími skuli líða þannig að laun séu ekki verðtryggð eða vísitölubætt en fjármagnið sé hins vegar vísitölubætt og verðtryggt. Auðvitað ætti að slíta allar vísitölur úr samhengi ef vísitala kaupgjalds er slitin úr samhengi. Og það er það sem að er nú, að fjármagnið fær fullar verðbætur og vísitölubætur en kaupgjaldið ekki. Þetta er auðvitað ástand sem er gjörsamlega óviðunandi og núverandi ríkisstj. ber fulla ábyrgð á. Það væri svo sannarlega ástæða til að rjúfa þessi tengsl nú. Þá væri ekki þessi hætta fyrir hendi varðandi gamla vísitölugrundvöllinn sem nú er bent á.

Ég tel hins vegar að ekki sé rétt af stjórnarandstöðunni að standa í vegi fyrir því að breyting sé gerð. En við teljum að ef breyting er gerð á vísitölu þyrfti það að verða með dálítið öðrum hætti en hér er gerð till. um. Þess vegna flytjum við nokkrar brtt. Í fyrsta lagi leggjum við til að á það sé lögð megináhersla að gerð sé neyslukönnun nú þegar og að þá sé hægt að taka upp vísitölugrundvöll byggðan á nýjum upplýsingum hið allra fyrsta. Í öðru lagi leggjum við til að vísitölukönnuninni eða neyslukönnuninni sé þannig hagað að hægt sé að lesa út úr henni nokkurs konar vísitölu lágtekjufólks, nokkurs konar vísitölu tekjutryggingarþega, þannig að ljóst megi verða hvaða áhrif verðbreytingar í þjóðfélaginu, einkum á matvörum og ýmsum nauðsynjavörum, hafa á kaupmátt tekna þessa fólks, auk þess sem við leggjum til að neyslukannanir séu gerðar oftar en frv. gerir ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að við höfum ekki mikinn tíma aflögu hér í Ed. til að ræða þetta mál. Ég hef fallist á það að við reyndum að afgreiða málið í dag og mun því reyna að stytta mál mitt og segja hér miklu, miklu minna en ástæða væri til og þörf væri á. Ég tel að með hliðsjón af því m. a. að miðstjórn Alþýðusambands Íslands leggur áherslu á að nýr vísitölugrundvöllur nái fram að ganga, enda þótt hún vissulega bendi á að ný neyslukönnun sé aðalatriði málsins, þá beri að taka visst tillit til þeirrar afstöðu og ekki sé eðlilegt af stjórnarandstöðu að koma í veg fyrir að nýr neyslugrundvöllur sé tekinn upp. En ég vil ljúka máli mínu með því að ítreka það sem ég hef þegar sagt: Það er veruleg hætta á því að þessi skipti á vísitölugrundvelli geti valdið því að vísitölumæling á þessum vetri sýni ranga mynd af þróun verðlags, sýni ranga mynd af þróun framfærsluvísitölu. Því verður enn um skeið í umræðum manna á milli um t. d. verðbólguþróun á þessum vetri að hafa til hliðsjónar gömlu vísitöluna og þróun hennar, einkum og sér í lagi þegar haft er í huga að matvörur eru að hækka miklu meira í verði en aðrar vörur og þar með er auðvitað kaupmáttur launa þeirra sem minnstar hafa tekjurnar að falla meira en annarra. Og ég tala nú ekki um ef svo færi að einhverjar breytingar yrðu gerðar á niðurgreiðslum. Þá er ljóst að hinn nýi vísitölugrundvöllur og þessi nýja framfærsluvísitala er alls ekki eðlilegur mælikvarði á verðbólguþróun í þjóðfélaginu á þessum vetri. En ég ætla svo sannarlega að vona að ríkisstj. detti ekki ofan í þá gryfju að fara að lækka niðurgreiðslur á matvörum og valda þannig stórhækkuðu vöruverði í landinu.

Ég læt nægja að vísa til þeirra brtt. sem stjórnarandstaðan hefur flutt, enda þótt vissulega gæti komið til greina að breyta ýmsu öðru í þessu sambandi, og þá sérstaklega frá mínu sjónarmiði séð að reyna að velja heppilegri tíma til að skipta um grundvöll heldur en ríkisstj. hefur valið.